Vertu memm

Nemendur & nemakeppni

Tímamót í VMA – Fyrsti námshópurinn í 2. bekk í framreiðslu

Birting:

þann

Tímamót í VMA – Fyrsti námshópurinn í 2. bekk í framreiðslu

Heba Finnsdóttir í kennslustund með nemendum

Það má með sanni segja að í þessum mánuði hafi orðið markverð tímamót á matvæla- og ferðamálabraut VMA þegar hófst kennsla í 2. bekk í framreiðslu.

Aldrei áður hefur VMA boðið upp á fagmenntun þjóna en skólinn hefur þó um hríð haft heimild til fullmenntunar nema í matreiðslu og framreiðslu en til þessa hafa ekki nægilega margir nemendur skráð sig til náms í framreiðslu. En nú er annað upp á teningnum og eru þrettán nemendur skráðir í 2. bekkinn í framreiðslu, að því er fram kemur á heimasíðu skólans vma.is.

Nám í öðrum bekk í framreiðslu tekur eina önn en í stað þess að hefja námið í ágúst sl. var í samráði við veitingageirann á svæðinu ákveðið að skipta náminu á tvær annir, það hófst sl. miðvikudag og er áætlað að náminu ljúki 11. mars nk. Ekki hefur verið ákveðið að svo stöddu með framhaldið en til þess að geta farið í sveinspróf þurfa nemendur einnig að hafa lokið 3. bekk í náminu.

Í tilkynningu frá vma.is segir að til þessa hefur Menntaskólinn í Kópavogi [Innskot frá vefstjóra: Hótel-, og matvælaskólinn] verið einn skóla á landinu til þess að bjóða upp á nám í framreiðslu en nú hefur VMA sem sagt bæst við.

Edda Björk Kristinsdóttir, sem hefur haft umsjón með framreiðsluhluta náms í grunnnámi matvælagreina í VMA, segist vera mjög ánægð með að þessum áfanga hafi verið náð, það skipti miklu máli fyrir skólann og þessa faggrein hér á svæðinu.

Tveir kennarar úr faginu hafa verið fengnir til þess að miðla þekkingu sinni til væntanlegra þjóna; Heba Finnsdóttir, veitingamaður á Strikinu á Akureyri, sem er hér í kennslustund með nemendunum, og Ingibjörg Bergmann, veitingamaður á Múlabergi á Akureyri.

Ingibjörg segir það mikið fagnaðarefni að loksins hafi verið unnt að hefja nám í framreiðslu á Akureyri en til þessa hafi allir þeir sem hafi stefnt á því að fullmennta sig sem framreiðslumenn eða þjónar þurft að taka faghluta námsins í MK. Fyrir marga geti verið mjög snúið að rífa sig upp frá fjölskyldu og fastri vinnu og flytja suður yfir heiðar til þess að fara í námið og því hafi nemendurnir óskað eftir að koma náminu á fót í VMA.. Hún hafi gjarnan viljað leggja þessu lið þegar eftir því var leitað.

Ef til vill kann einhverjum að finnast framreiðsla tiltölulega einfalt mál en svo er alls ekki. Það er að svo ótal mörgu að hyggja. Ingibjörg segir að grunnstefið í framreiðslunni hafi ekki breyst og sem fyrr sé númer eitt, tvö og þrjú að þeir sem starfi í faginu leggi sálina í það.

Hún segir að þó svo að grunnurinn sé sá sami og áður taki fagið þó alltaf töluverðum breytingum, öllu þessu verði gerð skil í náminu. Til dæmis hafi framreiðsluhættir tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum og ekki síður hafi orðið mikil þróun í vínfræðunum því alltaf séu að koma inn nýir vínframleiðendur með vörur sem framreiðslumenn þurfi að kunna skil á fyrir viðskiptavinina.

Mynd: vma.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið