Vertu memm

Greinasafn

Suður-Ameríka og Þýskaland

Birting:

þann

Suður-Ameríka og ÞýskalandDeinhard Riesling Trocken

Þýsk vín hafa ekki verið vinsæl á síðustu árum. Það væri hins vegar synd ef neytendur halda áfram að sniðganga þýsk vín vegna slæmra minninga um dísæt Liebfraumilch-vín. Menn ættu til dæmis að gefa Deinhard Riesling Trocken 2001 (990 krónur) gaum. Þetta vín frá héraðinu Rheinhessen er hið ágætasta vín en þó að mörgu leyti ekki dæmigert fyrir þýska vínframleiðslu.

Bragðuppbygging þess virðist mér vera meira í átt að alþjóðlegum stíl en hinum klassíska þýska Riesling-stíl. Það er mjög ljóst á lit með angan af þrúgum og grænum berjum, þarna má greina sítrusávexti en einnig hunangssætu. Þetta sambland sýru og sætu heldur áfram í munni, vínið hefur ferskleika og bit en einnig mýkt og fyllingu. Það verður þó að passa upp á hitastig vínsins og halda því köldu til að sætan nái ekki yfirtökunum. Ágætis fordrykkur eða vín með sjávarréttum þar sem einhver sæta er með í spilinu, t.d. sósunni.


Carmen Chardonnay

Vina Carmen hefur aðsetur í Maipo-dalnum skammt frá Santiago, höfuðborg Chile. Víngerð fyrirtækisins er nútímaleg og mikið hefur verið fjárfest í nýrri tækni, tæki og tólum á síðustu árum. Vín fyrirtækisins eru alla jafna vel gerð og hafa yfir sér alþjóðleg yfirbragð.

Carmen Chardonnay 2001 kostar 1.170 krónur. Þetta er létteikað hvítvín, þar sem aðaláherslan er á ávöxt en ekki við. Ferskjur og perur, niðursoðnar, með rjóma má finna í ilmi vínsins og þótt ekki fari mikið fyrir viðinum má þó greina snefil af ristaðri eik. Þetta er fremur einfalt vín í allri uppbyggingu og engar flugeldasýningar í gangi. Hins vegar er það jafnframt hnökralaust og hentar sem alhliða vín með flestu.


Santa Carolina Merlot

Annað Chile-vín í reynslusölu er Santa Carolina Rapel Merlot 2001 (1.090 krónur). Vínin frá Santa Carolina hafa verið á markaði hér um árabil og ættu því að vera mörgum kunn. Yfirvíngerðarmaður Vina Santa Carolina, Maria Pilar Gonzalez, hefur starfað hjá fyrirtækinu í rúma tvo áratugi og er ein þekktasta og virtasta konan í chilenska vínheiminum. Hún var raunar fyrsta konan í Chile sem ráðin var sem yfirvíngerðarmaður þótt fleiri hafi síðan fylgt í kjölfarið.

Þetta vín er ungt og aðlaðandi rauðvín. Litur er bjartur og ilmur einkennist af þykkri, rauðri berjaangan, plómum og rifsberjahlaupi. Þessi rauði ávöxtur heldur áfram í bragði vínsins og vínið hefur þokkalega fyllingu. Ungt og aðgengilegt vín sem ætti að henta vel með grilluðum kjötréttum í garðveislum.


Lurton Mendoza Cabernet

Handan Andes-fjallanna í Mendoza í Argentínu eru einnig umfangsmikil víngerðarsvæði, sem hafa vakið athygli víngerðarmanna um allan heim. Í þeim hópi eru bræðurnir Jacques og Francois Lurton, sem eru synir André Lurton, sem stjórnar miklu vínveldi í Bordeaux-héraðinu í Frakklandi. Bræðurnir hafa auk þess að starfa með föður sínum rekið sitt eigið fyrirtæki og framleitt vín um allan heim. Þeir hófu víngerð í Argentínu árið 1992 og eiga þar nú um 200 hektara af vínekrum.

Bodega Jacques & Francois Lurton Cabernet Sauvignon 2000 (1.190 krónur) er dökkt og þungt. Nef vínsins þykkt, kryddað og heitt með mjög þroskuðum, dökkum ávöxtum. Það er mikil sól í þessu víni, sem gefur því þykkt og mýkt en gerir það jafnframt svolítið þungt. Vín fyrir stórar, grillaðar nautasteikur.

Höfundur Einar Thoroddsen
Heimild: ÁTVR

BBC-Report

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið