Vertu memm

Vín, drykkir og keppni

Rauð úr ýmsum áttum … og kampavín.

Birting:

þann

Philippe de Rothschild

Philippe de Rothschild

Rothschild frá Chile

Franska vínfyrirtækið Baronne Philippe de Rothschild er farið að teygja anga sína víða. Það er löngu liðin tíð að þessi armur Rothschild-fjölskyldunnar einskorði sig við framleiðslu á Chateau-vínum frá Bordeaux en þekktast þeirra er Mouton Rothschild. Nýjasta afurð fyrirtækisins hér á markaðnum er Cabernet Sauvignon (1.290 kr.) frá Valle Central í Chile.

Þrúgurnar eru keyptar af chileskum bændum og vínið gert af hinum frönsku víngerðarmönnum Rothschild-fjölskyldunnar. Þetta er virkilega skemmtilegur Cabernet, þar sem einkenni þessarar þrúgu koma mjög vel fram. Þykkur og ljúfur ávöxtur, mikið af þroskuðum og sætum sólberjum, dökku súkkulaði og mildum tannínum. Vínið hefur góða þyngd og lengd. Vel gert Chile-vín í alþjóðlegum stíl. Rautt kjöt, grillað eða steikt væri kjörið meðlæti.

Santa Alicia Gran Reserva

Annað álitlegt Chile-vín er Santa Alicia Cabernet Sauvignon Gran Reserva 1998. Þetta er dökkt, þungt og mikið vín. Ilmur er mikill og þar best þroskuð ber, fyrst og fremst sólber, í bland við mikið af dökku súkkulaði, brenndum við og myntu. Það heldur áfram kraftmikið í munni, kryddað, með vott af kókoshnetum, vanillu og kryddi. Tannín eru tiltölulega mjúk en vínið hefur þokkalega snerpu. Það háir því hins vegar helst að á köflum er það nánast yfirkeyrt, það er eins og allt hafi verið sett í botn í víngerðinni. Krafturinn er mikill en lengdin hins vegar í meðallagi. Þetta vín þarf kröftugan mat til að það valti ekki yfir hann, grillað rautt kjöt, meðlæti og grillsósur ættu að hafa roð við því. Vínið kostar 1.650 krónur.

Mâcon frá d’Allaines

Mâcon er syðsta víngerðarsvæði Bourgogne. Raunar það sunnarlega að rauðvín eru gjarnan úr Gamay-þrúgunni líkt og í Beaujolais, nágrannahéraðinu í suðri. Hvítu vínin eru hins vegar framleidd úr Chardonnay, rétt eins og nær öll önnur hvítvín Bourgogne.

Oft eru þessi vín fremur lítil og létt miðað við stóru Búrgundarvínin af norðursvæðunum. Það var því einstaklega gaman að rekast á vínið

Mâcon La Roche Vineuse 2000, sem nýlega var tekið til sölu á sérlistanum (Heiðrún og Kringlan). Þetta er vín frá litlum framleiðanda, François d’Allaines, sem er af nýrri kynslóð franskra víngerðarmanna.

Í nefi má greina ferskan sítrusilm, smjör og hey. Vínið er snoturt í munni, steinefni, reykur og mjög hófstillt eikaráhrif. Þykkt, þurrt og þægilegt. Einstaklega gott matarvín fyrir humar, eða smjörsteiktan fisk með léttu meðlæti. Vínið kostar 1.660 krónur.

Champagne Pol Roger

Pol Roger Champagne Brut er glæsilegt kampavín. Það er mjög þurrt, með ágenga sýru, stíllinn flókinn, gífurlega þéttur og fágaður. Í nefi kex, þurrkaðar fíkjur og smjör, í munni er það lengdin og þéttleikinn sem heldur manni við efnið. Pol Roger er með bestu kampavínshúsunum og í þetta vín eru allar þrjár þrúgur héraðsins, Chardonnay, Pinot Noir og Pinot Meunier notaðar í svipuðum hlutföllum. Þetta kampavín kostar 2.790.

Le Rime

Banfi Le Rime er Toskana-vín, athyglisverð blanda úr þrúgunum Pinot Grigio og Chardonnay. Ég man ekki eftir að hafa séð þessa samsetningu, en hún er vel heppnuð. Það eru einkenni Pinot Grigio sem ráða ferðinni, þótt Chardonnay hafi meira vægi í blöndunni. Létt, ferskt og sýrumikið vín. Meðalþyngd í bragði og hreinn og fínn ávöxtur. Sumarlegt í nefi, sykurlegin Granny Smith-epli og sætur sítrus, lime og greipávöxtur. Þetta er ljúft vín, sem hentar vel sem fordrykkur. Vínið kostar 1.390 kr.

Georges Dubeouf Beaujolais-Villages

Georges Dubeouf er einhver traustasti framleiðandi Beaujolais-héraðsins og vín frá honum valda sjaldan vonbrigðum. Beaujolais-Villages 2000 frá Dubeouf hefur þykka blóma- og sæta berjaangan. Jarðarber og hindber koma fram í munni með léttri sýru, mjúkri áferð og þægilegri. Ljúft sumarvín. Þetta vín er gott með bragðmildum ostum, kjúklingaréttum og jafnvel grilluðum fiski.

Höfundur Steingrímur Sigurgeirsson.
Heimild ÁTVR

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið