Hinrik Carl bauð upp á sýnikennslu í pikklun og pæklun, þar sem hann fór yfir ýmis afbrigði af pikklun og pæklun og hvernig skemmtilegt er að vinna með matþörunga á þennan hátt.
Crisscross matarferðir og bændur á Bjarteyjasandi buðu til fjöruferðar í gær, sunnudaginn 25. apríl, þar sem Eydís Mary Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur og Hinrik Carl Ellertsson meistarakokkur, höfundar bókarinnar “Íslenskir matþörungar” fóru um fjöruna á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði þar sem þau fræddu sælkera um klóþang og aðra fjöruþörunga.
Sjá einnig:
Bókin Íslenskir matþörungar tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021
Á meðal þess sem að hópurinn tíndi var klóþangsbelgi og það var piklað og komumst þau að því hvernig hægt er að gera klóþang að herramannsmat, uppfullum af hollustu.
Vegna samkomutakmarkana voru eingöngu 18 sæti í boði á námskeiðinu.
„Þetta voru semsagt 2 ferðir, ein fjöruferð þar sem ég fór með hópinn um fjöruna á Bjarteyjarsandi og lét þau smakka ALLA þörungana og fólk gat týnt það sem það vildi til að taka með heim, t.d. marinkjarna(wakame), beltisþara(kombu), purpurahimnu (nori), sjávartrufflu, krækling og margt fleira.“
Sagði Eydís í samtali við veitingageirinn.is aðspurð um fjöruferðina í Hvalfirði.
„Seinni ferðin var í rauninni námskeið. Við byrjuðum á fjörumó, þar sem við tíndum klóþangsbelgi, sem eru einskonar ber eða ávextir sem vaxa á klóþangið eftir áramót og falla svo af þegar líður á maímánuð.
Þeir eru einstaklega skemmtilegir undir tönn og hægt að nota á fjölbreyttan hátt í matargerð. Pikklaðir líkjast þeir furðumikið kapers og má nota þá á sama hátt. Eftir fjörumóna fengu þátttakendur lambasamloku að hætti húsfreyjunnar á Bjarteyjarsandi, en það var heimabakað brauð með sölvamajó, með beltisþaragrilluðu lambi, salati og sjávartruffluolíu.
Að máltíð lokinni var Hinrik með sýnikennslu í pikklun og pæklun, þar sem hann fór yfir ýmis afbrigði af pikklun og pæklun og hvernig skemmtilegt er að vinna með matþörunga á þennan hátt.“
Matþörungar eru einstaklega næringarríkir og séu þeir meðhöndlaðir rétt einnig gómsætir. Vorið er fullkomin tími til að tína klóþangsbelgi, en svo kallast lítil uppblásin æxlunarfæri klóþangs, sem detta af þegar líður á sumarið.
Úr klóþangsbelgjum má útbúa sjávarkapers, sem frábært er í ýmsar uppskriftir. Sjávarkapers má helst lýsa sem kapers með sjávarkeim og djúpu umami bragði. Svo sannarlega það besta úr sjó og fjöru.
Með fylgja með myndir frá sælkeraferðinni.
Að lokum bendum við á þennan skemmtilega facebook hóp fyrir áhugasama um íslenska matþörunga:
Ertu að elda úr íslenskum matþörungum? Þá er þessi fb-hópur fyrir þig
Myndir: Eydís Mary Jónsdóttir, Hinrik Carl Ellertsson