Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Góð stemning og öflugt fagfólk á fundi Klúbbs Matreiðslumeistara hjá Bako

Birting:

þann

Góð stemning og öflugt fagfólk á fundi Klúbbs Matreiðslumeistara hjá Bako

Janúarfundur Klúbbs Matreiðslumeistara Reykjavíkur var haldinn í húsakynnum Bako Verslunartækni að Draghálsi 22 og tókst með afburðum vel. Fundargestum var tekið af mikilli hlýju og boðið upp á veitingar í notalegu umhverfi, þar sem góð stemning ríkti frá upphafi. Félagar söfnuðust saman í salnum, kynntu sér vöruúrval fyrirtækisins í hillum og áttu líflegt og ánægjulegt spjall sín á milli.

Árni Þór Arnórsson, formaður KM Reykjavíkur, flutti stutt ávarp þar sem hann fjallaði um hinn glæsilega hátíðarkvöldverð sem haldinn var í Hörpu laugardaginn 10. janúar. Kvöldverðurinn var með allra glæsilegasta móti og endurspeglaði fagmennsku, metnað og öfluga samvinnu þeirra fjölmörgu aðila sem komu að framkvæmd hans. Veitingageirinn.is mun á næstu dögum birta myndir, myndbönd og nánari umfjöllun um hátíðarkvöldverðinn.

Sverrir Hauksson, forstjóri Bako Verslunartækni, bauð fundargesti velkomna og fór yfir sögu fyrirtækisins sem og framtíðarsýn. Hann greindi frá því að eitt af meginmarkmiðum Bako væri að skapa eins konar dótabúð fyrir fagfólk, þar sem áhersla væri lögð á fjölbreytt vöruúrval og lausnir sem henta ólíkum viðskiptavinum með mismunandi þarfir, bæði hvað varðar það besta og það næstbesta í faglegu samhengi. Jafnframt kynnti hann nýjan starfsmann fyrirtækisins, Jóhannes Kristjánsson, sviðsstjóra veitingasviðs, sem er vel þekktur og reynslumikill innan veitingageirans.

Sjá einnig: Jóhannes Kristjánsson hefur hafið störf hjá Bako Verslunartækni (BVT)

Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs Matreiðslumeistara, fór síðan ítarlega yfir undirbúning og framkvæmd hátíðarkvöldverðarins í Hörpu. Hann lagði áherslu á einstaka samvinnu fagmanna og aðstoðarfólks sem saman skiluðu ótrúlega fallegum réttum og eftirminnilegri upplifun fyrir gesti kvöldsins. Þá fór hann einnig yfir þau verkefni sem fram undan eru á árinu 2026, en árið mun einkennast af fjölmörgum matreiðslukeppnum og öflugri kynningu á íslenskri matargerð bæði innanlands og utan.

Undir liðnum önnur mál var rætt um Gala kvöldverðinn, þar sem farið var yfir hvað hefði tekist vel og hvað mætti gera betur til framtíðar. Samhljómur var meðal fundargesta um að alltaf væri svigrúm til umbóta í verklagi og framkvæmd. Happdrætti var að vanda á sínum stað með glæsilegum vinningum, og mæting á fundinn var afar góð, en rúmlega 40 manns sóttu hann.

Formaður, ritari og stjórn KM Reykjavíkur lýstu þakklæti sínu fyrir jákvæðni, góða þátttöku og skemmtilega samveru félagsmanna. Klúbburinn þakkar jafnframt Bako Verslunartækni kærlega fyrir frábærar móttökur og fyrir að vera sterkur bakhjarl Klúbbs Matreiðslumeistara og Kokkalandsliðsins.

Í tilkynningu frá Bako Verslunartækni segir meðal annars að fyrirtækinu hafi þótt mikill heiður og ánægja að taka á móti öllum þeim frábæru matreiðslumeisturum sem mættu á fyrsta fund ársins. Þar kemur fram að glatt hafi verið á hjalla og mikil stemning ríkt fyrir nýju starfsári klúbbsins og þeim spennandi viðburðum sem fram undan eru, og að lokum er öllum fundargestum þakkað hjartanlega fyrir komuna.

Myndir: Klúbbur Matreiðslumeistara

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið