Vertu memm

Markaðurinn

Sushi í nýjum búningi: Ofnbakað, rjómakennt og ómótstæðilegt

Birting:

þann

Sushi í nýjum búningi: Ofnbakað, rjómakennt og ómótstæðilegt

Ef þú ert sushi aðdáandi eins og ég þá er þetta eitthvað sem þú munt elska! Rétturinn er í sjálfu sér ekki flókinn og hægt er að undirbúa hann með fyrirvara ef þig langar að bjóða upp á hann t.d. í matarboði eða veislu.

Í botninn á eldföstu móti fer gott lag af sushi hrísgrjónum, þar ofan á fara rifin nori blöð, því næst blanda af risarækjum og laxi með hreinum rjómaosti, japönsku majónesi og sriracha sósu. Svo er þetta toppað með sesamfræjum, vorlauk og meira af japanska majónesinu og sriracha.

Dásamlegt að bera fram með niðurklipptum nori blöðum, gúrkubitum og avocado.

Innihald:

2 bollar sushi hrísgrjón
2 msk. hrísgrjónaedik
1 msk. sykur
1⁄2 tsk. salt
300 g risarækjur, soðnar
300 g eldaður lax
120 g rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn
50 g japanskt majónes
1 1⁄2 msk. sriracha sósa
1 pk. nori blöð
svört sesamfræ
wasabi sesamfræ
saxaður vorlaukur
sojasósa
avocado, magn eftir smekk
agúrka

Aðferð:

Skref 1

  • Byrjið á því að elda sushi hrísgrjónin: Skolið hrísgrjónin vel og hellið vatninu af. Endurtakið þar til vatnið verður glært.
  • Setjið svo hrísgrjónin í pott með köldu vatni og látið liggja í bleyti í 30 mín. Hellið þá vatninu af og setjið tvo bolla af vatni í pottinn.
  • Setjið lokið á og kveikið undir. Leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann strax niður í lægsta hita. Varist að taka lokið af á meðan þau sjóða.
  • Sjóðið grjónin í 15 mín. og slökkvið svo undir og leyfið pottinum að standa óhreyfðum með lokinu á í 10 mín.

Skref 2

  • Hitið ofninn í 200°C með blæstri.
  • Penslið laxinn með örlítilli olíu og saltið og piprið.
  • Bakið laxinn í ofninum í ca. 15 mín. Einnig er gott að nota airfryer og styttið þá eldunartímann örlítið.
  • Saxið rækjurnar mjög smátt og setjið í skál.
  • Takið roðið af laxinum og bætið út í skálina með rækjunum.
  • Setjið rjómaost, japanskt majónes og sriracha sósu saman við og blandið vel saman.

Skref 3

  • Setjið hrísgrjónin í eldfast mót og þjappið vel.
  • Takið þrjú nori blöð og kremjið og rífið smátt og dreifið yfir hrísgrjónin
  • Smyrjið rækju- og laxablöndunni yfir hrísgrjónin og nori blöðin og sléttið úr.
  • Bakið í 10 mín. og setjið svo á grillstillinguna í ofninum og bakið áfram í 5 mínútur.

Skref 4

  • Sprautið japönsku majónesi yfir heita bökuna ásamt sriracha sósu.
  • Stráið þá svörtum sesamfræjum, wasabi sesamfræjum og söxuðum vorlauk yfir.
  • Gott er að klippa restina af noriblöðunum í fernt og bera fram með sushi-inu ásamt avocado sneiðum og gúrkubitum.

Sushi í nýjum búningi: Ofnbakað, rjómakennt og ómótstæðilegt

Höfundur: Valgerður Gréta Gröndal – gottimatinn.is

Uppskriftirnar á veitingageirinn.is eru frá fagmönnum og áhugafólki á matargerð sem skilar fjölbreyttum og bragðgóðum uppskriftum til þín. Ef þú lumar á uppskrift sem þú vilt birta á veitingageirinn.is sendu okkur þá uppskriftina ásamt nafni á [email protected]

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið