Vertu memm

Smári Valtýr Sæbjörnsson

Hafið fiskverslun | Ingimar matreiðslumaður situr fyrir svörum

Birting:

þann

Eyjólfur og Ingimar

Eyjólfur og Ingimar

Hafið fiskverslun er sælkeraverslun sem sérhæfir sig í ferskum fiski og tilbúnum girnilegum réttum beint í ofninn eða á grillið.

Þeir eru með tvær verslanir staðsettar í Hlíðarsmára 8 Kópavogi og Spönginni 13 Grafarvogi.

Veitingageirinn kíkti við í Hlíðarsmáranum og hittum þar fyrir eigandann Eyjólf Júlíus Pálsson og matreiðslumanninn Ingimar Alex, en hann lærði fræðin sín á Lækjarbrekku og útskrifaðist um vorið 2007. Ingimar hefur starfað á Hótel holti, Sjávarkjallaranum svo fátt eitt sé nefnt, en til gamans getið þá sigraði Ingimar keppnina um Eftirrétt ársins 2010.

Ingimar tók okkur í smá ferðalag um búðina og gaf okkur góð ráð og “tips“ um hvernig á að haga sér í kringum fiskinn.

Fiskborðið í Hafinu

Fiskborðið í Hafinu

Ingimar byrjaði á að sýna okkur fiskborðið í Hafinu sem er sneisafullt af góðgæti úr sjónum. Úrvalið af tilbúnum réttum kom okkur mjög á óvart og þangað er hægt að fara og næla sér í teriyaki lax, löngu í auturlensku karrí, bleikju í mangó og chili, og fiski fajitas vefjur svo fátt eitt sé nefnt.

-Hvernig mundir þú lýsa Hafinu fiskverslun?

Við erum sælkeraverslun með allt sem tengist fiski og leggjum mikið uppúr þjónustu við viðskiptavini okkar hvort sem um er að ræða sérþarfir eða bara ráðgjöf um eldun eða þess háttar….það á enginn að fara út frá okkur nema kokhraustur og ákveðinn þegar hann fer heim að elda fiskinn frá okkur.

, sagði Ingimar í samtali við veitingageirinn.is

Ýsa og Þorskur selst lang mest af öllum fisktegundum en þessar tegundir eru notaðar í svo margt hjá okkur svo sem ýsa í karrí og kókos, ýsa í raspi, þorskur í hvítlauk og basil, plokkfiskur og svo líka fersk flök og hnakkar. Þetta er svona þessi klassíski fiskur sem að verður að vera í fiskverslun og svo leikur maður sér í kringum það.

, aðspurður um hvað er vinsælast í búðinni hjá þeim.

Hafið Fiskverslun

 

Núna er sumartími og þá er fólk mikið að fara í útilegur, uppí bústað og grilla. Stílið þið meira inná grillvæna rétti núna?

Já við erum með troðið borð alla daga af dýrindis fisk og skelfisk á grillið og reynum að hafa sem flest í borðinu mjög grillvænt.

Eru einhverjar ákveðnar tegundir af fisk sem er betra að grilla en aðrar?

Nr. 9 humar askja

Nr. 9 humar askja

Já það er ekki alveg sama hvað maður grillar. Lax, bleikja, steinbítur, langa, keila og skötuselur eru þæginlegustu tegundirnar á grillið af því að þetta er svoldið feitur fiskur og þéttur í sér og þar af leiðandi festist hann síður við grillið og dettur ofaní það. Og fitan hjálpar til við að halda fisknum safaríkum eftir heitt grillið.

Svo erum við með mjög stóran og flottan humar sem er mjög vinsæll á grillið, tígrisrækjuspjót og fiskispjót með þrem tegundum af fisk marineruðum í mismunandi brögðum.

Nú eru margir oft hálf hræddir við að grilla fisk útaf því að það misheppnast oft hjá fólki er eitthvað sérstakt sem það á að gera eða bara gefast upp?

Svarið við þessu er stórt NEI ekki gefast upp! Það er fátt betra en fullkomlega eldaður fiskur. Ef allir gætu eldað fisk fullkomlega frá fæðingu þá væri ég og margir kollegar mínir atvinnulausir akkurat núna! Æfingin skapar meistarann í þessu eins og mörgu öðru.

Fyrstu mistök sem flestir gera er að ofelda allan fisk hvort sem hann er grillaður, steiktur eða í ofninum og þá verður hann þurr og vondur. Fiskur þarf oftast mun styttri eldunartíma en fólk heldur en það kemur með tímanum að finna fullkomna tíman sem að getur verið mjög breytilegur eftir því hvað er verið að grilla og hversu þykkir bitar/steikurnar eru. Það er líka góð ástæða fyrir því af hverju kokkar eru alltaf með puttana í matnum það er ekki til að vera töff, sóðalegur eða neitt svoleiðis heldur til að finna hvernig eldunin er og hvað hann þarf að eldast mikið lengur og þetta er tilfinningin sem að þú þarft að læra að finna fyrir því hvað þú ert að gera.

Lax og bleikja er eitthvað sem má alltaf elda frekar minna en meira… það elska allir sushi svo ekki vera hræddur um að elda laxinn þinn of lítið.

Mjög gott er að leyfa fisknum að standa á borðinu í 4-5min eftir að hann kemur úr ofninum eða af grillinu til að leyfa honum að jafna sig. Allur hitinn í kringum fiskinn veldur því að safinn flýr hitann og fer inní miðju á fisknum og þarf tíma til að flæða aftur útí allan fiskinn og það gerir hann safaríkari. Oft er talað um að láta fiskinn “hvíla sig“ og það sama á við um kjöt.

Svo er líka mjög gott og “safe“ að grilla fiskinn á rifluðum grillbaka úr áli sem að við seljum einnig hjá okkur. Þá er fiskurinn bara í bakkanum þegar hann eldast og engin hætta á því að hann festist við grillið því hann snertir það aldrei en þú færð samt grillbragðið og áferðina sem þú vilt.

Vonandi að þessi ráð hjálpi einhverjum.

 

Eruð þið með eitthvað sniðugt meðlæti með fisknum?

Já við erum með kryddaða grænmetisblöndu, kartöflur í hvítlauk og rósmarin, sætar franskar kartöflur, rösti kartöflur sem er allt afgreitt í álbökkum tilbúið í ofninn eða á grillið. Svo að sjálfsögðu nýjar íslenskar kartöflur sem vonandi heiðra okkur með nærveru sinni eitthvað fram á haustið.

Svo erum við nýlega farnir að framleiða kaldar sósur sem hafa slegið í gegn hjá viðskiptavinum okkar og eru eiginlega að ganga langt framar vonum í sölu. Þetta eru fimm tegundir: Sítrónugras sósa, Grillsósa Hafsins, Hvítlaukssósa Hafsins, Chili majones og Fiskisósa Hafsins . Hvet alla sem koma við að kaupa sér fisk að grípa sér sósu með til að prufa. Svo ef það er afgangur af Chili majóinu eða Fiskisósu Hafsins að þá mæli ég með að dýfa papriku skrúfum (snakki) í þær. Besta ídýfan sem þú færð.

Hafið Fiskverslun

 

Er eitthvað uppáhalds í búðinni?

Lax í sesam og engifer með sætum frönsku kartöflum og sítrónugrassósu fær mig til að hætta við að fara út að borða. Svo eru það fiski fajitas vefjurnar okkar, flottar í matarboðið og kokkurinn getur verið gestur í friði frá eldhúsinu.

, sagði Ingimar hress að lokum.

Hafið fiskverslun:

 

Myndir: aðsendar

/Smári

twitter og instagram icon

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss Lagersala - Stórkaup
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið