Frétt
Yfirlýsing SVEIT vegna fyrsta skrefs afléttingar
Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hefur sent frá sér tilkynningu varðandi fyrsta skref afléttingar sem tilkynnt var eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Sjá einnig:
Umtalsverðar tilslakanir innanlandstakmarkana frá og með 29. janúar
SVEIT fagna fyrstu skrefum afléttinga á samkomubanni en harma að ekki skuli gengið lengra í frelsisátt.
Á undanförnum mánuðum hafa veitingahús orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna ákvarðana stjórnvalda og neyðarástand skapast í greininni. Brýnt er að stjórnvöld bæti tjónið með viðeigandi aðgerðum og það tafarlaust, enda eru mörg veitingafyrirtæki í miklum vanda. Ljóst er að launagreiðslur um mánaðamótin verða mjög þungar, segir í tilkynningu.
Rekstraraðilar hafa barist í bökkum vegna samkomutakmarkana undanfarin tvö ár, en reynt með öllum ráðum til að halda sér á floti. Þetta hafa flestir rekstraraðilar gert með ómældu vinnuframlagi, skuldsetningu eða tæmt varasjóði sína. Á síðastliðnum 689 dögum hafa veitingahús starfað við fullt frelsi í eingöngu 34 daga, en annars hafa stjórnvöld skert frelsi þeirra til tekjuöflunar.
Engin atvinnugrein þolir slíkar skorður á sinni starfsemi og nokkrar góðar vikur bæta á engan hátt það tjón sem orðið hefur á undanförnum tveimur árum vegna fyrirmæla stjórnvalda, sem gjarnan hefur hert tökin án fyrirvara.
SVEIT harmar að gengið sé á stjórnarskrárvarin rétt fólks til atvinnufrelsis, án eðlilegra skaðabóta. Það er krafa SVEIT að tjónið verði bætt á sanngjarnan hátt áður en það verður of seint fyrir fleiri fyrirtæki í greininni.
„Ófyrirsjáanleikinn, langur viðbragðstími og gjörsamlega óviðunandi starfsumhverfi fyrirtækja á veitingamarkaði sökum samkomubanns er til skammar í okkar „frjálsa hagkerfi“ og lýðræðislega samfélagi. Því kallar SVEIT eftir beinum stuðningi tafarlaust! “
Segir í tilkynningu.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp í þeim yfirlýsta tilgangi að bæta umrætt tjón. SVEIT fagnar slíkri fyrirætlan, en telur ætlaðan stuðning á engan hátt í samræmi við skaðann. Hámarksbætur eru ekki í samræmi við þann fjárhagsvanda sem meirihluti veitingastaða eru komnir í. Ekki er heldur tekið tillit til hækkunar launakostnaðar, annars rekstrarkostnaðar og hækkunar opinberra gjalda á greinina, sem hefur aukið byrðar veitingastaða. Þrepaskipt skilyrði fyrir skaðabótum vegna tekjutaps eru ekki byggð upp með réttum hvata.
SVEIT hvetur til þess, að þekkt úrræði frá fyrstu mánuðum heimsfaraldurs séu notuð – t.d. styrkur með starfi, enda sé í þeim fólgin jákvæður hvati sem styðji við þann hluta rekstrar sem mest er nauðsyn á.
Í tilkynningu kemur fram að það er með öllu óásættanlegt að eftir þriggja mánaða tímabil harðra samkomutakmarkana sé eina aðstoð frestun staðgreiðslu og tryggingargjalds. Gálgafrestur sem leysir ekki vandann heldur frestar honum. Eftir tveggja ára baráttu er sárið stærra en svo, að það verði lagað með plástri.
SVEIT skorar á stjórnvöld að horfast í augu við alvarleika málsins og koma fram með beina aðstoð tafarlaust.
-
Uppskriftir2 dagar síðan
Jóla gúrkur – Asíur
-
Keppni4 dagar síðan
Grétar Matthíasson keppir í kokteilagerð um helgina í stærsta spilavíti í Evrópu
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Vel heppnað eftirréttanámskeið Iðunnar og Ólöfu Ólafsdóttur Konditor og eftirréttameistara – Myndir og vídeó
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Nýr Indverskur veitingastaður opnar í Miðbæ Selfoss
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fullbúin bás til sölu á besta stað í Mathöll Höfða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Girnilegt smurbrauð hjá Skál á nýjum jólamatseðli
-
Frétt4 dagar síðan
KS hyggst kaupa B. Jensen – Ágúst Torfi: Ég get staðfest að það eru alvarlegar viðræður í gangi…
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Jól á Ekrunni