Markaðurinn
Rósasalat – Salatið sem fær diskinn til að blómstra – Uppskriftir með rósasalati
Rósasalat, einnig þekkt sem smjörsalat eða butter lettuce á ensku, er fallegt og bragðgott salat sem hentar vel í ýmsa rétti. Nafnið er dregið af lögun blaðanna, sem minna á rósaknúp.
Hjónin Magnús og Sigurlaug á garðyrkjustöðinni Hveratún rækta þetta salat af kostgæfni. Rósasalat geymist vel í kæli í að minnsta kosti 15 daga og er tilvalið á hamborgara, samlokur eða í salatskálar með öðru grænmeti.
Með fylgja þrjár af uppskriftum Nönnu Rögnvaldardóttur í samstarfi við islenskt.is sem hafa orðið ómissandi í eldhúsum landsmanna.
Frönsk antipasti með Rósasalati
Innihaldslýsing:
Rósasalat
3-4 íslenskir tómatar, vel þroskaðir
1-2 íslenskar paprikur, ferskar eða grillaðar
2 – 3 harðsoðin egg
½ Höfðingi, Dala-brie eða annar ostur
Hráskinka eða annað kjötálegg í sneiðum
Grænar eða svartar ólífur
½ knippi fersk basilika
Nýmalaður pipar
Sjávarsalt
Aðferð:
Rósasalatið rifið sundur, þvegið og þerrað og síðan er blöðunum raðað á stóran, kringlóttan disk eða fat.
Tómatarnir skornir í báta, paprikurnar í ræmur, eggin í báta og osturinn í bita. Hráskinkan eða kjötáleggið í sneiðum eða rifið niður í ræmur.
Öllu raðað ofan á salatblöðin og basilikuknippi sett í miðjuna.
Kryddað með pipar og sjávarsalti og berið fram með nógu af góðu brauði, annað hvort sem forréttur eða léttur aðalréttur.
Rósasalat með marineruðum sveppum
Innihaldslýsing:
250 g íslenskir kastaníusveppir eða hefðbundnir
2 vorlaukar, saxaðir smátt
3-4 msk steinselja, söxuð
5-6 basilíkublöð, söxuð
1 msk ferskt rósmarín, saxað (nota má ýmsar aðrar kryddjurtir)
Nýmalaður pipar
Salt
100 ml ólífuolía
1/2 sítróna
1 gúrka
4-5 tómatar, vel þroskaðir
1 búnt Rósasalat
Aðferð:
Sveppirnir skornir í þunnar sneiðar.
Kryddjurtunum blandað saman í skál ásamt pipar og salti.
Olíunni hrært saman við og síðan safanum úr sítrónunni. Sveppirnir settir út í og blandað vel. Látið standa í um hálftíma.
Salatið rifið niður og dreift á fat eða í víða, grunna skál.
Tómatarnir og gúrkan skorið niður í báta og dreift í hring ofan á salatið og síðan er sveppunum ausið í miðjuna.
Kryddleginum sem eftir er í skálinni dreypt yfir.
Rósasalat með baunum og ólífum
Innihaldslýsing:
4 tómatar, vel þroskaðir
200 g kirsuberjatómatar
1 gúrka
1 dós kjúklingabaunir
12-15 grænar ólífur, steinlausar
1 rauðlaukur
1 búnt Rósasalat
4 msk olía
1 msk epla- eða hvítvínsedik
2-3 msk steinselja, söxuð
Nýmalaður pipar
Salt
Aðferð:
Tómatarnir skornir í helminga, fræin skafin úr þeim með skeið og þeir síðan skornir í geira.
Kirsuberjatómatarnir skornir í tvennt.
Gúrkan skorin í litla teninga.
Vökvanum hellt af kjúklingabaununum, ólífurnar skornar í tvennt eða þrennt og rauðlaukurinn saxaður smátt.
Allt sett í skál ásamt Rósasalatinu og blandað vel.
Olía, edik, steinselja, pipar og salt hrist eða hrært vel saman, hellt yfir salatið og blandað.
Látið standa smástund áður en það er borið fram.
Skoðið fleiri uppskriftir á islenskt.is.

-
Markaðurinn3 klukkustundir síðan
Veitingastaður á Arnarstapa til sölu – einstakt tækifæri í töfrandi umhverfi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Pizzabakarinn opnar á Siglufirði – Theodór Dreki: „Við hættum ekki fyrr en pizzan var fullkomin“
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Harry tekur við rekstri Nauthóls – Tómas og Sigrún kveðja eftir níu dásamleg ár
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Valinn borðbúnaður frá Churchill og Dudson með sérstökum viðbótarafslætti
-
Markaðurinn5 dagar síðan
ÓJ&K-ÍSAM – Opnunartímar apríl og maí 2026
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Kokkafatnaður fyrir lítil og stór eldhús – sjáðu úrvalið á netinu eða í verslun
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Zendaya hjálpar Tom Holland að skapa nýjan bjór án áfengis – Tom Holland: „Ég vil hjálpa öðrum“
-
Starfsmannavelta1 dagur síðan
Nýr veitingastjóri á Strikinu – Elísabet Ingibjörg tekur við keflinu