Vertu memm

Frétt

Ríkisstjórnin samþykkir enn frekari efnahagsaðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins

Birting:

þann

Hrun - Covid 19

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. Er þar annars vegar um að ræða tillögur að útvíkkun tekjufallsstyrkja, en frumvarp um þá er þegar til meðferðar á Alþingi, og hins vegar nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem ætlað er að styðja við rekstur fyrirtækja á komandi mánuðum.

Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gerðar verði breytingar til útvíkkunar á frumvarpi um tekjufallsstyrki þannig að úrræðið nái til fleiri rekstraraðila og gildi í lengri tíma. Tekjufallsstyrkir eru hugsaðir til að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins frá vori til nóvembermánaðar (1. apríl – 31. október). Úrræðið mun nýtast fjölmörgum einstaklingum og fyrirtækjum sem m.a. hafa þurft að sæta takmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana án þess að hafa verið gert að loka:

– fallið er frá skilyrðum um hámarksfjölda starfsmanna (3 skv. frumvarpi);
– lagt er til að styrkir verði veittir fyrir allt að 5 stöðugildi;
– styrkfjárhæð tekur mið af rekstrarkostnaði og tekjufalli: rekstraraðilar sem verða fyrir 40-70% tekjufalli geta átt rétt á styrk að fjárhæð 400 þús.kr. á mánuði á hvert stöðugildi, en sé tekjufallið 70-100% getur styrkur orðið 500 þús.kr. á hvert stöðugildi á mánuði;
– tímabil er lengt í sjö mánuði frá 1. apríl sl. að telja;
– hámarksstyrkur verður samkvæmt þessu 17,5 m.kr. á rekstraraðila.

Dæmi um styrkveitingar miðað við framangreindar breytingar er að finna hér að aftan.

Ennfremur mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram frumvarp sem nú er í undirbúningi um nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem gert er ráð fyrir að verði veittir í framhaldi af tekjufallstyrkjum og fram á næsta ár. Úrræðinu er ætlað tryggja að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónaveirufaraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist. Um viðspyrnustyrki munu gilda sambærileg skilyrði og eiga við um tekjufallsstyrki og verða þeir veittir með reglulegum greiðslum yfir a.m.k. sex mánaða tímabil eða allt fram á mitt næsta ár.

Þá ræddi ríkisstjórnin um mögulega framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem rennur út nú um áramót. Hefur félags- og barnamálaráðherra þegar hafið undirbúning að framlengingu úrræðisins.

Loks má nefna að Alþingi hefur til meðferðar frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um framhald lokunarstyrkja. Í því felst að heimildir til greiðslu lokunarstyrkja miðast ekki eingöngu við takmarkanir sóttvarnaryfirvalda sem þegar hafa komið til framkvæmda heldur taka einnig til frekari takmarkana sem kunna að koma til síðar. Mun úrræðið ná til þeirra sem gert er að loka eða stöðva starfsemi og miðast undirbúningur að framkvæmd þess við að hægt verði að taka við umsóknum um lokunarstyrki um leið og málið er afgreitt á Alþingi.

Markmið framangreindra aðgerða er að tryggja sem best getu fyrirtækja til öflugrar viðspyrnu að faraldrinum loknum, að viðhalda samkeppnishæfni og að einfalda sem mest framkvæmd aðgerða til aðstoðar rekstraraðilum.

Dæmi um styrkveitingar miðað við framangreindar breytingar á fyrirliggjandi frumvörpum.

Rekstraraðili með fimm starfsmenn eða fleiri  sem gert var að loka (lokunarstyrkur og tekjufallsstyrkur)

Lokunarstyrkur í vor 3.600.000
Lokunarstyrkur í sept 1.000.000
Lokunarstyrkur í okt og til 3. nóv 2.900.000
Tekjufallsstyrkur ef 70% – 100% tekjufall 17.500.000
Hámark tekjufallsstyrks ef rekstraraðili hefur fengið hámark lokunarstyrkja fyrir

lokanir til 3. nóv.

10.000.000

 

Lokunarstyrkur í vor 3.600.000
Lokunarstyrkur í sept 1.000.000
Lokunarstyrkur í okt og til 3. nóv 2.900.000
Tekjufallsstyrkur ef 40% – 70% tekjufall 14.000.000
Hámark tekjufallsstyrks ef rekstraraðili

hefur fengið hámark lokunarstyrkja fyrir lokanir til 3. nóv.

6.500.000

Rekstraraðili með 5 starfsmenn eða fleiri sem ekki var gert að loka en myndi eingöngu eiga rétt á tekjufallsstyrk – miðast við hámark tekjufallsstyrks

70% – 100% tekjufall 17.500.000 2.500.000 á hvern mánuð
40% – 70% tekjufall 14.000.000 2.000.000 á hvern mánuð

Mynd: úr safni

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið