Vertu memm

Frétt

Frumvarp um framlengingu lokunarstyrkja samþykkt í ríkisstjórn

Birting:

þann

Veitingastaður

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Frumvarpið felur í sér framlengingu lokunarstyrkja til þeirra sem hafa tímabundið þurft að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnaráðstafana og orðið af verulegum tekjum vegna þess. Lagt er til að úrræðið verði í öllum meginatriðum sambærilegt og gilt hefur um fyrri lokunartímabil í faraldrinum.

Lagt er til að hámarksfjárhæð lokunarstyrkja verði hækkuð úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. en hækkunin er í samræmi við tímabundinn ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna heimsfaraldurs Covid-19. Upphaflega gilti tímabundni ramminn til 31. desember 2020 en hann hefur verið framlengdur og gildir nú út júní 2022.

Gert er ráð fyrir að sótt verði um styrkina á vef Skattsins, þar sem nánari skilyrði verða tilgreind.

11 milljarðar í beina styrki

Frá upphafi heimsfaraldursins í mars 2020 hafa stjórnvöld veitt fjölbreyttan stuðning í úrræðum fyrir einstaklinga og rekstraraðila. Má auk lokunarstyrkja nefna viðspyrnu- og tekjufallsstyrki, útgreiðslu séreignarsparnaðar, sérstakan barnabótaauka og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldursins en heildarumfang COVID ráðstafana árin 2020 og 2021 nam 215 milljörðum króna.

Helstu sértæku efnahagsúrræði stjórnvalda vegna faraldursins runnu sitt skeið á nýliðnu ári en samhliða kröftugum efnahagsbata á árinu hafði aðsókn í úrræðin minnkað . Þá hafa sértæk úrræði stjórnvalda vegna faraldursins nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu vel, sem og fyrirtækjum í veitingarekstri. Alls hafa fyrirtæki í veitingarekstri fengið 11 ma.kr. í beina styrki frá hinu opinbera auk þess sem greinin hefur nýtt sér ríkistryggð lán fyrir ríflega 2 ma.kr. og skattfrestanir.

Fyrr í vikunni var, í ljósi hertra sóttvarnartakmarkana, mælt fyrir frumvarpi um sérstaka veitingastyrki á Alþingi og frumvarpi sem heimilar fyrirtækjum í tilteknum flokkum veitingaþjónustu, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds.

Mynd: úr safni

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið