Pistlar
Ferðasaga frá Rússlandi
Dagana 2. til 8. október var ég undirritaður og Gissur Guðmundsson, Norðurlanda og Evrópuforseti matreiðslumanna við dómarastörf í Moskvu á risastórri matvæla og tækjasýningu sem heitir Krokus.
Einnig var með okkur konan mín Valgerður. Er þetta í þriðja sinn sem ég fer til Moskvu fyrir sama aðilann. Í fyrsta skipti með námskeið í matreiðslu í metnaðarfullum skóla og í seinni tvö skiptin sem dómari.
Keppnin heitir The International Kremlin Culinary Cup og er haldin af Hótel og veitingahúsasambandi Rússlands og er alþjóðleg.
Rússar sjálfir, Rúmenar, Suður Kórea, Tyrkir, Ítalir, Þjóðverjar, Eistland, Serbar og margar fleiri þjóðir kepptu. Keppt var í ýmsum einstaklingskeppnum, köldum borðum, þjóðlegum mat o.fl. Þarna var líka keppt í uppsetningu og mat á hlaðborðum, en það höfðum við ekki séð áður.
Það er skemmst frá því að segja að þetta var mikil vinna þessa daga, en keppnin byrjaði á þriðjudeginum kl 9.00 til kl 17.00 með nánast engum hléum og svona var þetta alla dagana og var sértaklega mikið að dæma á föstudeginum. En dómararnir skiptust á að dæma heitt og kalt. Síðasti dagurinn var laugardagurinn og vorum við þá búnir um kl 16.00 en þá var verðlaunaafhendingin eftir, en hún stóð yfir í 3 tíma.
Var okkur dómurunum boðið út að borða á hverju kvöldi á góð veitingahús strax eftir dæmingarnar og útreikningana og náðum við ekki að fara uppá Hótel í millitíðinni. Gissur var yfirdómari og leysti það starf vel af hendi. Sá hópur sem að keppninni stóð á heiður og hrós skilið fyrir góða skipulagningu og gott viðmót sérstaklega vil ég nefna Elenu Shramco sem er mikill sykur og súkkulaðilistamaður og rekur sinn skóla þarna í Moskvu og einnig þær Olgu og Marinu Surkovu sem stóðu í ströngu sem reddarar og túlkar. En mikið var um að túlka þyrfti á milli manna.
Við Gissur vorum sammála um að gott og gaman hefði verið að koma til Moskvu í þetta sinn þó svo að dæmingar hefðu verið strembnar. Um Moskvu og Rússa þarf ekki að segja mikið allir vita að borgin er mjög sérstök og andstæður miklar og Rússar gott fólk heim að sækja. Fannst okkur Gissuri að okkur væri sýnt mikið traust og heiður að vera valdir dómarar í svona stórri og fjölbreyttri alþjóða matreiðslukeppni.
Þá má geta þess að stór hluti af þessu öllu fyrir bæði mig og Gissur var að sjálfsögðu að hitta kollega okkar sem við höfðum dæmt með áður og einnig nýja dómara. Var kátt á hjalla á kvöldin þá stuttu stund sem menn höfðu til skrafs og ráðagerða.
Á Lokakvöldinu var okkur boðið á diskótek/matsölustað og þurfti Gissur að ljúka ákveðnu máli þar og halda ræðu. Var hann kallaður upp í hátalarakerfinu hvað eftir annað en var vant við látinn og kom ekki strax. Þetta endaði svo á því að allt diskótekið öskraði Gissur ! Gissur! Gissur! og þegar kappinn svo loks mætti brutust út þvílík fagnaðarlæti að þakið ætlaði af húsinu, samt vissi eiginlega enginn hvað Gissur átti eða ætlaði að gera þarna.
En þetta var bara skemmtilegt og er þetta dæmi um hressleikann sem var í þessari ferð. Það voru svo stoltir fulltrúar KM sem flugu heim á sunnudeginum.
© Jakob H. Magnússon matreiðslumeistari.
Mynd: Guðjón Þór Steinsson
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Spennandi tækifæri
-
Bocuse d´Or2 dagar síðan
Myndir: Það styttist í herlegheitin – Sindri keppir fyrir Íslands hönd 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Frétt3 dagar síðan
Menntun í matvælaiðnaði ekki metin til launa í leikskólum – Kallað eftir endurskoðun
-
Frétt4 dagar síðan
Myllan innkallar heimilisbrauð
-
Pistlar3 dagar síðan
Gæðakerfi: Lykillinn að skilvirkum rekstri, minni sóun og ánægðari viðskiptavinir
-
Bocuse d´Or1 dagur síðan
Sindri keppir í Bocuse d´Or
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Útlit hins sígilda íslenska Brennivíns hefur verið uppfært – Ákveðin framþróun í bragði Brennivínsins m.a. með tærari kúmenkeim en áður var
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Wolt nær annarri sneið af pítsuumarkaðnum með samningi við Domino’s