Vertu memm

Frétt

Sindraskel nýr landnemi á Íslandi – Jamie Oliver elskar þessar skeljar – Vídeó

Birting:

þann

Hnífskel - Sindraskel

Um áramótin 2020/2021 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp., e. razor clams) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar.

Ekki er vitað til þess að áður hafi fundist hnífskeljar við Ísland ef frá er talinn fundur tveggja dauðra eintaka árið 1957 í fjörunni við Lónsfjörð á Suðausturlandi, en þetta kom fram á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var 14 október s.l.

Þær voru taldar vera af tegundinni E. magnus, sem Ingimar Óskarsson nefndi fáfnisskel. Í norðanverðu N-Atlantshafi hafa fundist sex tegundir hnífskelja. Þær eru líkar innbyrðis og getur verið erfitt að greina þær að.

Í fyrstu var talið að nýi landneminn tilheyrði tegundinni E. leei, en niðurstöður erfðagreiningar á eintakinu frá Hafnará staðfesta að um er að ræða tegundina Ensis terranovensis, sem við höfum nefnt sindraskel. Skammt er síðan tegundinni var lýst og hefur hún einungis fundist áður við Nýfundnaland. Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði fer vaxandi.

Oftast eru slíkar framandi tegundir taldar berast með kjölvatni skipa, áfastar skipskrokkum eða með eldisdýrum sem flutt eru milli hafsvæða. Ætla má að sindraskeljarnar hafi borist hingað sem lirfur í kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd N-Ameríku, líklega fyrir 5–10 árum.

Hnífskeljar geta orðið allstórar, allt að 20 cm langar, og þykja hnossgæti. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg.

Jamie Oliver elskar að elda þessar skeljar og birtir girnilega uppskrift á vef sínum hér.

Joe Gurrera sýnir í meðfylgjandi myndbandi hvernig á að elda Sindraskel:

Mynd: nmsi.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Í dag starfar Smári hjá Tónaflóði heimasíðugerð. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar >>

Frétt

Frumvarp um framlengingu lokunarstyrkja samþykkt í ríkisstjórn

Birting:

þann

Veitingastaður

Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Frumvarpið felur í sér framlengingu lokunarstyrkja til þeirra sem hafa tímabundið þurft að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnaráðstafana og orðið af verulegum tekjum vegna þess. Lagt er til að úrræðið verði í öllum meginatriðum sambærilegt og gilt hefur um fyrri lokunartímabil í faraldrinum.

Lagt er til að hámarksfjárhæð lokunarstyrkja verði hækkuð úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. en hækkunin er í samræmi við tímabundinn ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna heimsfaraldurs Covid-19. Upphaflega gilti tímabundni ramminn til 31. desember 2020 en hann hefur verið framlengdur og gildir nú út júní 2022.

Gert er ráð fyrir að sótt verði um styrkina á vef Skattsins, þar sem nánari skilyrði verða tilgreind.

11 milljarðar í beina styrki

Frá upphafi heimsfaraldursins í mars 2020 hafa stjórnvöld veitt fjölbreyttan stuðning í úrræðum fyrir einstaklinga og rekstraraðila. Má auk lokunarstyrkja nefna viðspyrnu- og tekjufallsstyrki, útgreiðslu séreignarsparnaðar, sérstakan barnabótaauka og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldursins en heildarumfang COVID ráðstafana árin 2020 og 2021 nam 215 milljörðum króna.

Helstu sértæku efnahagsúrræði stjórnvalda vegna faraldursins runnu sitt skeið á nýliðnu ári en samhliða kröftugum efnahagsbata á árinu hafði aðsókn í úrræðin minnkað . Þá hafa sértæk úrræði stjórnvalda vegna faraldursins nýst fyrirtækjum í ferðaþjónustu vel, sem og fyrirtækjum í veitingarekstri. Alls hafa fyrirtæki í veitingarekstri fengið 11 ma.kr. í beina styrki frá hinu opinbera auk þess sem greinin hefur nýtt sér ríkistryggð lán fyrir ríflega 2 ma.kr. og skattfrestanir.

Fyrr í vikunni var, í ljósi hertra sóttvarnartakmarkana, mælt fyrir frumvarpi um sérstaka veitingastyrki á Alþingi og frumvarpi sem heimilar fyrirtækjum í tilteknum flokkum veitingaþjónustu, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds.

Mynd: úr safni

Lesa meira

Frétt

Mælt fyrir frumvarpi um veitingastyrki á Alþingi – Getur numið 90% af rekstrarkostnaði fyrir hvern almanaksmánuð

Birting:

þann

Veitingastaður

Mælt var fyrir frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna Covid-19 á Alþingi í dag. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstakir rekstraraðilar geti fengið að hámarki um 10-12 milljóna styrk á fjögurra mánaða tímabili.

Fyrirhugaðir veitingastyrkir fela í sér áframhaldandi stuðning við mikilvæga atvinnugrein sem hefur orðið fyrir tjóni vegna sóttvarnartakmarkana síðustu vikur. Úrræðin í frumvarpinu byggjast í öllum meginatriðum á grunni viðspyrnustyrkja sem veittir voru á síðasta ári en eru sérsniðin að veitingarekstri, sem hefur sætt takmörkunum umfram flestar atvinnugreinar.

Getur numið 90% af rekstrarkostnaði fyrir hvern almanaksmánuð

Lagt er til að rekstraraðilar veitingastaða sem hafa orðið fyrir minnst 20% tekjufalli í almanaksmánuði frá desember 2021 til mars 2022, vegna takmarkana á opnunartíma, geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu. Úrræðið er ekki bundið við fyrirtæki með langa rekstrarsögu, heldur er gert ráð fyrir að veitingastaðir sem opnuðu í fyrra geti notið úrræðisins – að því gefnu að önnur skilyrði laganna séu uppfyllt.

Styrkurinn getur numið 90% af rekstrarkostnaði þann almanaksmánuð sem umsókn varðar, en ekki hærri fjárhæð en nemur tekjufalli rekstraraðila viðkomandi mánuð. Styrkurinn getur jafnframt ekki orðið hærri en að 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu og allt að 2,5 m.kr. á mánuði ef tekjufall var 20-60% en allt að 600 þús.kr. fyrir hvert stöðugildi og allt að 3 m.kr. á mánuði ef tekjufall var meira en 60%. Samanlagðir styrkir til einstakra rekstraraðila vegna tímabilsins alls geta því að hámarki orðið 10 til 12 m.kr.

Samkvæmt frumvarpinu þurfa umsækjendur að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksumsvif, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og um að vera ekki í gjaldþrotameðferð.

Líkt og gildir um lokunar-, tekjufalls- og viðspyrnustyrki er lagt til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferli vegna styrkjanna verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum.

Gott samtal við fulltrúa fyrirtækja í veitingarekstri

Frumvarpið sem mælt var fyrir í dag byggist m.a. á góðu samtali fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fulltrúa fyrirtækja í veitingarekstri, en alls hafa fyrirtæki í greininni fengið um 11 milljarða króna í beina styrki frá hinu opinbera vegna faraldursins. Með áframhaldandi stuðningi er markmiðið, eins og áður, að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið.

Mynd: úr safni

Lesa meira

Frétt

Ólögleg sykurtegund í lágkolvetnafæði – Sala á vörunni er óheimil í Evrópu

Birting:

þann

Ólögleg sykurtegund í lágkolvetnafæði - Sala á vörunni er óheimil í Evrópu

Matvælastofnun varar við Good Dees sugar free maple syrup og chocolate chips sem fyrirtækið Focused ehf. flytur inn og selur í netsölu. Alluosa sykurtegundin sem er í vörunum er flokkað sem nýfæði í Evrópu sem hefur ekki farið í áhættumat og ekki vitað hvort það sé öruggt til neyslu.

Salan er því óheimil í Evrópu.

Heilbrigðiseftirlitið í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavog hefur farið fram á það við innflytjandann að fjarlægja vöruna úr netsölu og innkalla frá neytendum. Fréttatilkynning frá heilbrigðiseftirlitinu hefur verið birt.

  • Vörumerki: Good Dees
  • Vöruheiti: Sugara free maple syrup og chocolate chips
  • Framleiðandi: Good Dees
  • Innflytjandi: Focused ehf., Funalind 13, 201 Kópavogur
  • Lotunúmer/best fyrir dagsetningar: Allar lotur / dagsetningar
  • Dreifing: www.lowcarb.is

Nánari upplýsingar fást hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í netfanginu [email protected]

Samsett mynd: heilbrigdiseftirlit.is

Lesa meira

Podcast / Hlaðvarp

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:

Mest lesið