Frétt
Nýja Kaffibrennslan kaupir Kaffitár
Samkomulag hefur náðst milli hluthafa Nýju kaffibrennslunnar ehf. og Kaffitárs ehf. um kaup þess fyrrnefnda á Kaffitári. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Á þeim rúma aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun Kaffitárs hefur fyrirtækið markað djúp spor í sögu kaffiframleiðslu á Íslandi. Kaffitár selur hágæða kaffi sem keypt er beint frá kaffiræktendum eða „án krókaleiða frá býli til bolla.“ Félagið rekur kaffibrennslu, pökkun og dreifingu sem þjónustar verslanir og fyrirtæki. Kaffihús Kaffitárs eru fjögur talsins og bjóða úrval
kaffidrykkja og meðlætis með kaffinu. Kaffitár rekur einnig Kruðerí ehf., sem er handverksbakarí með áherslu á gæði og hreinleika. Markmiðið með stofnun þess var að bjóða brauð og bakkelsi í sama háa gæðaflokki og kaffi Kaffitárs. Kruðerí er framleiðslufyrirtæki, en rekur jafnframt tvö kaffihús og bakarí sem njóta góðs af sterku vörumerki Kaffitárs.
Nýja kaffibrennslan ehf. var stofnuð árið 2000 eftir samruna Kaffibrennslu Akureyrar og Kaffibrennslu Ó. Johnson & Kaaber. Þar sameinuðust tvær elstu kaffibrennslur landsins sem höfðu framleitt kaffi fyrir Íslendinga frá árinu 1924. Nýja kaffibrennslan er systurfyrirtæki heildsölu Ó. Johnson & Kaaber ehf. og Sælkeradreifingar ehf., sem þjónusta bæði smásölumarkaðinn og veitingahúsamarkaðinn.
Systurfélögin hafa það að markmiði að bjóða ætíð vörur af sem bestum gæðum á hagstæðu verði, framúrskarandi þjónustu og áreiðanleika í öllum viðskiptum. Kaup Nýju kaffibrennslunnar á Kaffitári falla því vel að markmiðum og gildum félaganna og munu styrkja rekstur þeirra til framtíðar. Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs, mun starfa áfram með nýjum eigendum í kjölfar viðskiptanna.
Íslandsbanki var ráðgjafi seljanda og Fjármálaráðgjöf Deloitte var ráðgjafi kaupenda.
Ólafur Ó. Johnson, stjórnarformaður Nýju kaffibrennslunnar:
„Kaffitár er sterkt og rótgróið vörumerki á íslenskum markaði sem við teljum að verði öflug viðbót við samstæðu Ó. Johnson & Kaaber. Kaffitár er þekkt fyrir gæðavörur og góða þjónustu. Við teljum að við séum að stofna til sambands sem bæði félögin og ekki síst viðskiptavinir muni hljóta hag af og munum áfram byggja á því góða orðspori sem félögin hafa lagt metnað í að byggja upp.“
Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi og forstjóri Kaffitárs:
„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og hlökkum til að vinna með nýjum eigendum að rekstri Kaffitárs og Kruðerís. Nýir eigendur byggja á gömlum og traustum grunni og við teljum að þeir muni leggja mikið af mörkum við að styrkja og efla starfsemina á jákvæðan hátt fyrir fyrirtækið í heild, starfsfólk þess og viðskiptavini.“
Í tilkynningu segir að aðilar munu ekki tjá sig nánar um viðskiptin fyrr en aflokinni skoðun Samkeppniseftirlitsins.
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Spennandi tækifæri
-
Bocuse d´Or2 dagar síðan
Myndir: Það styttist í herlegheitin – Sindri keppir fyrir Íslands hönd 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Frétt3 dagar síðan
Menntun í matvælaiðnaði ekki metin til launa í leikskólum – Kallað eftir endurskoðun
-
Frétt3 dagar síðan
Myllan innkallar heimilisbrauð
-
Pistlar3 dagar síðan
Gæðakerfi: Lykillinn að skilvirkum rekstri, minni sóun og ánægðari viðskiptavinir
-
Bocuse d´Or1 dagur síðan
Sindri keppir í Bocuse d´Or
-
Vín, drykkir og keppni3 dagar síðan
Útlit hins sígilda íslenska Brennivíns hefur verið uppfært – Ákveðin framþróun í bragði Brennivínsins m.a. með tærari kúmenkeim en áður var
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Wolt nær annarri sneið af pítsuumarkaðnum með samningi við Domino’s