Vertu memm

Greinasafn

Er Jamie Oliver bestur?

Birting:

þann

Alfreð Ómar AlfreðssonBreski kokkurinn Jamie Oliver er sannarlega heitasti kokkurinn í dag. Þáttaraðir hans frá BBC hafa verið sýndar við gríðarlegar vinsældir í heimalandinu og víðar. Heyrst hefur að serían sé væntanleg hingað til lands en bók hans „Kokkur án klæða“ kom út fyrir síðustu jól og er hægt að skoða kafla úr henni hér á síðunni.

Lykillinn að velgengni Jamie Oliver er annars vegar fersk og hressileg framkoma, jafnvel svolítið aulaleg. Hann er svona venjulegur búðingur sem gerir hlutina afslappað og lætur líta út fyrir að þetta komi allt eðlilega. Látið er líta út fyrir að þættirnir séu teknir upp heima hjá honum og vinir hans kíki í heimsókn. Þetta er auðvitað allt saman tilbúningur, heimilið er bara sjónvarpsstúdíó og félagarnir býsna þekktir sumir hverjir, eða henta tilefninu alveg sérlega vel, þ.e. ekki allt saman æskufélagar Jamie!

Framleiðendur þáttana uppgötvuðu Jamie þegar hann vann á hinum þekkta veitingastað River Café við Thames ánna í Lundúnum og höfðu þeir þegar gefið út sjónvarpsefni og bækur tengt þeim stað. Formúlan er sögð frá þeim komin að mestu en það verður ekki af Jamie tekið að hann hefur gríðarlega hæfileika og persónutöfrar hans eru það sem gerir þættina jafn vinsæla og þeir eru. Jamie Oliver hefur náð að höfða til fólks sem hefur alla jafna ekki áhuga á matreiðslu en jafnframt er efni hans það gott og matreiðslan á það háu plani að fagmenn hafa einnig tekið ástfóstri við hann öfugt við marga aðra sjónvarpskokka sem hafa ekki alltaf notið virðingar stéttarbræðra sinna. Það hjálpar honum líka að hann er ungur og menn gefa honum sjens, en eftir því sem frægð hans eykst þá aukast kröfurnar til hans. Hann má passa sig á frægðinni því í kringum hann er mikið batterí sem vill græða á honum og hann hefur ekki alltaf passað sig á því við hvað hann hefur lagt nafn sitt. Mér þótti til að mynda afleitt að kaupa bók í Glasgow á dögunum, þegar ég var á keppnisferðalagi með kokkalandsliðinu, sem innihélt ótrúlega ómerkilegan formála eftir kappann. Bókin var um veitingastaði í Glasgow og var í skemmstu máli ótrúlega ótrúverðug. Svona sölumennska er það sem gengur oft frá mönnum og eyðileggur gott orðspor.

Þá að matreiðslunni. Hún er fyrst og fremst ítölsk með fjúsjón yfirbragði. Margir hafa sett samasemmerki milli Jamie Oliver og fjúsjón eldhússins en það er misskilningur að mínu mati, þetta er í grunninn klassísk ítölsk matreiðsla sem hann léttir upp og bætir inní áherslu á lífræna ræktun. Bakgrunnur hans á River Café kemur skýrt fram, fílósófían er að láta hráefnið njóta sín og hafa bragðIð sem náttúrulegast. Hann leggur einfremur áherslu á að réttirnir séu einfaldir og praktískir og eigi að vera við hæfi hvers manns að elda heima hjá sér.

Þetta er stór þáttur í vinsældum hans. Jamie Oliver er kokkur alþýðunnar sem fær fólk til þess að trúa því að eldamennska sé ekkert mál. Flestir rétta hans eru að sönnu við hvers manns hæfi en þó má gagnrýna hann fyrir að láta þetta líta heldur létt út og hann hafi aðlagað prófessíónal uppskriftir að heimilinu. Allir fagmenn vita að þetta að eru miklar ýkjur en almenningi líkar þetta vel, fólk fær aukið sjálfstraust og til þess er leikurinn gerður.

Hinsvegar veit ég til þess að fólk sem hefur eldað eftir uppskrifum hans hefur komist að því að þær eru nú heldur flóknari en þær líta út fyrir að vera og margar tímasetningar standast ekki, eru einfaldlega miðaðar við vel þjálfaða matreiðslumenn. Ég skora því á fólk að lesa uppskriftirnar með gagnrýnum huga, reyna að rýna aðeins í þær og sjá vel út hvernig þetta mun ganga fyrir sig. Þó að vera aldeilis ófeimið að skella sér útí djúpu laugina því uppskriftir hans eru gegnumsneytt mjög góðar.

Ég hef sjálfur lesið bækur Jamie Oliver, bæði „Kokkur án klæða“ og nýju bókin „The return og the Naked Chef“. Nýja bókin er gott framhald, ákaflega svipuð bók – svona eins og framhaldsmynd í bíó! Ég hef notað sumar uppskriftir hans og aðlagað að eigin smekk. Þær hafa reynst mér vel og fengið góðar undirtektir hjá gestum Sommelier. Hann er rosalega góður í pastaréttum, fiski og ljósu kjöti en fremur dapur í kjötréttum, sérstaklega eru nautakjötsréttirnir slappir að mínu mati.

Ég virði Jamie Oliver geysilega og hann hefur gert mikið fyrir fagið, komið því meira til almennings og dregið af því helgislepjuna sem margir meistarkokkar af franska skólanum hafa vilja sveipa fagið. Það væri frábært að fá Jamie Oliver einhverntíman í heimsókn til Íslands og heyrst hefur að hann hafi sýnt mikinn áhuga á því að kíkja til okkar. Honum fannst mikið til þess koma að bókin hans kæmi út á íslensku og hafði heyrt frá kollegum sínum af River Café sem heimsóttu Ísland fyrir ári síðan og voru m.a. viðstaddir opnunina hjá okkur á Sommelier, að matreiðsla hér á landi væri í háum gæðaflokki. Ef af heimsókn Jamie Oliver verður, er víst að kátt verður í höllinni því frægari kokk höfum við vart fengið hingað til lands. Við krossum puttana og vonum hið besta en á meðan getum við skemmt okkur yfir lestri bókar hans og þáttunum sem til eru á myndbandi.

Kær kveðja
Alfreð Ómar Alfreðsson
 
 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið