Smári Valtýr Sæbjörnsson
Bjórgarðurinn – Veitingarýni
Við skruppum tvö eftir vinnu fyrir skömmu að kanna Bjórgarðinn sem staðsettur er í stærsta hóteli landsins, Fosshóteli á Höfðatorgi. Það tók okkur smá tíma að finna bílakjallarann og aðeins lengri tíma að finna réttu leiðina úr kjallaranum inn á hótelið. Merkingarnar sem vísuðu veginn minntu svolítið á ratleik og eftir smá ráp í gegnum nokkur hurðarop stóðum við sigri hrósandi fyrir framan Bjórgarðinn.
Þegar inn var komið vöknuðu ótal spurningar. Er Þetta pöbb, eða veitingastaður, eða kannsi bæði? Borð og stólar af öllum stærðum og gerðum voru víðs vegar um salinn sem var þétt setinn. Andrúmsloftið var létt og við upplifðum nokkurskonar götustemningu.
Glaðlyndur þjónn tók á móti okkur, afhenti matseðlana og vísaði til sætis. Skömmu síðar birtist bjórgúrúinn Loftur H. Loftsson rekstarstjóri staðarins og útskýrði heildarhugmyndina.
Eftir smá spjall var ákveðið að ráðast í alvöru bjórupplifun, þar sem fjórar mismunandi tegundir af bjór voru paraðar saman við jafn marga rétti.
Á meðan við biðum eftir fyrstu pöruninni, fór allt að smella saman. Innréttingarnar, tónlistin, borðin, stólarnir, borðbúnaðurinn. Allt var þetta vandlega valið í þeim tilgangi að skapa einstaka upplifun sem náði svo hámarki þegar brot úr bjórflórunni var borið fram ásamt girnilegum réttum.
1. réttur

Andasalat.
Confit elduð önd, jöklasalat og spínat með kasjúhnetum, jarðarberjum ásamt soja- & engiferdressingu.
Gueuze Girardin
Bjórinn Gueuze Girardin er frá bænum Sint Ulriks-Kapelle í Belgíu og kemur frá brugghúsinu Girardin. Hér er á ferðinni villibjór, einnig þekktur sem Lambic eða súrbjór sem er gerjaður með brettanomyces villigeri. Ljúft bragð sem minnti helst á hvítvín.
Andasalat
Andasalatið var ferskt og gott bragð af öndinni. Bjórinn Gueuze Girardin keyrði upp ferskleikann. Jarðarberin komu skemmtilega á óvart og small allt vel saman.
2. réttur
Old Speckled Hen
Old Speckled Hen kemur frá hinum margfræga markaðsbæ Bury St. Edmunds í Englandi, en þar er brugghúsið Greene King sem hefur bruggað bjór í yfir 200 ár. Hér er á ferðinni Týpískur session-bjór, vel maltaður. Hann er oft drukkinn með Fish & chips sem er einn frægasti réttur breta og það var einmitt slíkur réttur sem borinn var fram með Old Speckled Hen.
Fish & chips
Sætar kartöflur í stað þeirra hefðbundu, virkilega góðar. Flott eldun á fiskinum og með þessu var borið fram maltedik. Edikið, rétturinn og bjórinn smellpassaði saman.
3. réttur

Smjörsteikt ostasamloka
Súrdeigsbrauð steikt upp úr smjöri með kosher salti. Brauðið er svo fyllt með reyktum gouda og íslenskum mozzarella osti.
Mazarin Omnipollo
Pale Ale bjórinn Mazarin Omnipollo var borinn fram með næsta rétti, bragðsterkur og humlabragðið kom vel í gegn. Margverðlaunaður bjór sem kemur frá brugghúsinu Omnipollo í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Yndisverður
Ostasamloka með helling af osti, léttreyktur gouda, mozzarella, steikt upp úr smjöri og borin fram með sætu sinnepi. Heimabakað súrdeigsbrauð, vel „djúsí“ samloka, minnti mig helst á Croque-Monsieur samlokuna frægu. Gott jafnvægi á milli Mazarin Omnipollo og ostasamlokunnar sem kallaði eiginlega á meira.
4. réttur
Sætt
Porter pecan baka, rjómi og jarðarber með Guinness. Frönsk Súkkulaðikaka með bjórnum Lava sem er 9.4%, gjörsamlega mögnuð samsetning og góður endir á svo frábærri og flottri upplifun.
Hlakka til að fara aftur á Bjórgarðinn. Þetta er flottur staður með mikinn metnað, létt andrúmsloft, þægilega tónlist og skemmtilega stemningu.
Skál!
-
Markaðurinn4 dagar síðanJóhannes Kristjánsson hefur hafið störf hjá Bako Verslunartækni (BVT)
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun12 klukkustundir síðanEigandi Sjávarsetursins gagnrýnir harðlega meintan mismun Suðurnesjabæjar á fyrirtækjum
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðanGóð stemning og öflugt fagfólk á fundi Klúbbs Matreiðslumeistara hjá Bako
-
Markaðurinn5 dagar síðanViltu reka kaffihús í hjarta Miðborgarinnar
-
Vín, drykkir og keppni3 dagar síðanÞessir barir og barþjónar eru tilnefndir til BCA á Íslandi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðanGamli Baukur heldur áfram með nýja eigendur og skýra sýn
-
Keppni3 dagar síðanTíu barþjónar tryggja sér sæti í úrslitum Bláa Safírsins
-
Markaðurinn3 dagar síðanRýmingarsala á nokkrum línum frá BONNA
















