Viðtöl, örfréttir & frumraun
Rjóminn af íslenskum kokkum til aðstoðar Einsa Kalda
Á Sjómannadagshelginni í Vestmannaeyjum s.l. hafði Einar Björn Árnason matreiðslumaður, betur þekktur sem Einsi Kaldi, í nóg að snúast en þar sá hann um fjölmargar veislur.
Með honum til aðstoðar voru einu af þeim bestu kokkum landsins, meistararnir Guðlaugur Pakpum Frímannsson frá Grillmarkaðinum, Kirill Ter-Martirosov frá Fiskmarkaðinum og Hinrik Ingi Guðbjargarson kokkur Íslenska landsliðsins í fótbolta.
Eins og tíðkast hefur í gegnum árin þá hafa áhafnir komið saman í Höllinni í Vestmannaeyjum á Sjómannadeginum, en vegna fjöldatakmarkanna var hver áhöfn út af fyrir sig og voru um 400 manns út um alla eyju.
„Þetta gekk frábærlega. Ég er svo stoltur af starfsfólkinu mínu og svo komu vinir mínir til eyja Gulli Grillmarkaðnum, Kirill Fiskmarkaðnum og Hinni sem tók við af mér hjá fótboltalandsliðinu.“
Sagði Einsi Kaldi í samtali við veitingageirann.
Að auki var veitingastaðurinn Einsi Kaldi smekkaður alla helgina.
Í byrjun árs fékk Einsi hrikalegar fréttir um að hann væri með krabbamein í lunganu. Gulli á Grillmarkaðinum kom vini sínum til aðstoðar. Það var svo í apríl s.l. sem að Einsi fékk þær fréttir að hann væri laus við þennan óvin, en þarf þó að fara í frekari fyrirbyggjandi lyfjameðferð.
„Gulli var mér innanhandar sem sannur vinur, þar sem að ég er að jafna mig eftir stóra aðgerð.“
Sagði Einsi að lokum.
Um Einsa kalda
Af vef einsikaldi.is
Einar Björn Árnason er eigandi og yfirmatreiðslumeistari Einsa Kalda. Hann er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hefur búið þar stærstan hluta ævi sinnar. Einar rekur bæði veitingastað og veisluþjónustu undir nafni Einsa Kalda og er veitingastaðurinn staðsettur á Hótel Vestmannaeyjar en veisluþjónustan í Höllinni, stærsta veislu- og ráðstefnuhúsi Eyjamanna.
Áður en Einar Björn hóf nám í matreiðslu starfaði hann sem sem bakari í 4 ár og var að lærði bakaraiðn hjá Arnóri bakara í Vestmannaeyjum. Einar Björn færði sig hins vegar alfarið yfir í matreiðsluna og byrjaði sem nemi hjá Grími Gíslasyni, Grími kokki en kláraði samninginn sinn hjá Sigga Hall á Hótel Óðinsvé auk þess að starfa á veitingahúsinu Argentína.
Einar Björn útskrifaðist sem matreislumaður árið 2007 með ágætiseinkunn og árið 2012 lauk hann svo meistaranámi í greininni og hefur síðan þá verið með matreiðslunema í læri hjá sér. Árið 2015 var Einar Björn fenginn sem yfirkokkur hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og hefur ferðast víða með strákunum okkar, þar sem hápunkturinn var eftirminnilega Evrópumótið í Frakklandi sumarið 2016.
Einar unnir heimabæ sínum Vestmannaeyjum afar heitt og hann var alltaf ákveðinn í að snúa aftur til Eyja eftir námið, þar sem hann býr nú ásamt eiginkonu og þremur börnum.
Það er auðvitað ekki alltaf einfalt fyrir metnaðarfullan matreiðslumann sem býr á eyju úti í ballarhafi að fylgjast vel með straumum og stefnum í eldamennskunni til að staðna ekki í faginu. Einar stendur samt alveg klár á þessu og hefur hann gætt þess vel að halda góðu sambandi við kollega sína í Reykjavík, en það gerir hann með því að heimsækja þá reglulega og fá þá sömuleiðis í heimsóknir til Eyja.
Í þessum heimsóknum er skipst á hugmyndum og uppskriftum, sem halda Einari ferskum og „á tánum“ og í tengslum við það sem er mest spennandi í bransanum á hverjum tíma.
Í eldamennskunni finnst Einari skemmtilegast að töfra fram ljúffenga sjávarrétti og fyrir þá er hann rómaður. Þessi áhugi hans ætti kannski ekki að koma á óvart, þar sem nálægðin við fengsæl fiskimið gera honum kleift að fá spriklandi ferskan fisk daglega. Hann leggur reyndar mikið upp úr því að nota í matargerðina staðbundið hráefni, s.s. bjarg- og sjófugl ásamt ýmis konar kryddjurtum sem týndar eru á eyjunni og margt fleira.
Mynd: aðsend / Einar Björn Árnason
-
Vín, drykkir og keppni1 dagur síðan
Opnuðu 18 L kampavínsflösku í fyrsta sinn á Íslandi – Nýir eigendur Kampavínsfjelagsins
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Gulli bakari heiðraður sem kaupmaður ársins 2024
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Mikil aukning á fölsuðu áfengi – IBA biðlar til allra barþjóna og veitingamenn að vera vel á verði
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Ljúffengar og góðar fiskibollur
-
Frétt4 dagar síðan
Upplýsingar til rekstraraðila í kringum Austurvöllinn
-
Keppni9 klukkustundir síðan
Myndir og vídeó frá matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana – Sjáið úrslitin hér
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Beittir hnífar: Svartur föstudagur – Viku tilboð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Áramótabomba Churchill