Viðtöl, örfréttir & frumraun
Framandi réttir og þjóðbúningar töfra gesti á Dalvík
Ljúffengir filippseyskir réttir, lífleg tónlist og litríkir þjóðbúningar voru í forgrunni þegar Starfsmannafélagið Fjörfiskur bauð til matar- og skemmtikvölds í mötuneyti Samherja á Dalvík á laugardagskvöld.
Með þessu var varpað ljósi á menningu Filippseyinga, sem skipa stóran sess innan starfsmannahópsins á Dalvík. Starfsfólk fiskvinnsluhússins og gestir skemmtu sér konunglega við þetta einstaka tilefni.
Framandi réttir
Hazel Capin og Reynir Magnús Víglundsson, sem bæði eru frá Filippseyjum, segja að undirbúningur kvöldsins hafi verið töluverður.
„ Við skreyttum salinn og kynntum landið okkar með ýmsum hætti. Eldamennskan hófst fyrir alvöru á föstudagskvöldinu og allt var orðið klárt áður en fyrstu gestirnir komu í hús, enda eru allar aðstæður í húsinu góðar,“
segir Reynir Magnús.
„ Matarmenningin á Filippseyjum er á margan hátt allt önnur en hér á Íslandi. Það fékkst ekki allt hráefni hérna fyrir norðan og þurftum þess vegna að fara til Reykjavíkur til að versla ýmislegt en við náðum að útvega flest það sem til þurfti í matargerðina.
Við vorum með nokkra mismunandi rétti á hlaðborði og merktum þá með ýmsum fróðleik. Í lokin voru síðan nokkrir vinsælir eftirréttir,“
segir Hazel Capin.
Annáluð gestrisni
Íbúar Filippseyja eru rúmlega 90 milljónir. Eyjarnar eru samtals 7.100 en nærri 900 þeirra eru í byggð. Filippseyjar eru annálaðar fyrir ríka matarmenningu, með áhrifum frá öllum heimshornum. Hrísgrjón eru algeng sem grunnur í matargerðina og hvert hérað er með sinn stíl.
„ Þegar gestirnir gengu í salinn tókum við á móti þeim samkvæmt okkar hefðum, klædd þjóðbúningum sem eru mismunandi eftir sýslum.
Við sýndum líka myndbönd um vinsæla ferðamannastaði, sem vonandi leiða til þess að einhverjir ákveða að skella sér í heimsókn til Filippseyja. Ferðalagið er að vísu ansi langt en algjörlega þess virði,“
segir Reynir Magnús.
Frábært kvöld
„ Við erum afskaplega ánægð með kvöldið, þetta var mikil gleði. Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna, svona vel heppnað kvöld þjappar okkur enn betur saman,“
segja þau Hazel Capin og Reynir Magnús Víglundsson, sem bæði starfa hjá Samherja á Dalvík.
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður starfsmannafélagsins Fjörfisks segir að matar- og skemmtikvöldið hafi heppnast einstaklega vel.
„ Ég fylgdist svolítið með undirbúningnum, samheldnin var einstök. Gestrisni Filippseyinga er annáluð, sem skilaði sér vel um helgina. Þetta var frábært kvöld.“
Sjá fleiri myndir frá kvöldinu góða með því að smella hér.
Myndir: samherji.is

-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Nemamyndin: Hótel Saga – Veturinn 1986-1987
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Þjálfarar finnska og íslenska kokkalandsliðsins undir sama þaki
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Mið-Austurlenskur þemadagur hjá Sælkeramat í samstarfi við Sumac – Vídeó
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Hrefna Rósa Sætran selur hlut sinn í Grillmarkaðnum, Trattoria og Rauttvín
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Nýjar vörur og tveir nýir birgjar
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Bragðgóðir vegan valkostir frá Lindsay heildsölu
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Sætur draumur að veruleika: Dagur í lífi eiganda Sweet Aurora
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Keppni í „Kvöldmatur á korteri með íslensku lambi“ á Matarmarkaði Íslands í Hörpu 8. mars.