Uppskriftir
Var boðið að gerast kokkur á togara – Þórhildur: mér finnst líka einstaklega gaman að elda fisk….
Þórhildur Þórhallsdóttir sem búsett er á Akureyri hefur verið kokkur á skipum Samherja í nærri þrjú ár, síðustu tvö árin á Kaldbak EA 1. Þórhildur hafði ásamt tveimur konum rekið veitingahúsið Kaffi Ilm á Akureyri í tíu ár. Þær ákváðu að selja þetta vinsæla veitingahús og þar með stóð Þórhildur á krossgötum varðandi atvinnu.
Aðeins nokkrum dögum eftir söluna bauðst henni að gerast kokkur á Björgu EA 7, togara Samherja.
Eiginmaður Þórhildar er Brynjar Sigurðsson, sem er vélstjóri á Björgu. Hún stökk á þetta tilboð og síðan þá hefur Þórhildur verðið kokkur á nokkrum skipum Samherja, einnig á fraktskipi Eimskips.
„ Kokkurinn á Björgu var að fara í frí, þannig að mér bauðst að leysa hann af og núna þremur árum síðar er staðan þessi, ég er enn að elda og sé alls ekki eftir því að hafa tekið þessu tilboði á sínum tíma,“
segir Þórhildur í samtali við samherji.is.
Brjálað veður í fyrsta túrnum
„ Ég gleymi fyrsta túrnum sjálfsagt seint eða aldrei. Við fórum um borð í Grundarfirði og sjórinn var spegilsléttur. Skömmu síðar var veðrið orðið brjálað, svo ekki sé meira sagt með tilheyrandi öldugangi.
Meira að setja töluðu strákarnir um borð að veðrið væri mjög slæmt. Ég var rosalega sjóveik fyrstu tvo dagana en áhöfnin hjálpaði mér við ýmislegt, svo sem uppvask og annan frágang. Ég tók sjóveikitöflur og varð hundslöpp en samt staðráðin í því að standa mína plikt þessa þrjá mánuði sem ég hafði samþykkt að taka að mér.“
Eins og stórt heimili
Í áhöfn Kaldbaks eru þrettán manns. Þórhildur segir að dæmigerður starfsdagur hefjist skömmu fyrir klukkan sjö á morgnana.
„ Þetta er bara eins og stórt heimili, getum við sagt. Dagurinn hefst með því að útbúa morgunverð og síðan tekur við að undirbúa daginn.
Fyrra hollið kemur í hádegismat klukkan ellefu og seinna hollið klukkustund síðar. Þar á eftir tekur við að ganga frá og undirbúa síðdegiskaffi og kvöldverð.
Þar á eftir geri ég klárt fyrir nóttina, venjulega er ég búin um klukkan níu á kvöldin, þannig að vinnudagurinn er nokkuð langur. Mér finnst best að taka til hendinni á morgnana, þá baka ég gjarnan.“
Horfa saman á sápuóperu
„Jú, jú, hérna í borðsalnum er gjarnan spallað um heima og geima, stundum blanda ég mér í umræðuna. Ég tek mér yfirleitt pásu frá störfum á morgnana til að horfa á sápuóperuþættina Bold and the Beautiful, þá þýðir yfirleitt lítið að ónáða mig.
Þeir sem eru inni koma af og til og horfa á þættina, þannig að þetta er allt saman voðalega heimilislegt.
Svo er ég oft að prjóna í rólegheitum og spjalla um daginn og veginn við strákana, þeir virðast kunna ágætlega við það.“
Lítið mál að vera í góðu sambandi við ættingja og vini. Hjónin í landi á sama tíma.
„Yfirleitt fer ég í þrjá túra og svo er jafn langt frí. Hver veiðiferð tekur fimm til sjö sólarhringa en það er ekki stoppað lengi í landi, aflanum er landað og svo haldið strax á miðin.
Í inniverum skapast tækifæri til að ferðast eða gera eitthvað skemmtilegt, enda eru þeir sem starfa á móti okkur afskaplega liðlegir við að gera okkur hjónunum kleift að vera í landi á sama tíma.
Börnin okkar eru flutt að heiman og mér heyrist á þeim að þau séu ósköp sátt við að mamman sé á sjónum. Netsambandið er auk þess svo gott að það er lítið mál að vera í góðu sambandi og get því með auðveldum hætti spjallað við börn og barnabörn.
Vinkonunum fannst þetta svolítið skrýtið í fyrstu en ég get sömuleiðis alltaf tengt mig við saumaklúbbinn og tekið þátt í gleðskapnum.“
Útlendir ferðamenn hissa
„ Já, það má alveg segja að aðstaðan sé eins og á góðu lúxusskipi. Hérna er líkamsrækt, gufubað, heitur og kaldur pottur og vistarverurnar eru prýðilegar auk þess sem skipin eru góð í sjó.
Ég leiðsegi stundum erlendum ferðamönnum og segi þeim frá Kaldbak þegar skipið er í landi. Útlendingarnir eru yfirleitt hissa á þessum góða aðbúnaði og spyrja margs, sem ég reyni að svara eftir bestu getu.
Ég kann afskaplega vel við sjómannslífið og hugsa stundum með sjálfri mér að ég hafi verið heppin að hitta á þetta starf.“
Fiskur vinsæll um borð. Predikar yfir áhöfninni um hollustu grænmetis.
Þórhildur segir að fiskur sé oftast í matinn á hverjum degi.
„Já, svona yfirleitt. Aðgengi að hráefninu er náttúrulega frábært og mér finnst líka einstaklega gaman að elda fisk. Annars borða þeir svo að segja allan mat.
Sumir eru að vísu latir við grænmetið og þá stend ég gjarnan yfir þeim og predika um mikilvægi þess að borða grænmeti, Þeir hlýða mér yfirleitt og fá sér grænmeti,“
segir Þórhildur Þórhallsdóttir kokkur á Kaldbaki EA 1.
Lúðuréttur
Þórhildur gefur lesendum hér uppskrift að lúðurétti, sem hún eldar gjarnan um borð:
Lúða sneidd í jafn þykka bita
Veltið fiskinum upp úr hveiti og kryddið með sjávarsalti og sítrónupipar ásamt örlitlu af tarragon. Lúðan steikt í olíu og smá smjörklípu, gott er að hafa pönnuna vel heita til að fá gullin lit á stykkin, um það bil tvær mínútur á hvorri hlið.
Lúðan er síðan sett í ofnskúffu og sósunni hellt yfir, sett í ofn í 5-8 mín á 100 gráðum, fer eftir þykktinni á stykkjunum.
Passið að hafa lúðuna ekki of lengi í ofninum svo hún þorni ekki .
Sósan dugar fyrir 6-8 skammta:
1/2 ltr. rjómi
1/2 villisveppaostur
1/2 piparostur
1 msk saxað ferskt tarragon eða þurrkað
1/2 teningur fiskikraftur
1-2 msk humarkraftur
1 tsk sítrónusafi
Salt og pipar eftir smekk
Gott er að hafa ostinn rifinn eða saxaðan smátt.
Allt sett í pott og hitað þar til osturinn er alveg bráðnaður, sósunni hellt yfir fiskinn og bakað í ofninum.
Nýjar kartöflur með og gott ferskt salat.
Verði ykkur að góðu !
Myndir: samherji.is
-
Keppni3 dagar síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun16 klukkustundir síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Keppni3 dagar síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Nemendur & nemakeppni18 klukkustundir síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Poke skál með kjúklingi og salatosti
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Hótel og heilsulind Bláa Lónsins á meðal 10 bestu hótelum heims – Michelin
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Hákarl á þorrabakkann