Frétt
Einum besta matreiðslunema á Nauthól vísað úr landi | Er iðnmenntun minna virði en háskólanám?
Björn Ingi Björnsson yfirmatreiðslumaður á Nauthól, hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að útlendingastofnun hafi ákveðið að vísa matreiðslunemanum Chuong Le Bui úr landi, en hún lærir fræðin sín á Nauthól.
Í bréfi frá Útlendingastofnun segir að hún hafi ekki lengur landvistarleyfi sem námsmaður og vísað er í þessa grein:
„Nám skv. Útlendingalögum: 15. Nám: Samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Hér að neðan er tilkynningin frá Birni:
Hún er hálfnuð með lögbundinn námssamninginn sinn og er í Menntaskólanum í Kópavogi á fyrstu önn í skóla. Svo virðist sem að lögum hafi verið breytt um síðustu áramót þannig að þeir sem eru í iðnnámi fái ekki lengur námsmanna dvalarleyfi á Íslandi . Til þess að fá námsmanna leyfi þarf fólk að vera í háskólanámi . Sem mér þykir undarlegt og er í raun verið að gefa þar í skyn með lagabreytingu að iðnmenntun sé minna virði en háskólanám. Hér má sjá svart á hvítu hvernig iðnnám var látið hverfa úr lögunum
Brottfelld lög frá 1.jan 2017
2.mgr. 12. gr. e. laga nr. 96/2002 orðaðist svo:
Fullt nám telst vera 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
Núgildandi lög frá 1.jan 2017:
15.tl. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 80/2016 orðast svo:
Nám: Samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
Það er ekki einu orði minnst á af hverju iðnnám var fellt út úr lagagreininni í frumvarpi með lögunum. Samtök iðnaðarins fengu frumvarpið til umsagnar en ekki Iðan sem gefur út námssamninga eða framhaldsskólarnir, sjá hér.
Chuong á skyldmenni hér á landi og hefur því gott bakland á Íslandi og Inga Lillý Brynjólfdóttir lögfræðingur hefur verið að vinna í hennar máli og hefur kært þessa ákvörðun útlendingastofnunnar.
Lögunum var breytt um síðustu áramót án þess að Iðan, Matvís eða aðrir fagaðilar sem koma að iðnmenntun hefðu verið látnir vita og iðnmenntun var hent út sem ástæðu fyrir námsmannadvalarleyfi.
Það er algjörlega út í hött að einhver sé búin að eyða 2 árum í nám og svo sé henni hent úr landi án þess að fá að klára námið sitt . Sérstaklega þar sem hún er nemi í grein þar sem sárvantar fagmenn.
Hún er okkar besti nemi að öðrum ólöstuðum og nokkuð ljóst að hér er á ferðinni efni í frábæra matreiðslukonu. Mér finnst þessi ákvörðun útlendingastofnunnar fráleit og sérstaklega í ljósi þess að Chuong hafði í febrúar fengið framlengingu á námsmannaleyfinu sínu en núna á að senda hana heim. Í febrúar var búið að breyta þessum lögum en þá fær hún samt dvalarleyfi en nú í haust þá er það afturkallað . Ég get ekki túlkað þessi lög öðruvísi en að þau gengisfella okkar iðnmenntun eins og hún sé minna virði en háskólagráður og ég hallast helst að og í raun vona að hér sé um einhvers konar mistök við lagabreytingu að ræða. Mistök sem eru samt grafalvarleg eins og sjá má á þessu máli og geta haft gríðarlegar afleiðingar fyrir fólk sem hefur hafið nám sitt hér með réttmætar væntingar um að fá að ljúka því.
Þarna er verið að neyða þessa ungu hæfileikaríku konu til að kasta tveimur árum af ævi sinni út um gluggann. Tveimur árum þar sem hún hefur lagt mjög hart að sér við að ná sínum markmiðum og uppfylla sinn draum um að verða matreiðslukona.
Það vita allir sem það hafa reynt að það að læra að vera alvöru matreiðslumaður kostar blóð,svita og tár. Starfsnámið er mjög erfitt og krefjandi og margir sem hefja það gefast upp. Svo ekki sé minnst á að Chuong hefur ekki íslensku sem móðurmál og hefur sótt námskeið utan vinnu til að fá betri grunn fyrir bókleganámið sem fer allt fram á íslensku. Stundar hún námið sitt af alúð samkvæmt upplýsingum frá Menntaskólanum í Kópavogi þar sem hún er nú á sinni fyrstu önn. Hún mætir vel og er til fyrirmyndar enda afar einbeitt í sínu námi.
Mér finnst undarlegt í ljósi þess að nánast er ómögulegt að fá inn faglærða starfsmenn í þessa grein að okkur sé nú gert að rifta lögbundnum námssamningi sem við gerðum til 4 ára og um leið missa frábæran starfskraft sem dýrmætur tími og vinna hefur farið í að þjálfa og kenna eins og okkur er skylt að gera þegar einhver skráir sig í starfsnám hjá okkur. Við á Nauthól leggjum mikinn metnað í að útskrifa topp fagmenn frá okkur sem hafa víðtæka reynslu og eru tilbúnir í öll þau verk sem faglærður matreiðslumaður þarf að kunna. Hefur Chuong staðist allar okkar kröfur og væntingar um góða starfshætti og vinnubrögð. Hún er okkar efnilegasti nemi og á framtíðina fyrir sér í þessu fagi og því er það glapræði að það skuli vera eyðilagt með þessari brottvísun og með þessum óréttláta hætti.
Það má vel færa rök fyrir því að það sé eftirsóknarvert að læra matreiðslu á Íslandi þar sem kerfið okkar er gott og Hótel og Matvælaskólinn mjög góður. Íslenskir matreiðslumenn hafa verið og eru mikils metnir á erlendri grundu og þykja skara fram úr vegna þess hve vel undirbúnir þeir eru fyrir starf sitt þegar þeir útskrifast hér . Það er því ekki skrýtið að erlendir aðilar sækist eftir slíkri menntun jafnt og þeir sækja aðra menntun sem mögulega er betri á Íslandi en annar staðar í heiminum.
Eins og þeir sem stýrt hafa eldhúsum,fyrirtækjum eða öðrum verkefnum vita þá er það fólkið sem maður raðar í kring um sig sem skiptir mestu máli , þeir sem klára langar, erfiðar vaktir með bros á vör, þeir sem leggja sig aukalega fram til að ná þeim markmiðum sem maður setur af því þeir elska það sem þeir eru að gera. Ég er svo heppinn að fá að stýra frábæru liði og Chuong er mjög mikilvægur partur af því liði. Hún hefur átt þátt í að þróa rétti sem prýða matseðil Nauthóls og vakið hafa mikla lukku. Hún hefur verið okkur innblástur þegar hún hefur sýnt okkur matreiðslu frá sínu heimalandi sem er okkur framandi. Hún er líka vinur okkar og samstarfsfélagi. Þessi brottvísun útlendingastofnunnar er okkur öllum því mikið áfall og mikill skaði fyrir okkur og fyrirtækið í heild sinni að missa hana.
Rétt skal vera RÉTT hún fékk leyfi til að hefja nám hér á landi í matreiðslu og hún skal fá að ljúka því námi og ekkert pennastrik eða mistök á alþingi skal fá að breyta því þar sem þá er í mínum augum verið að vega gróflega að hennar réttindum til náms og gera lítið úr iðnmenntun.
Virðingarfyllst
Björn Ingi Björnsson
Yfirmatreiðslumaður á Nauthól
Myndir: aðsendar
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Food & fun7 dagar síðan
Tveir íslenskir gestakokkar verða á Food and Fun hátíðinni í Stavanger
-
Uppskriftir4 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt3 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun17 klukkustundir síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla