Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Alfreð, fyrrverandi landsliðskokkur, tekur við veitingarekstri á Urriðavelli

Alfreð Ómar Alfreðsson og Eva Björk Björnsdóttir ásamt fulltrúa Golfklúbbsins Odds við Urriðavöll, þar sem nýir veitingaaðilar taka nú við rekstri veitingaþjónustunnar í klúbbhúsinu.
Mynd: oddur.is
Nýir veitingaaðilar taka nú við veitingarekstri á Urriðavelli eftir að samningur var undirritaður í upphafi árs milli Golfklúbbsins Odds og þeirra Alfreðs Ómars Alfreðssonar og Evu Bjarkar Björnsdóttur. Samkvæmt samningnum tóku þau formlega við rekstrinum frá og með 1. janúar og munu annast alla veitingaþjónustu í klúbbhúsinu á Urriðavelli.
Í tilkynningu frá Golfklúbbnum Oddi kemur fram að þau hjón séu afar spennt fyrir verkefninu og hlakki til að þjónusta bæði félagsmenn og gesti vallarins. Þar er jafnframt lögð áhersla á mikilvægi klúbbhússins sem samkomustaðar og hjarta starfseminnar.
„Við lítum á klúbbhúsið sem hjartað í starfseminni. Þar á að vera gott að staldra við, hittast, njóta góðra veitinga og augnabliksins hvort sem dagurinn endar á 18 holum eða einfaldlega í góðum félagskap.
Okkar hlutverk er að skapa ramma utan um þessar stundir með hlýlegri þjónustu, faglegu handbragði og metnaði fyrir því að gera hlutina vel,“
segir í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra Alfreðs og Evu.
Alfreð hóf störf í veitingageiranum aðeins sextán ára gamall á Kjúklingastaðnum í Suðurveri og lærði síðar matreiðslu á Hótel Sögu, þá Radisson SAS. Þar var lagður grunnur að fjölbreyttum ferli sem spannar bæði hágæða veitingarekstur, heildsölu og mötuneytisrekstur. Á ferli sínum hefur hann meðal annars verið yfirmatreiðslumeistari á veitingastaðnum Sommelier, starfað á Mosimann’s í London og leitt umfangsmikinn veitingarekstur hjá Arion banka í tæp fjórtán ár. Á síðasta golftímabili starfaði hann í golfskálanum hjá GR í Grafarholti og þar kviknaði áhugi hans á golfskálarekstri fyrir alvöru.
Alfreð er matreiðslumeistari, fyrrverandi forseti Klúbbs matreiðslumeistara og hefur um árabil verið landsliðskokkur. Hann býr því yfir víðtækri reynslu í bæði rekstri og mikilli reynslu í ábyrgðarstöðum innan veitingageirans.
Eva hefur einnig starfað í veitingageiranum í fjölda ára, allt frá því hún kynntist Alfreði fyrir um aldarfjórðungi á Hótel Sögu og Grillinu. Hún hefur meðal annars komið að rekstri veiðihúsa og veisluþjónustu. Eva er menntuð sem hagfræðingur og snyrtifræðingur en hefur lengst af starfað við verkefnastjórnun, meðal annars hjá Arion banka, Sýn og nú síðast sem teymisstjóri hjá Reykjavíkurborg.
Í tilkynningu Golfklúbbsins Odds eru jafnframt fluttar þakkir til fráfarandi rekstraraðila, Axels, Katrínar og Jóa, sem hafa annast veitingareksturinn á Urriðavelli síðustu fjögur ár af miklum myndarskap ásamt sínu starfsfólki. Þeim er óskað velfarnaðar í nýjum verkefnum en þau standa nú meðal annars að rekstri Kaffivagninn á Granda, sem hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun og nýtur vaxandi vinsælda.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan„Þetta er galið“ segir Gunnar Karl – Þriðja svindlsíðan komin í loftið
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðanMúlaberg slær öll met: Yfir 4.000 gestir í jólahlaðborð á fimm vikum
-
Kokkalandsliðið4 dagar síðanKM, Kokkalandsliðið og 3D Verk skrifa undir nýjan samstarfssamning
-
Markaðurinn4 dagar síðanPampero og hefðin á bak við eitt þekktasta romm Venesúela
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðanÍslenskir barþjónar og barir tilnefndir í áttunda sinn til BCA-verðlauna
-
Markaðurinn4 dagar síðanStóreldhúslausnir á einum stað hjá Bako Verslunartækni
-
Markaðurinn1 dagur síðanLe Tribute – Hágæða drykkjarvörur koma á íslenskan markað
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðanMichael O’Hare opnar nýjan veitingastað eftir erfiðan kafla í rekstri





