Vertu memm

Pistlar

Ferðasaga frá Norðurlandakeppninni í matreiðslu í Herning Danmörku 26. jan 2010

Birting:

þann

Ragnar Ómarsson

Ragnar Ómarsson

Það er fátt skemmtilegra en að fá  að dæma í matreiðslukeppnum, þar sem það er nú eitt af mínum stærstu áhugamálum, og var ég svo heppinn að  mér var falinn sú ábyrgð af stjórn KM til að taka að mér það stóra verkefni að dæma í keppninni „Matreiðslumaður Norðurlanda og hlýtur hún að vera ein af sterkustu keppnum í heiminum þar sem flestir sem hafa unnið til verðlauna þar, hafa þá  keppt fyrir hönd sinnar þjóðar í  óformlegri heimsmeistarakeppninni „Bocuse d‘´Or“.

Ekki var nú verra að keppandinn frá Íslandi var Jóhannes Steinn Jóhannesson matreiðslumaður á Vox veitingarstað, og tvöfaldur Matreiðslumaður ársins á Íslandi 2008 og 2009,  en þann dreng kannast undirritaður vel við þar sem hann lærði á hótel Holti þegar ég var þar yfirkokkur.  Jói hefur algjörlega stimplað sig inn sem einn af okkar betri keppnis-kokkum og hefur sína skoðun hvernig maturinn á að vera og þannig viljum við hafa þessa kandídata!!

Síðan var nýtt fyrirkomulag á keppninni sem var fólgið í því að ungkokkar kepptu einnig með í keppninni sem jafningjar þeirra sem voru lengra komnir enn  Danirnir kölluðu þá „Wild card“.

Sá sem fór sem ungkokkur fyrir Íslands hönd var Bjarni Siguróli Jakobsson og kemur hann einnig frá Vox, gríðarlega efnilegur og áhugasamur matreiðslumaður er að byggja upp sinn keppnisferil og mun aðstoða næsta keppanda í Bocuse d´or 2011.  Einnig var með í för fararstjórinn hann Ólafur Ágústsson og hann er einnig matreiðslumaður á Vox, þannig að það var sennilega orðið fámennt á vaktinni á þeim góða veitingarstað.

Ferðin til Danmörku byrjaði eins og flestar aðrar ferðir þegar maður þarf að ferðast til annara landa „um miðja nótt“, nú við hittumst bara í flugrútunni  ég, Jói, Bjarni og Óli  á Vox (farastjóri)  og var allt eftir áætlun til Köben.  Það var mikið rætt á leiðinni um hversu æðislegar auglýsingarnar frá öllum veitingarstöðunum í Atlantic-blaðinu voru, hinir og þessir kokkar að sveifla sér í rólu, einn með hnífinn og bara margt meiriháttar hjá þessum frumlegu kokkum sem létu ekki einhverja „stílista“ segja sér fyrir verkum.  Síðan voru bara ræddir hlutir sem að strákarnir ætluðu sér að gera í keppninni og hvað þeir ætluðu sko alls ekki að gera.

Það beið okkar bílaleigubíll á Kastrup þegar við mættum og þar sem keppnin var ekki í Köben heldur 4ja klukkutíma akstur frá, nánar tiltekið Herning, ekki langt frá Lego-landi (ca. 40 mín.) þá var ákveðið að taka PGS-tæki á leigu til að menn væru ekki að fara enhverja vitlaeysu.  Fjórum klukkustundum síðar vorum við komnir á Hótel Legoland og menn komu sér fyrir í herbergjum sínum sem voru öll í „Sjóræningaganginum“ þar sem allir gangar voru skírðir í anda Lego-kubbana.

Við strákarnir hittumst síðan inná veitingarstaðnum og fengum okkur smá snæðing, farið yfir morgundaginn þar sem planið var að skoða keppnina um „Matreiðslumann Danmörku“ en hún var haldin á sama stað og keppninn um „Matreiðslumann Norðurlanda“ þannig að strákarnir gátu séð eldhúsin og komið sér í gírinn um hvernig menn ætluðu að stilla sér upp og græja og gera.

Eftir morgunmatinn á Lego-hótelinu var haldið af stað til Herning nánar tiltekið á keppnissvæðið og var einsog oftast stór kaupsýning í kringum þessar keppnir og þar var vel tekið á móti okkur, fengum afhenta passana okkar, síðan var okkur boðið á básinn hjá Danska matreiðsluklúbbnum og þar gátum við komið hvenær sem er og fengið okkur kaffi og spjallað við þessa skemmtilegu kollega.

Á meðan keppnin um Matreiðslumann  ársins í Danmörku stóð yfir fórum við vel yfir eldhúsin, hvernig menn voru að vinna þarna, og punktuðu strákarnir vel niður og byrjuðu svona að koma sér í keppnisgírinn.  Talandi um keppnina um „Matreiðslumann Danmörku þá var margt áhugavert að sjá þar, fyrirkomulagið var „Mistery basket“ eins og í keppninni sem strákarnir voru að fara að taka þátt í og var ýmislegt í körfunni eins og humar, kræklingar, vatnableikja, lambahryggur og læri, súkkulaði, ýmis grænmeti og ávextir.

Ég verð nú að segja að standartinn var ekkert rosalega hár fyrir minn smekk,  en margt alveg í góðu lagi, keppendur voru mikið að rembast við að bera fram matinn á óvenjulegan hátt, eins og á vacum-pokum fulla af vatni, sorglegt að sjá svona í keppnum þar sem menn eiga að vera dæmdir fyrir matinn en ekki hlutina í kringum þá og það sannaðist enn og aftur að þeir sem lentu í verðlauna sætum voru ekki að taka þátt í slíku, heldur einbeittu sér að matnum.

Við félagarnir hittum þarna á sýningunni Gunna Guss frá Sælkeradreifingunni og var ákveðið við færum allir saman um kvöldið eftir leik Íslands og Króatíu og fengjum okkur steik á Jensens böfhus í Herning, sem og við gerðum.  Fyndnasta við allt saman að þegar við mættum á staðinn og búnir að fá matseðlana var okkur tilkynnt að nautalundirnar og Béarnaise-sósan voru búin, ég sem hélt einhvern veginn að steikhús væri 90% þetta tvennt, en fínn matur og gaman að eyða kvöldinu með Gunna, og við strákarnir renndum niður á hótel og fórum aðeins yfir hvernig strákarnir ætluðu að tækla þessa keppni.

Þá var komið að stóra deginum sjálfum keppnisdeginum, strákarnir fóru snemma af stað eða kl. 06:00 en við dómararnir fengum að sofa til 08:00.  Þegar undirritaður kom á keppnisstað voru allir keppendur komnir á fullt og þegar ég kíkti á hráefnis-körfuna sem keppendur fengu var sama karfa og var í keppninni um Matreiðslumann Danmörku.  Við dómararnir tókum stuttan fund og var þá tikynnt að Rasmus Koefod yrði yfirdómari, sem er fínt nema að hann er danskur sem þýddi að tveir eldhúsdómarar voru danskir og tveir smakkdómarar voru danskir, fjórir af átta dómurum voru þá Danskir.

Það getur oft skapað pínu svona leiðinlegt umtal ef að þeirra maður skildi vinna, persónulega finnst mér að svona eigi að koma í veg fyrir með að fá hlutlausan aðila til að dæma, þar sem það verður bara leiðinlegt fyrir keppandann.  En burt séð frá því var gaman að fá Rasmus þar sem hann er frábær matreiðslumaður og hefur sína skoðun á keppnum.

Þá var komið að því að menn fóru að skila af sér matnum og var margt vel gert og bragðgott, og sumt síðra eins og er sennilega í flestum slíkum keppnum.  Það voru nokkrir sem lentu í tímaveseni og voru að skila seint.  Standardinn á þessari keppni var langtum hærri enn í keppninni um“ Matreiðslumaður Danmörku“.  Ef við förum snöggt yfir forréttina hjá okkar keppendum var Jói með langbesta forréttinn, bleikjurúllu og humarsalat og Bjarni með ekki ósvipaðan forrétt en hann klikkaði pínu á saltinu og þegar að forréttirnir voru allir komnir var Jói hæstur, norðmaðurinn annar og Bjarni fimmti.

Í aðalréttinum skilaði Jói svolítið seint en mér fannst þegar ég fékk „loksins“ réttinn hans þá var hann mjög góður, en daninn var ótrúlega góður líka, þeir voru tveir hæstir hjá mér að stigum fyrir aðalréttinn.  Bjarni var líka góður en enn og aftur vantaði svolítið salt, var einhver staðar í kringum fimmta þar.

Svo kom eftirrétturinn og þá var daninn, Jói og norðmaðurinn mjög jafnir, en ég var náttúrulega með Ísland efstan, en Bjarni lenti í smá veseni með ísinn sinn og það gerði gæfumuninn hjá honum en hann var efstur hjá mér af ungkokkunum og endaði í 7. sæti yfir allt, frábært í fyrstu keppni.

Annars er það að segja að Jói var í öðru sæti í matnum sjálfum en fékk það mörg mínusstig eftir að hafa skilað of seint að hann hafnaði í fjórða sæti,en frábær frammistaða sem ég veit að Jói er ekkert ánægður með, enda myndum við ekki senda neinn í þessa sterku keppni ef menn væru ánægðir með slíkt sæti, en þá er bara að fara aftur.  Ég veit um einn keppanda sem fór tvisvar sinnum í þessa keppni, og hann lenti í fyrra skiptið í fjórða en vann síðan í seinna skiptið, þannig að ekkert er útilokað.

Eftir skemmtilegan dag með öllum þessum kokkum þá var öllum keppendum og dómurum smalað saman á „Galadinner“ sem haldin var á einhverju steikhúsi þar sem allir fengu salatbar, svínarif og drykki eins og dananum er einum lagið!!

Ég vil bara að lokum þakka Klúbb matreiðslumanna fyrir að treysta mér fyrir þessu verkefni, og þakka Jóa, Óla og Bjarna fyrir skemmtilega keppnisferð.

Kveðja Raggi Ómars

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið