Viðtöl, örfréttir & frumraun
Hjörtur rakkar niður veitingastaði
Hjörtur Howser er nú ekki að skafa af því þegar kemur að lýsingu á óvönduðum vinnubrögðum og lélegri þjónustu hjá veitingahúsum, en sem betur fer eru til góð veitingahús og fer hann fögrum orðum yfir þá staði.
Hjörtur hefur birt á vef sínum skoðanir sínar á nokkrum veitingastöðum, sem hér segir:
Great wall of China
Kínamatur er vinsæll um heim allan og svo er einnig hér á landi. Asískir veitingastaðir í höfuðborginni eiga sér sumir áratuga langa sögu og hinar og þessar stefnur í matargerð hafa dottið í og úr tísku meðan Kínamaturinn hefur haldið sínu. Það þótti því sumum að verið væri að bera í bakkafullan lækinn þegar það spurðist að til stæði að opna kínverskan veitingastað í því fornfræga húsi sem um árabil var veitingastaðurinn Naustið. Inngangur hins nýja veitingastaðar sver sig mjög í ætt við Kínastaði víðs vegar í vesturheimi, þungar útskornar hurðar, skrautleg der yfir anddyri og kassi fyrir utan þar sem matseðillinn hangir til yfirlestrar áður en ákvörðun um inngöngu er tekin. Þegar inn er komið mætir manni stór og bjartur salur með uppdekkuðum borðum, Asískum styttum og vösum og tauþurrkum. Í tveimur heimsóknum, í hádegi og um kvöld var móttakan nákvæmlega eins upp á punkt og prik, greinilega vandlega skrifað handrit sem fylgja skyldi í smæstu smáatriðum, ekkert rúm hér fyrir frávik og tilhliðranir. “Do you have a reservation?”, sagt hranalega og með illskiljanlegum hreim. Rýnir stóð satt að segja á gati því hingað til hefur verið hægt að kíkja í heimsókn í hádeginu og jafnvel á kvöldin á flesta Asíustaði í borginni án þess að “reserva” borð með fyrirvara. Og hver er þá tilgangurinn með menukassanum utandyra? Eiga þeir sem hann lesa, og langar inn, að hringja á undan sér og panta borð? Þessi hvassa og ópersónulega móttaka stuðaði pínulítið, sérstaklega í endurtekningunni nokkrum dögum síðar. En það átti eftir að hvessa töluvert áður en máltíðinni lauk.
Ekkert tungumál virðist gjaldgengt á þessum nýja, fína stað nema móðurmál þjónanna sjálfra. Enska var reynd til þrautar og einnig Franska og Þýska og að lokum Íslenska en árangurinn var ekki meiri en svo að nær allt sem pantað var skilaði sér ýmist í rangri röð, alls ekki eða það kom bara eitthvað allt annað. Þjónarnir, með fullorðinn mann í farabroddi sem greinilega réði ríkjum, hringsnerust um salinn eins og landafjandar, stressið og ringulnreiðin algerlega að bera þá alla ofurliði. Og ekki síður gestina. Það kann að vera að á “Great Wall of China” veitingastöðum út um heim, en svo heitir þessi keðja veitingastaða víst, sé hraðinn í afgreiðslu fyrir öllu og afslöppun gesta og notalegheit skipti litlu eða engu máli. Hraðinn var reyndar ekki sá sami niðri í eldhúsi því talsverð stund leið á milli rétta, lengri en gengdi góðu hófi. Svo var stórundarlegt innskot frá yfirþjóninum að koma alltaf öðru hverju á hlaupum að borðinu til að spyrja “All is OK yess!?!” og rjúka svo burt með það sama án þess að hlusta eftir svari. Sannarlega var ekki allt “OK” og vel hefði mátt laga eitthvað af því ef gestirnir við borðið hefðu fengið að tjá sig. En svo má efast um að það hefði skipt nokkru máli því það virtist sama hvað sagt var, öllu var mætt með sama hlýja, breiða brosinu og einhverju “yess, yessi!”.
Hvaða sirkusatriði á þetta eiginlega að vera? Getur verið að aðstandendur þessa veitingastaðar hafi ekki kynnt sér standardinn í íslenska veitingageiranum áður en vaðið var út í þessa hyldjúpu laug. Íslenskir veitingahúsagestir eru góðu vanir og það þýðir ekkert að bjóða uppá svona fíflalæti og ætlast svo til að maður borgi uppsprengt verð fyrir herlegheitin, því ódýr er þessi staður sannarlega ekki. Kannski voru þau öll að vanda sig svakalega mikið en það fór alveg öfugt í mig og mína og því miður treysti ég mér bara alls ekki aftur í þennan skrítna tungumálagátuleik. Sem er synd því maturinn, það af honum sem skilaði sér á borðið, var góður, jafnvel betri en annar Kínamatur sem í boði er í borginni. En út af hinum stöðunum hrökklast ég ekki sveittur og móður með dúndrandi hjartslátt eftir öll hlaupin í þjónunum. Og þar skilja menn það sem ég segi.
DOMO
Domo er kurteisisávarp á japönsku. Gjarnan bætt framanvið “arigato” ef menn vilja sýna þakklæti sitt en getur líka staðið eitt og sér sem stutt kveðja, “takk” eða jafnvel “verði þér að góðu”. Það er vel við hæfi að nefna veitingastað þessu nafni, sérstaklega þennan sem um ræðir því matseldin þar á bæ ber keim af austurlöndum fjær og þá einkum Japan. Nútímalegt, smekklegt umhverfi og vandaðar innréttingar er það fyrsta sem maður tekur eftir þegar inn er komið enda varla við öðru að búast þegar þeir félagar Kormákur og Skjöldur eiga í hlut. Upp nokkrar tröppur og maður stendur í miðjum sal. Þar er strax tekið á móti manni og vísað til borðs.
Salurinn er þrískiptur, fremra rýmið er sitthvoru megin við uppganginn og inn með veggnum til vinstri, í miðrými er langborð á háum fótum og innst er gluggalaus salur með tveggja og fjögurra manna borðum. Vel heppnað skipulag og þjónarnir hafa góða yfirsýn. Við vorum sett á lítið borð við vegginn og ég kveið því dálítið að við myndum verða fyrir ónæði af umgangi því þarna eru dyr sem um er gengið til að komast niður á barinn í kjallaranum. Barinn sá er einnig tónleikastaður á hraðri uppleið í músikmenningu borgarinnar. Þó að nokkrir gestir hafi farið um þessar dyr á meðan á máltíð okkar stóð var eins með það og annan umgang á staðnum þetta kvöld, við fundum lítið fyrir því. Þessar tvær rekstrareiningar virðast geta þrifist hvor með annarri án þess að rekast á eða valda truflun. Það var engu líkara en rökkvaður matsalurinn dempaði allt og róaði niður, einhverskonar Feng Shui í gangi.
Matseðillinn er fjölbreyttur og við ákváðum að treysta eldhúsinu fyrir uppröðuninni, Domo Surprise, úrval af öllu því besta sem í boði er. Sushi í nokkrum útgáfum og sashimi, borið fram á klakabeði í stórri skipslaga járnskál, var upphaf ævintýrsins. Bitarnir voru hver öðrum betri og kokkarnir láta ímyndunaraflið ráða för, tilkomumikil byrjun. Með þessu drukkum við glas af hvítvíni hússins, Masi Soave, sem fór vel með þessum fersku fiskréttum. Aðalréttir á þessum samsetta seðli eru alltaf kjöt og fiskur, besta hráefni þess dags. Við fengum að smakka grillaða nautalund með shiitake-sveppum og yakitori-piparsósu og “blakkaðan” þorskhnakka í hvítlaukssojasósu, hvort tveggja afar sérstæðir og bragðgóðir réttir. Að auki fengum við að prófa stökksteikta andabringu með volgri andalifur, mangó-og púrtvínsplómusósu.
Ég hef ekki verið ýkja hrifinn af foie gras til þessa, þótt það vera fremur óspennandi og bragðlaus kæfa, en þessi framsetning breytti því áliti mínu. Rétturinn spilaði á allan bragðtónstigann, frá mildu andarsteikarbragði til sætunnar í mangóinu, örlítillar súru í plómunni með viðkomu í púrtvíni og kryddum. Afar vönduð matseld. Með þessum herlegheitum drukkum við rauðvín, Wolf Blass-yellow label, traust og gott. Í eftirrétt smökkuðum við Créme brullée sem lokaði máltíðinni smekklega á mildum og léttum nótum.
Allir réttirnir sem bornir voru á borð voru fallegir og freistandi á að líta. Þeir voru bragðgóðir, hver á sinn hátt og eins ólíkir hver öðrum og þeir voru margir. Eldhúsið er stóra tromp staðarins en fast á hæla þess koma þjónarnir í salnum. Þeir eru starfi sínu vel vaxnir og sá sem sinnti okkur hafði afar þægilega nærveru. Hann gaf góð ráð og greinargóð svör við öllu sem spurt var um og það var ekki síst hans vegna að kvöldið var frábært.
Heimasíða Domo er www.domo.is. Þar er matseðilinn en fátt annað. Fyrir utan vínseðil, upplýsingar um matreiðslumeistarana, sögu hússins og opnunartíma veitingastaðarins mætti setja þarna inn tónleikadagskrá kjallarans og annað fréttnæmt sem staðinn varðar. Ég gef Domo fimm stjörnur, smekklegur og aðlaðandi veitingastaður með góða þjónustu og frábæran mat.
Einar Ben
Einar Ben við Ingólfstorg er einn af boðlegri veitingastöðum borgarinnar. Staðsettur í einu elsta verslunarhúsi Reykjavíkur og minnir innkoman dálítið á annan góðan veitingastað, hinumegin við Austurvöll, þó stigi Einars sé ekki eins brattur og stigahúsið ekki eins þröngt. Salarkynni eru líki ögn rýmri og skreytingar ekki eins yfirdrifnar. Þó er hlýlegt um að litast og myndir á veggjum minna á lífshlaup þess merka athafnamanns og stórskálds sem Einar var. Fátt á matseðli tengist honum þó beint og líklega er nafninu og myndunum ætlað að minna á hann fremur en sjálfum matnum. Á forréttmatseðlinum er þó að finna kjötsúpu og fiskisúpu “að hætti Einars Ben”.
Samsettur 5 rétta seðill gefur góða mynd af því sem í boði er og hann er hægt að fá án víns eða, sem er mun meira spennandi, með 5 mismunandi vínum sem yfirþjónn velur.
Fyrsti rétturinn á borðið var laxatartar með rauðrófusósu, fínlegur og góður réttur. Strax á eftir fylgdi salat með kirsuberjatómat og gráðosti og með þessu smökkuðum við Sauvignon Blanc, Vicar´s Choice frá Nýja Sjálandi, afar vel passandi svona í byrjun. Frábærri klausturbleikju með Jerúsalem-ætiþystlamauki fylgdi glas af Lucien Albrect Pinot Gris frá Alsace í Frakklandi einstaklega milt og aðlaðandi, það stefndi í frekar góða veislu. Humarsúpa með skelfisk-soufle var léttpískuð og mjög bragðgóð. Henni var rennt niður með glasi af Austurrísku Chardonney, Kollwentz Tatchler 2004, víni sem verður örugglega pantað aftur síðar. Nautalund með smjörsteiktu smælki og portabellosveppum skyldi vera aðalréttur kvöldsins og eftir þessa frábæru uppbyggingu var eftirvæntingin mikil.
En vonbrigðin líka þeim mun meiri. Kjötið var að vísu bragðgott en eitthvað hefur tímavörðurinn verið utan við sig því “rare” var “well-done” og “medium” var grá í gegn og seig undir tönn. Þar sem talsverður magn matar var þegar komið í belginn var ekki farið fram á aðra steik en það hefði án vafa verið gert alla jafna. Steiking er það stór hluti matreiðslu nautakjöts að algerlega óafsakanlegt er að það skuli ekki koma nákvæmlega þannig steikt á borðið og beðið var um. Eftir frekar vel heppnaðan dinner fram að því var kjötið ekki sá demantur í kórónuna sem það hefði geta verið og hefði átt að vera. Með steikinni var smakkað rauðvín frá Chile, fjögurra berja blanda, Shirah í meirihluta, Coyam 2004 frá Colchagua dalnum. Það var ekki að okkar smekk en kannski höfðu vonbrigðin með nautið áhrif á það álit.
Eftirrétturinn var borðaður á efstu hæðinni, í seturými sem þar er, og skyr créme-brulee með pistasíuís var í sömu sveiflu og forréttirnir höfðu verið, afar góður réttur. Að lokum smökkuðum við eftirréttavín, Sanxet Millenium 1997 frá Mobazillac í Frakklandi og verður að segjast eins og er að vínin sem valin voru með réttum kvöldsins lyftu máltíðinni á hærra plan. Þegar þjónninn er svona vel að sér er óhætt að láta hann um valið. Í fjórum heimsóknum á nokkurra mánaða tímabili hefur Einar Ben skilað sínu. Maturinn hefur verið góður, jafnvel mjög góður á stundum, og þjónustan hefur undantekningarlaust verið smekkleg og fagmannleg.
Umhverfið er afslappandi, helst að drunur tillitslausra mótórhjólamanna úti fyrir nái að trufla stemmninguna, þeir virðast nefnilega halda að stéttarnar við torgið hafi verið lagðar fyrir þá sérstaklega. Efsta hæðin er hlýleg, þó þar sé vítt til veggja, og vel myndi fara að bjóða þar uppá píanista í lok kvölds eða í.þ.m. ljúfa tónlist af geisladiskum. Þögnin getur nefnilega orðið ansi yfirgnæfandi þegar margir þegja í kór. Einar Ben kemur kannski ekki fyrstur allra upp í hugann þegar fara á út að borða í Reykjavík en þessi huggulegi staður stendur fyllilega fyrir sínu í mat, þjónustu, umhverfi og verði. Ég gef fjórar stjörnur og ætla að muna eftir staðnum næst þegar ég er að vandræðast niðrí bæ.
Lúxus á Hótel Rangá, Hótel Glymur og Hótel Búðir
Þrír sólarhringar, 600 km. í bíl, þrjú hágæða hótel í rammíslenskri sveitarómantík, hvað er hægt að hugsa sér betra í stysta sumarfríi aldarinnar?
Ég var hræddur um að þetta yrði sprengur, kappakstur á þjóðvegi númer 1 og rallýakstur á tengivegunum að hótelunum sem ég ætlaði að heimsækja, stress oní hamagang oní læti. Engin hvíld og lúxusinn aðeins mynd í kynningarbæklingi. Mikið er gott að hafa stundum rangt fyrir sér. Fyrir það fyrsta eru hótelin 3, Hótel Rangá, Hótel Glymur og Hótel Búðir alls ekki svo langt frá höfuðborginni, dálítið sitt í hverja áttina en samt innan seilingar. Svo eru þau sannarlega í þeim lúxusklassa sem auglýstur er. Og landið sem ber fyrir augu í akstrinum er svo dásamlega fallegt að ferðin sjálf verður líka frí.
Hótel Ranga var fyrst í röðinni. Bjálkahús, á bökkum Eystri-Rangár, sem nýverið var stækkað um heila álmu og ný svíta tekin í notkun, ein sú flottasta sem sést hefur á landinu og þó víðar væri leitað. Öll herbergi á hótelinu eru með sjónvarpi, þau nýjustu með flatskjá en svítan er með komplett 5.1 heimabíói og auka flatskjá við hjónarúmið. Heitir pottar eru á veröndum sem snúa að ánni, einn fyrir hverja álmu og herbergin sem snúa að Heklu hafa nuddbaðkör. Svítan er með nuddpott á miðju gólfi gengt tvöföldum dyrum, frönskum, með útsýni á Eiríksjökul. Herbergin eru búin fallegum og þægilegum húsgögnum og rúmt er um mann, hvort heldur í venjulegum herbergjum, delux-herbergjum að ekki sé talað um í svítunni frábæru sem er tæpir 80 m2.
Veitingastaðurinn er í þeim gæðaflokki að hann er verður sér ferðar úr bænum þó maður ætli ekki að gista, sem reyndar er súrt fyrir bílstjórann því Rangá skartar vínseðli sem vart á sinn líka á nokkrum veitingastað á landinu, yfir þrjátíu hvítvín og á fimmta tug rauðvína jafnt frá gamla og nýja heiminum auk kampavína, freiðivína og rósavína í ýmsum verðflokkum. Sérstakur konunglegur vínseðill er í boði, valinn af Carli Gustav XVI Svíakonungi. Úrval sterkra drykkja og líkjöra er á svipuðum nótum.
Fiskisúpan var frábær og gaman að prófa carpaccio úr kálfi, strúti og kengúru. Forréttirnir gáfu fyrirheit um spennandi kvöldverð. Aðalréttir voru “Veisla úr hafinu”, sandhverfa og skötuselur ásamt gaddakrabba, og “Surf and Turf”, lamb og humar sem staðurinn er frægur fyrir. Báðir réttirnir voru einstaklega góðir og fallega fram bornir. Annað spennandi sem bíður næstu heimsóknar er dádýr, hreindýr eða elgur og dúfa. Þjónustan er með alþjóðlegu yfirbragði, þjónarnir koma frá ýmsum löndum og í þ. m. 10 tungumál töluð auk Íslensku. Allt staff er sérlega prófessional, indælt, þægilegt og afar kurteist. Umhverfi Hótel Rangár skartar magnaðri fjallasýn þar sem Heklu, drottninguna sjálfa og Eiríksjökul ber við himinn. Kyrrð sumarnæturinnar var aðeins rofin af stöku andvaka fugli sem söng að sólarupprásinni, bílaumferð og sírenuvæl borgarinnar víðs fjarri.
Hótel Glymur í Hvalfirði státar af einhverju fallegasta útsýni nokkurs hótels á landinu. Hvort heldur horft er inneftir, úteftir eða þvert yfir fjörðinn, allstaðar blasir við fegurð þessarar mögnuðu sveitar. Hótelið er með nokkru öðru sniði en maður á að venjast, hér er það nálægðin og einlægnin sem hrífur. Innanstokksmunir, handrið, rúmgaflar innréttingar og smærri listmunir, allt er handunnið í samstarfsverkefni nokkurra arkitekta og listamanna. Tilfinningin er næstum eins og að ganga inn á heimili, svo persónulegur og sérstakur er stíllinn í allri sinni fjölbreitni. Tilvísanir í Hallgrím Péturson skáld er að finna hér og þar og Saurbæjarkirkja er ávallt í miðri mynd, neðar í brekkunni. Öll herbergi á Glym eru svokallaðar mini-svítur, á tveimur hæðum, með útsýni yfir fjörðinn. Að auki eru í boði þrjár svítur þar af ein stór. Hvert herbergi hefur sitt tema í húsbúnaði og listmunum. Sameiginleg rými eru setustofa og lobbybar og stór salur ætlaður fyrir fundi og ráðstefnur, búinn öllum nauðsynlegum tæknibúnaði.
Hótel Glymur er lokaáfangi þjónanema frá evrópu en farsælt samstarf er milli hótelsins og nokkurra skóla á meginlandinu. Veitingastaður Glyms er opinn og bjartur, skreyttur listmunum í sama stíl og hótelið. Fiskisúpan, karrýlöguð, var góð byrjun á máltíðinni og eins og flest annað á hótelinu hefur hún sinn eigin stíl, með silkimjúka áferð. Stolt staðarins er samsettur seðill, “Taste of Glymur”, brot af því besta. Við fengum nautasteik, lambaskanka, skötusel í orly degi, krabba og reykta hörpuskel. Nautasteikin stóð uppúr, hárrétt elduð og fínlega skorið ferskt grænmeti átti sérlega vel við. Á eftir þessum fjölbreytta og vel útilátna aðalrétti kom vart annað til greina en ís-soufflé með teguila og súkkulaðiterta hússins, punkturinn yfir i-ið. Það var við hæfi, þar sem móttaka er í höndum eiginkonunnar og matseldin í höndum eiginmannsins, að þjónn kvöldsins væri sonurinn. Honum fórst það hlutverk afar vel úr hendi.
Hótel Búðir er rúmlega steinsnar frá höfuðborginni. Kyngimagnaður Snæfellsjökullinn hefur áhrif á allt og alla sem hingað koma, hvort sem menn trúa því eða ekki. Búðahraun, fjallgarðurinn, ströndin og kirkjan, allt umhverfi hótelsins er sveipað dulúð. Hótelrekstur á þessum stað á sér langa hefð og þegar gamla húsið varð eldi að bráð árið 2001 kom ekki annað til greina en endurreisn. Nýja húsið er afar falleg bygging, tvö hús tengd í miðju þar sem er móttaka og setustofa.
Virðing fyrir því liðna og væntingar um glæsta framtíð er það sem greinilega var lagt upp með í upprisunni því sama notalega stemningin mætir manni nú og gerði forðum þó umgjörðin sé ögn nýtískulegri. Flatskjáir, myndspilarar, vekjaraklukkur og netsamband er staðalbúnaður sem nútímaferðalangar búast við en á Búðum bregður svo við að farsímasamband er í veikara lagi, þvílík blessun. Það þýðir þó ekki að menn séu sambandslausir við umheiminn því símar eru á öllum herbergjum, tengdir landlínunni. Hingað kemur fólk ekki síst til að forðast ys og þys og til að borða góðan mat. Veitingastaður hótelsins er frægur langt útfyrir landsteinana og hefur haldið sessi sínum gegnum tíðina.
Dæmi er um stönduga bissnissmenn utan úr heimi sem létu skutla sér í þyrlu frá höfuðborginni til þess að snæða kvöldverð á Búðum og héldu svo tilbaka sama kvöld. Kvöldverður okkar hófst á silungatartar, virkilega góðum, og humar þrennu, ekki síðri. Milliréttur barst síðan óvænt á borðið, skötuselslifur með súkkulaði, skondin samsetning. Aðalréttir voru síðan skötuselur, lambarifjur og skankar. Fiskurinn var hæfilega eldaður og bragðgóður en lambið var frábært, bleikt í miðju, meirt og safaríkt. Súkkulaðikaka hússins innsiglaði svo máltíðina, snædd í glerskálanum með útsýni yfir bryggjuna og ósinn. Starfsfólk hótelsins er indælt og þægilegt, þjónninn okkar átti ekki minnstan þátt í hve máltíðin var vel heppnuð og greinilegt var á stemningunni í matsalnum að aðrir gestir voru ánægðir líka.
Ýmis afþreyging er í boði á utanverðu Snæfellsnesi og gönguferðir um nágrenni hótelsins duga vel til að hlaða batteríin. Stutt er í jökulinn, á Arnarstapa og að Hellnum og Bárðar saga Snæfellsáss bergmálar í hverjum kletti. Á komandi vetri verður framhald á hinum stórskemtilegu morðgátuhelgum á hótel Búðum sem notið hafa mikilla vinsælda. Hlutverkum er úthlutað og sjálfur Hercule Poirot stýrir atburðarásinni í anda Agöthu Christie, hið sanna kemur ekki í ljós fyrr en í helgarlok.
Samanburður á jafn ólíkum hótelum og þeim þremur sem heimsótt voru í þessu stutta fríi er svolítið eins og að bera saman epli, appelsínur og banana. Hvert þeirra hefur sína kosti og sérstöðu þótt öll eigi þau þó sameiginlegt að vera í hæsta gæðaflokki. Umhverfi þeirra er ólíkt, sléttur landeyja, hlíðar Hvalfjarðar og andstæður láglendis og fjalla yst á Snæfellsnesi. Aðbúnaður og þjónusta á þessum lúxushótelum er með því besta sem í boði er í dag og veitingastaðir þeirra eru frábærir. Áður en ákvörðun er tekin þarf að vega og meta vandlega hvað það er sem verið er að sækjast eftir því sérhver gestur hefur ólíkar þarfir og gerir mismunandi kröfur. Einkunnagjöf fyrir hina ýmsu þætti eins og þjónustu, aðbúnað og umhverfi litast fljótt af smekk og væntingum hvers og eins.
Reynslu þessa þriggja sólarhringa mætti ef til vill taka saman á eftirfarandi hátt;
Hótel Rangá:
Umhverfi – 7, berangurslegt og flatt, gróðursetning og sáning myndi bæta, fjallahringurinn telur.
Herbergi – 10, til algerrar fyrirmyndar, með því besta sem í boði er. Annar aðbúnaður – 8, sameiginlegir heitir pottar eru ekki lúxus.
Þjónusta – 10, fagmannleg og hnökralaus
Veitingasalur – 10, hlýlegur og rómantískur.
Matur – 9, virkilega góður
Vínseðill – 10, svona sér maður bara “erlendis”.
Verð, gisting – 19.800 f. tveggja manna herbergi með morgunmat.
Verð, kvöldverður – 19.000 (með flösku af góðu víni)
Hótel Glymur:
Umhverfi – 9, einhver fallegasti fjörður landsins út að upplýstu stóriðjuþorpinu.
Herbergi – 8, einstaklega smekkleg en lítið gólfpláss.
Annar aðbúnaður – 8, hlýleg setustofa og bar með sjálfsafgreiðslu, algert traust. Sameiginlegir heitir pottar eru ekki lúxus, þrátt fyrir einstakt útsýni.
Þjónusta – 8, helst til persónuleg á stundum.
Veitingasalur – 7, full mikill “salur”, opinn í báða enda, feng shui myndi hjálpa mikið hér.
Matur – 7, nautið bar af en sjávarfangið var síðra.
Vínseðill – 6, hér er hægt að gera betur
Verð, gisting – 23.900 f. tveggja manna herbergi með morgunmat
Verð, kvöldverður – 21.000 (með flösku af góðu víni)
Hótel Búðir:
Umhverfi – 8, dulmögn og nálægð við Snæfellsjökul telur, hraunið líka.
Herbergi – 6, hér vantar aðeins uppá “kósýið”
Annar aðbúnaður – 8, afar hlýlegar sameiginlegar stofur.
Þjónusta – 8, lipur og þægileg.
Veitingasalur – 8, þægilegur en þolir illa að vera þétt setinn.
Matur – 10, besti matur ferðarinnar.
Vínseðill – 9, frábær vín í boði og gott úrval sterkra drykkja á bar.
Verð, gisting – 19.900 f. tveggja manna herbergi með morgunmat
Verð, kvöldverður – 23.500 (með flösku af góðu víni)
Sjálfur fer ég á “lúxus” hótel fyrst og fremst til að gista og upplifa rómantík. Þeim sem vilja fara á hestbak, í sleðaferðir, gönguferðir eða veiði bendi ég á heimasíður hótelanna því þar er að finna úrval margskonar afþreyingar. Hótel Rangá, Hótel Glymur og Hótel Búðir standast kröfur og uppfylla þarfir jafnvel þurftafrekustu lúxusgesta.
Rauðará steikhús
“Rauðará steikhús góðan dag.” ” Góðan dag, áttu borð fyrir tvö í kvöld.” ” Já, klukkan hvað vilji’ði koma? “ ”Kl.9.“ ”Það væri betra ef þið kæmuð kl.hálf níu.“ ”Ha! Væri það betra? “ ”Já eldhúsið lokar kl.9 á sunnudögum.“ ”Við gætum kannski verið hjá ykkur rúmlega hálf.” ” Gott, en ég set pöntunina ykkar kl. hálf og þið athugið þá að eldhúsið lokar á mínútunni 9.”
(Í upphafi kvöldsins):“Seinast þegar ég kom hér inn var hér Líbanskur veitingastaður, alveg orginal með músik og magadansmær og alles.” ”Já er það? Ég er einmitt að æfa magadans en það var samt ekki ég, ég er samt búin að nefna það við eigandann hvort ég ætti ekki að taka það sem aukadjobb hér á staðnum, ég tek ekki mikið fyrir.” (örlitlu síðar):“Við veljum Wolf Blass Yellow label með þessum mat.” “Já það er æðislegt, reyndar finnst ekki öllum það. Ég smakkaði í fyrsta sinn í gær President series, með svarta miðanum, það er meiriháttar!” (og seinna sama kvöld): “matarstellið er fallegt” “já, finnst ykkur það ekki!” “En steikurnar okkar eru báðar kaldar og bökuðuð kartöflurnar ekki nema rétt volgar.” ”Já..! Það skeður stundum!”
(og enn seinna sama kvöld):“Ansi er kalt hér í koniaksstofunni.
Getur verið að gluggi sé opinn?” “Nei nei, en í morgun bilaði miðstöðvarofn og fór á fullt, við rétt náðum að slökkva á honum áður en kviknaði í.” ”Nú, er kaffið og koníakið þá á afslætti af því gestirnir þurfa að sitja í úlpunum svo slái ekki að þeim?” “Þú verður að ræða það við Stefán, hann er miklu harðari í þessu en ég.” (Stefán???) (og svo aðeins seinna, reyndar við aðra gesti sem einnig hímdu í frostkaldri stofunni, en hátt og snjallt svo allir viðstaddir heyrðu): “Jæja, þá er hér kominn fjórfaldur!!!”
Ég hefði líklega ekki lagt samskipti okkar á minnið, hvað þá sagt öðrum frá, ef þau hefðu átt sér stað á matstofu. En þar sem þessar setningar voru sagðar í einu af dýrari steikhúsum höfuðborgarinnar stuðuðu þær mig. Hvað varð um takk fyrir, gjörið svo vel, verði ykkur að góðu og fleiri slíka frasa. Og jafnvel afsakið, sem hefði átt mjög vel við þegar ljóst var að dinnerinn var misheppnaður og koníaksstofan orðinn að kæliklefa.
Nokkrum vikum áður ætlaði ég að bjóða fjölskyldunni út að borða. Ég hringdi í steikhúsið við Rauðarárstíg og var tjáð að ekki væri sérstaklega gert ráð fyrir börnum á veitingastaðnum, ekki væri neinn barnaseðill og ekki eldaðir minni skammtar. Ég er eldri en tvævetur og skil fyrr en skellur í tönnum, börnin voru ekki velkomin á staðinn. Gott og vel, hverjum rekstraraðila hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða fólki hann hleypir inn á staðinn sinn. Við fórum bara annað með peningana okkar í það sinn.
En nú vorum við semsagt komin, barnlaus, til að prófa steikhúsið. Húsnæðið er hlýlegt, innréttingarnar hafi ekki mikið breyst þó staðurinn hafi skipt um hlutverk og eigendur. Þar sem svo knappur tími var til stefnu (eldhúsið lokar nefnilega kl.9 á sunnudögum) ákváðum við að taka tilboði dagsins. Það myndi líka án efa gefa góða mynd af því sem staðurinn er stoltastur af, steikunum. Humarsúpan á undan var þolanleg, þó aðeins í saltara lagi. Humarinn sem fylgdi með var hinsvegar ofeldaður og seigur og brauðbollurnar líklega beint úr frystinum, forbakaðar. En það voru steikurnar sjálfar sem ollu mestum vonbrigðunum.
Nautalundin var meir og safarík og af litnum að dæma, alveg hárrétt elduð. En hún var köld. Fyrstu bitarnir voru reyndar spenvolgir en sú velgja dugði ekki máltíðina á enda. Svipað var með lambafilleið, það var kalt og spikröndin líka. Bökuðu kartöflurnar voru heldur volgari en kjötið en alls ekki nógu heitar og kólnuðu hratt. Meðlætið var athyglisvert, salatrifrildi hellt úr poka og brokkolí/blómkálstvenna, svona eins og fæst á litlum bakka í Bónus. Hefði ekki verið eins áberandi hallærislegt ef kokkurinn hefði skorið hausana í tvennt. Og svo paprikustrimlar svissaðir á pönnu.
Tvennskonar sósur fylgdu með en þær voru óáhugaverðar. Tíramísu, varla meir en frómas á bleittum tertubotni og súkkulaðikaka með Baylies-ís náðu ekki að redda kvöldinu. Maturinn var kaldur og þar af leiðandi algerlega óboðlegur og tilboðinu um að taka hann aftur og “skella í ofninn” var að sjálfsögðu hafnað. Við kláruðum úr glösunum í koníakskæliklefanum en treystum okkur ekki til að sitja þar yfir kaffibolla vegna kulda. Og svo er ég ekkert viss um að ég vilji að allir viðstaddir fái að vita hvað ég panta margfaldan.
Í lokin borgaði ég svo uppsett verð fyrir máltíðina en fékk bara einverskonar “shit happens!” þegar ég benti á handvömmina. Vandvirkni er stórlega ábótavant og metnaðarleysið virðist vera algert. Stúlkurnar sem gengu um beina voru líka allt of kammó fyrir stað í þessum verðflokki.
Venjulega gef ég einkunn í lok greinar sem þessarar en ég held að Rauðará steikhúsi væri enginn greiði gerður með því.
Les Rendez-vous
Hvað er það sem skiptir máli ef heimsókn á veitingastað á að heppnast vel? Auðvitað að maturinn sé góður, spennandi og fallega fram borinn, þjónustan sé lipur, fagmannleg og þægileg, umhverfi staðarins sé aðlaðandi og að verðið sé sanngjarnt. Í húsnæði þar sem lengi var Pasta Basta við Klapparastíg, hefur nýr veitingastaður verið opnaður. Sá er rekinn af franskri fjölskyldu og kynntur sem “franskur”.
Þeir sem tala frönsku geta því pantað og átt samskipti við starfsfólkið á því tungumáli, við hin pöntum á ensku því ekki er töluð íslenska á þessum stað, ennþá. Engin vandamál gerðu þó vart við sig í borðapöntuninni og móttökur á staðnum voru hlýlegar og gáfu góð fyrirheit. Efri hæð hússins, þar sem einhverntíma var bar og setustofa, er nú matsalur. Það fyrsta sem maður tekur eftir er að engin gluggatjöld eru fyrir gluggum og sterkri hvítri birtu frá veggljósum er beint upp í hvítt loftið svo að loftræstistokkurinn þar verður þungamiðja skreytinga, sem reyndar er stillt í hóf í salnum.
Lágstemmd óperutónlist barst úr hátölurum en skömmu síðar vék hún því einn gestanna mátti til að glamra á rafmagnspíanó sem stendur þarna í einu horninu. Eitt eða tvö lög til að ganga í augun á deitinu hefðu engan truflað en það sem þarna fór fram verður að teljast með verri dinneratriðum seinni tíma. Rafpíanó hafa þann yndislega fídus að á þeim er styrkstillir sem hefði bjargað heilmiklu ef hann hefði verið betur nýttur. En hvað um það, gestirnir hækkuðu bara róminn á meðan, allt afar rómantískt. Matseðillinn er hvorki stór né flókinn, súpur eru tvær, lauksúpa og rjómalöguð blómkálssúpa.
Hin ómissandi franska kæfa ásamt laxa “rilettes” í forrétt, einnig egg, skinkuteningar og ostur og forláta salat. Þrír fiskar og önd í aðalrétt ásamt íslensku nauti og svo þeitt eggjahvíta á vannillubúðingi, créme brulle, pönnukökur og eplaka í eftirrétt. Við pöntuðum að sjálfsögðu Foie-grasið og lauksúpuna til að skapa strax rétta franska stemningu. Kæfan kom greinilega beint úr kæli svo að fitan varð mest áberandi í bragði og áferð og lauksúpan var vart meira en niðurskorinn laukur í soðnu vatni. Reyndar leit þetta hvorutveggja vel út, það vantaði ekki, fallega skreyttur kæfudiskurinn og brauð með bráðnum osti ofaná súpunni. En þetta var eins bragðlaust og óspennandi og það gat verið. Þvílík vonbrigði. Aðalréttir skyldu vera vatnableikja, saltfiskspænir og andabringa.
Bleikjan reyndist vera pínulítið smörsteikt flak, algerlega bragðlaust, með fimm forsoðnum en köldum kartöflum raðað í hálfhring. Saltfiskurinn var undarleg útgáfa af plokkfiski, haugur af tættu grænu káli og tvær næfurþunnar snittubrauðsneiðar með söxuðum svörtum ólífum var meðlætið með þeirri tilraun. Og svo var það andabringan sem pöntuð var “well done” en mætti blóðug á borðið.
Engin leið var að borða þennan flata og óspennandi mat eins og hann var borinn fram og því var leitað að salti og pipar á nærliggjandi borðum. Þjónninn var að lokum sóttur á neðri hæðina og hann kom með settið. Það lifnaði aðeins yfir bleikjunni, saltfiskurinn var áfram bara saltfiskur en svo datt lokið af bauknum þegar átti að strá örlitlu salti yfir blóðklessurnar. Sú önd hafði þar með lokið keppni. Enn vonbrigði. Vínseðillinn er franskur. Þar kennir ýmissa grasa og vínið, sem við völdum dálítið blindandi, var ágætt þó það hafi ekki náð að bjarga máltíðinni. Eftirréttir voru ekki smakkaðir því allur vindur var úr borðhaldinu.
Umhverfi Les Rendez-vous er snyrtilegt en því er spillt með skurðstofulýsingu og ef ekki verður ráðinn hljóðfæraleikari til að spila undir borðum hefur píanóið engan tilgang annan en að freista draumóramanna. Þetta er rándýr veitingastaður sem stendur engan veginn undir verðlagningunni. Maturinn er bragðlaus og engu líkara en að kastað sé til höndum við framreiðslu hans, hvað er líka svona franskt við pönnusteikt silungsflak með soðnum kartöflum?
Þegar maður sér verð eins og þau sem þarna eru sett upp gerir maður ósjálfrátt sanngjarna kröfu um toppgæði. Þessi máltíð stóðst engan veginn þær væntingar, Reyndar var hún svo afleit að inn á þennan stað fer ég líklega aldrei aftur. Svo er ekki verjandi, fyrir þennan pening, að hafa þjóninn á gallabuxum og í bol og pappírsservíettur af ódýrustu gerð á borðunum. Les Rendez-vous fær eina stjörnu fyrir kurteisina sem einkenndi öll samskipti kvöldsins, annað var ekki í lagi.
Niðurstaðan; algjör vonbrigði, eða á frönsku til að fyrirbyggja misskilning; “c’était un gaspillage complet de temps et d’argent”.
Heimasíða: Howser
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Frétt13 klukkustundir síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Veitingastaðurinn MAR opnar á Frakkastíg
-
Frétt4 dagar síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fljótlegur hátíðareftirréttur – Einfaldasta skyrkaka í heimi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Veitingageirinn í jólaskapi
-
Keppni5 dagar síðan
Skráning hafin á Íslandsmót nema og ungsveina í matvæla -og veitingagreinum
-
Nemendur & nemakeppni3 dagar síðan
Útskriftarnemendur Hótel- og matvælaskólans í MK tóku þátt í ýmsum keppnum og krefjandi verkefnum