Markaðurinn
Ómótstæðilegar sælkerabollur – brakandi marengs, silkimjúkur rjómi og dýrindis karamella
Þessar bollur eru algjört sælgæti og undirbúningurinn er fullkomlega þess virði! Stökkur marengsinn með ljúffengum súkkulaðirjóma, heimagerðri karamellunni og stökkri kexbollunni er blanda sem er algerlega ómótstæðileg. Fullkomin blanda af krönsi og silkimjúkum rjóma!
Undirbúningurinn tekur vissulega góða stund en vinnan sjálf er ekki erfið. Aðallega bara dútl og síðan fer góður tími í baksturtíma og bið sem hægt er að nýta í allskonar skemmtilegt.
Ef afgangur verður af marengsinum er hægt að geyma hann í loftþéttu íláti eða nýta hann í litla marengsskál ásamt meiri rjóma, sælgæti og berjum til dæmis. Karamellusósan geymist sömuleiðis vel í kæli og er ljómandi góð út á allt mögulegt og gott að eiga til.
Látið þessar eftir ykkur!
Stökkur súkkulaðikexhjúpur:
40g smjör
40g sykur
38g hveiti
2 tsk. kakó
- Blandið smjöri og sykri saman í skál. Sigtið þá hveiti og kakói yfir og hrærið saman.
- Mótið kúlu og fletjið út á milli tveggja arka af bökunarpappír. Það er gott að miða við 2 mm þykkt.
- Setjið útflatt deigið sem er enn á milli bökunarpappírsarkanna á plötu og setjið í frysti í a.m.k. 30 mín.
Vatnsdeigsbollur:
200g vatn
80g smjör
125g hveiti
Salt á hnífsoddi
2-3 egg
Aðferð:
- Hitið vatn í potti og bætið smjöri saman við. Látið sjóða í smá stund.
- Setjið hveiti og salt saman við og hrærið rösklega saman í pottinum.
- Kælið deigið með því að setja það í hrærivélaskálina og dreifa því upp á skálarbrúnirnar.
- Setjið egg í mælikönnu og pískið saman. Ef eggin eru mjög stór er ekki víst að það þurfi alveg 3 egg svo það er betra að píska þau saman og skilja smá eftir.
- Þegar deigið er orðið volgt má byrja að hræra það með káinu og setja eggin út í í smá skömmtum.
- Hitið ofninn í 175°C blástur. Setjið deigið á plötu klædda bökunarpappír með góðu millibili. Mér finnst best að nota sprautuboka en einnig er fínt að nota tvær skeiðar, gott er að miða við að stærðin sé um 4 cm. í þvermál.
- Takið kexhjúpinn úr frysti og stingið út kökur með hringlaga formi um 5,5-6 cm að stærð. Leggið hverja köku ofan á hverja hráa bollu.
- Setjið plöturnar inn í ofn og bakið í að minnsta kosti 30 mín. Ég fer jafnvel alveg upp í 40 mín þar sem ég vil hafa þær frekar þurrar og þannig eru líka minni líkur á því að þær falli. Góð þumalputtaregla er að opna ekki ofninn fyrr en eftir a.m.k 25 mín!
Kornflex marengs
2 eggjahvítur
110g sykur
¼ tsk. Cream of tartar
30g Kornflex, mulið
Aðferð:
- Setjið eggjahvíturnar í skál og byrjið að þeyta. Þegar froða byrjar að myndast setjið þá 1 msk af sykri í einu út í, látið vélina vinna vel á milli.
- Þegar sykurinn er allur kominn út í, setijð þá cream of tartar út í og þeytið þar til sykurinn er uppleystur.
- Hitið ofninn í 120°C blástur.
- Myljið kornflexið og setjið saman við marengsinn með sleikju.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu og smyrjið marengsnum frjálslega á pappírinn.
- Bakið í 2 klst. Slökkvið þá á ofninum og látið kólna í 1 klst í ofninum.
Súkkulaðirjómi
400 ml Rjómi frá Gott í matinn
2 msk. Súkkulaðismyrja, t.d. Nutella
Aðferð:
- Setjið rjómann í skál og byrjið að þeyta með handþeytara.
- Þegar rjóminn er farinn að þykkna setjið þið súkkulaðismyrjuna saman við og þeytið þar til rjóminn er orðinn stífþeyttur.
Karamellusósa:
200g sykur
90g smjör í bitum
120ml rjómi frá Gott í matinn
1 tsk. sjávarsalt
Aðferð:
- Bræðið sykur við vægan hita og hrærið stöðugt í.
- Þegar sykurinn er bráðinn og orðinn vel gylltur, setjið þá smjörið saman við og hrærið rösklega í.
- Bætið þá við rjómanum og hrærið þar til karamellan er samlöguð. Setjið þá saltið út í og hrærið. Setjið strax í krukku.
Samsetning:
- Skerið lok á bollurnar með beittum hníf.
- Myljið marengs og setjið í botninn á bollunum.
- Sprautið súkkulaðirjóma yfir marengsinn og tyllið lokinu á.
- Sprautið þá smávegis doppu af súkkulaðirjómanum ofan á lokið, dreifið vel af saltkaramellu yfir og myljið marengs yfir karamelluna. Berið strax fram.

-
Markaðurinn2 dagar síðan
Matreiðslumaður óskast á veitingahúsið Sauðá á Sauðárkróki
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun20 klukkustundir síðan
Centrum stækkar með nýrri viðbót í gamla Pósthúsbarnum
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Matarveisla í Reykjavík: Stjörnukokkar töfra fram íslenska sælkerarétti
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Fermingarundirbúningur í brennidepli – Kynningarsýning í Múlabergi
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Einstök keppni í dag á Gilligogg – hver hristir besta kokteilinn í Graham’s Blend Series?
-
Keppni18 klukkustundir síðan
Hraði og hreinlæti tryggðu Sævari Helga sigur í barþjónakeppninni – Myndaveisla
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Ostakubbur bakaður með eggjum – einföld og dásamleg uppskrift
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Þjónar og barþjónar óskast – spennandi tækifæri