Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Myndaveisla frá hátíðarkvöldverði Klúbbs Matreiðslumeistara 2026

Birting:

þann

Myndaveisla frá hátíðarkvöldverði Klúbbs Matreiðslumeistara 2026

Matur og vínpörun voru órjúfanlegur hluti af hátíðarkvöldverði Klúbbs Matreiðslumeistara, sem haldinn var í Hörpu nú á dögunum með húsfylli, að því er fram kemur í tilkynningu frá Klúbbi Matreiðslumeistara.

Matseðill kvöldsins og pörun drykkja endurspegluðu bæði breidd og dýpt íslenskrar matargerðar og drykkjamenningar, þar sem áhersla var lögð á jafnvægi, nákvæmni og heildstæða upplifun.

Yfirmatreiðslumenn kvöldsins voru Arnar Darri Bjarnason og Ísak Aron Jóhannsson, sem báru ábyrgð á heildarútfærslu matseðilsins og samhæfingu fjölmargra aðila. Vín og óáfeng pörun kvöldsins var í höndum Vínþjónasamtaka Íslands, sem mótuðu pörunina af mikilli fagmennsku og í nánu samtali við réttina. Framreiðsla var í höndum Barþjónaklúbbs Íslands og gekk þjónustan snurðulaust og með miklum glæsibrag.

Lystaukar og fordrykkur

Lystaukar kvöldsins voru í umsjón deilda Klúbbs Matreiðslumeistara og voru bornir fram samhliða fordrykk. Þessir upphafsréttir settu skýran tón fyrir það sem koma skyldi og gáfu gestum fyrstu innsýn í metnað og fagmennsku kvöldsins.
Í fordrykk var boðið upp á Champagne Lanson Le Black Création NV, blöndu Pinot Meunier, Pinot Noir og Chardonnay frá Champagne í Frakklandi. Kampavínið var þurrt, létt og ferskt, með fínlegum búbblum, hvítum blómum og gulum plómum.
Sem óáfengur valkostur var boðið upp á OddBird Blanc de Blancs, úr Chardonnay og Colombard frá Languedoc Roussillon í Frakklandi.

Bleikja

Kvöldið hófst á kombu jime grafinni bleikju ballontine með yuzu majónesi, lacto gerjaðri hindberja ponzu, rúg miso tuille, bleikjuhrognum og micro herb salati, í höndum Daníels Cochran Jónssonar, þjálfara Ungkokkalandsliðsins, sem starfar hjá Innnes. Rétturinn var léttur, ferskur og nákvæmur í bragði og opnaði máltíðina á fágaðan hátt.
Með réttinum var parað Oveja Blanca Dry Muscat 2023 frá Castilla La Mancha á Spáni, þurrt og létt vín með rósablöðum, suðrænum ávöxtum og steinefnaríkum undirtónum.
Óáfeng pörun var Copenhagen Sparkling Tea Lyserød, byggt á Silverneedle og Oolong tei, með rauðum berjum, hibiscus og rauðum eplum.

Tartar

Wagyu nautatartar með íslensku wasabi, engifer, kasjú og sojasósu, í höndum Óskars Finnsonar hjá Finnson. Með réttinum var parað Gustave Lorentz Riesling Grand Cru Altenberg de Bergheim 2020 frá Alsace í Frakklandi, þurrt, steinefnaríkt og flókið vín með ferskjum, bergamot og elduðum sítrónum.
Óáfengur valkostur var OddBird Low Intervention Organic White No. 2, hálfþurr blanda úr Gewürztraminer, Auxerrois, Pinot Blanc, Pinot Gris og Riesling.

Blómkál

Ristað og pikklað blómkálssalat með piparrót, dilli og tofukremi, crispy kínóa grænertum og beurre blanc froðu, í höndum Andrésar Björgvinssonar, Grænmetiskokks ársins 2025. Með réttinum var parað Birgit Eichinger Grüner Veltliner Ried Hasel 2024 frá Kamptal í Austurríki.
Óáfeng pörun var Copenhagen Sparkling Tea Blå, með jasmín, kamillu og sítrus.

Önd

Andalæra rillettes með steiktum shitake sveppum, grilluðu káli, andaseyði, steiktu foie gras og portvíns kirsuberjageli, í höndum Gabríels Kristins Bjarnasonar, Kokks ársins 2025.
Pörun var Bersano Barbera d’Asti Quatro Sorelle 2024 frá Piemonte á Ítalíu.
Óáfeng pörun var Arensbak Red, byggt á Shu Pu erh tei.

Karfi

Grillaður og gljáður karfi með bláskel espuma, poppuðu hirsi og grilluðum og sýrðum fennel, eldaður af Hafsteini Ólafssyni frá ION Hóteli.
Pörun var Muga Blanco 2024 frá Rioja Alta á Spáni.
Óáfengur valkostur var Copenhagen Sparkling Tea Lysegrøn.

Lamb

Fyllt lambafillet með apríkósum og blóðbergi, jarðskokkum purée, rauðvínssoðinni fíkju, svartrót gratin með parmesan og lambasoðgljáa, í höndum Stefáns Elí Stefánssonar frá KH Veitingum.
Pörun var Dezzani Miliasso Barolo 2020 frá Piemonte á Ítalíu.
Óáfeng pörun var OddBird GSM.

Pre dessert

Mysu rjómaís með kerfil granítu, í umsjón Kokkalandsliðsins, án drykkjarpörunar.
Eftirréttur
Hvítsúkkulaði, skyr og vanillumús með vanilluólífuolíuköku, jarðarberjum, yuzu gelkremi, pikkluðum jarðarberjum og rabarbara var í höndum Axels Þorsteinssonar frá Hygge Kaffi og Bakarí.
Með eftirréttinum var parað Dr. Loosen Riesling Icewine 2019 frá Columbia Valley í Bandaríkjunum.
Óáfengur valkostur var Bottega Zero White frá Veneto á Ítalíu.

Konfekt

Að lokum útbjó Vigdís My Diem Vo Garra konfektmola ársins 2025, sem var konfekt kvöldsins og fullkomnaði heildarupplifun máltíðarinnar með vönduðu handverki og mikilli nákvæmni.
Með konfekti var jafnframt boðið upp á úrval frá Samtökum íslenskra eimingarhúsa, þar á meðal rjómalíkjör, krækiberjalíkjör, rúgviskí, brennivín og gin frá íslenskum eimingarhúsum.

Matseðill hátíðarkvöldverðar Klúbbs Matreiðslumeistara var skýr sýning á styrk, fjölbreytni og metnaði íslenskrar matargerðar. Vín og óáfeng pörun, í höndum Vínþjónasamtaka Íslands, studdi réttina af mikilli nákvæmni og fagmennsku, á meðan þjónusta Barþjónaklúbbs Íslands tryggði að upplifun gesta væri hnökralaus frá upphafi til enda. Heildin undirstrikaði enn á ný þá fagmennsku sem klúbburinn og fagfólk tengt honum standa fyrir.

Hægt er að horfa á myndbönd frá hátíðarkvöldverðinum með því að smella hér.

Myndir: Mummi Lú

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið