Frétt
Helmingur næringar- og heilsufullyrðinga uppfyllti ekki kröfur
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga rannsökuðu næringar- og heilsufullyrðingar á matvörum og fæðubótarefnum frá maí 2016 til febrúar 2017. Niðurstöður eftirlitsverkefnisins sýna að rúmur helmingur fullyrðinga uppfyllti ekki kröfur.
Rannsakaðar voru 40 mismunandi matvörur og fæðubótarefni frá 18 fyrirtækjum, með samtals 66 fullyrðingum. Skoðaðar voru bæði innlendar og innfluttar vörur, almenn matvæli og fæðubótarefni eða sérvörur. Einnig voru skoðaðar auglýsingar í dagblöðum og upplýsingar í netverslunum. Fyrirtækin voru ýmist undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga eða Matvælastofnunar.
Niðurstöður voru þær að af 66 fullyrðingum voru 31 í lagi (47%) en 35 voru ekki í lagi (53%). Fæðubótarefni skáru sig nokkuð úr hvað varðar fjölda af óleyfilegum fullyrðingum. Þar voru 16 af 19 fullyrðingum óleyfilegar eða 84%. Ef teknar eru saman niðurstöður fyrir alla flokka án fæðubótarefna var útkoman sú að af 47 fullyrðingum voru 28 (60%) í lagi en 19 (40%) ekki í lagi.
Matvælastofnun fór í eftirlit hjá þeim framleiðendum matvara með óleyfilegum fullyrðingum sem heyra undir eftirlit stofnunarinnar og gerði kröfu um úrbætur. Vörurnar hafa nú verið endurmerktar. Aðrar vörur sem skoðaðar voru heyrðu undir eftirlit heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og er eftirfylgni í þeim málum í höndum hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlits.
Tekið skal fram að vörur frá tiltölulega fáum fyrirtækjum liggja til grundvallar þessu verkefni. Niðurstaðan gefur því takmarkaða mynd af stöðu mála. Þó er ljóst að matvælaframleiðendur og innflytjendur þurfa að bæta sitt verklag við notkun næringar- og heilsufullyrðinga til að matvörur þeirra uppfylli reglur. Vanmerktar vörur kalla á aukið eftirlit með auknum eftirlitsgjöldum hjá þeim fyrirtækjum sem uppfylla ekki reglur um merkingar matvæla.
Matvælastofnun vekur athygli á leiðbeiningum stofnunarinnar um rétta notkun næringar- og heilsufullyrðinga. Einnig hélt stofnunin námskeið um merkingar matvæla fyrir matvælaframleiðendur í Reykjavík og á Akureyri í mars 2013 og febrúar 2015 þar sem skilyrði fyrir notkun næringar- og heilsufullyrðinga voru rædd. Hægt er að nálgast upptökur af námskeiðunum og glærur á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um fræðslufundi.
Sameiginleg eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga eru unnin í því skyni að samræma matvælaeftirlit á landinu og skoða ákveðna þætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Markmiðið með þessu verkefni var að eftirlitsaðilar öðlist þekkingu og færni við að þekkja og meta fullyrðingar og að samræma aðgerðir sem grípa skal til þegar skilyrði reglugerða um notkun fullyrðinga eru brotin. Markmiðið var einnig að fá vísbendingu um stöðu þessara mála á íslenskum markaði, þ.e. hversu stór hluti næringar- og heilsufullyrðinga uppfyllir skilyrði löggjafar.
Notkun fullyrðingar er algeng í markaðssetningu matvæla. Fullyrðingar geta verið á umbúðum sem hluti af merkingu, en einnig í auglýsingum, á netsíðum og víðar. Næringar- og heilsufullyrðingar eru upplýsingar um að matvæli hafi sérstakt næringarinnihald, t.d. „prótínrík“ vara, eða sérstök áhrif á heilsu. Allar upplýsingar um að matvæli hafi slíka eiginleika teljast vera næringar- eða heilsufullyrðingar, jafnvel þó slíkt sé einungis gefið í skyn.
Um fullyrðingar gilda sérstakar reglur í Evrópu. Þær hafa verið innleiddar hérlendis með reglugerð nr. 406/2010 um næringar- og heilsufullyrðingar. Meginþema reglugerðarinnar er að einungis má nota þær fullyrðingar sem eru á viðeigandi listum yfir leyfilegar fullyrðingar og með þeim skilyrðum sem sett eru fyrir notkun hverrar fullyrðingar, ásamt þeim almennu skilyrðum sem sett eru í reglugerðinni.
Mynd: úr safni
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Keppni3 dagar síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Mijita er fyrsti 100% glútenfríi veitingastaðurinn í Wolt appinu
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Keppni4 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana