Viðtöl, örfréttir & frumraun
Hákon Már býður til veislu í aðdraganda jóla
Hótel Holt opnar dyr sínar aftur fyrir matargesti í aðdraganda jóla þegar einn fremsti matreiðslumaður landsins, Hákon Már Örvarsson, verður með „pop-up“ í eldhúsinu fjórar helgar í röð.
Fyrsta kvöldið verður fimmtudaginn 24. nóvember. Opið er fyrir gesti fimmtudags, föstudags og laugardagskvöld og í hádeginu fimmtudaga og föstudaga fram til 17. desember.
Í boði verður fimm rétta matseðill ásamt vínpörun.
Forréttir:
Steikt fersk hörpuskel í trufflusmjöri, blómkálsmauk og heslihnetur
Bleikjutartar, styrjukavíar, avocado, nordic wasabi, créme fraiche, sítrónukrem, karsi og stökkar brauðkruður
Andalifur „foie gras“ og andalæri confit,-mósaik terrine. Hátíðarkryddað granatepla og roðarunna eplachutney, ristað Brioche brauð
Aðalréttir:
Innbakað dádýrafille Wellington, rauðvínssósa með dökku súkkulaði, kartöflumauk, gljáð rósakál
eða
Ofnsteiktur skötuselur á beini, salvía, kapers,- valhnetu beurre noisette ásamt Nauta osso bucco ravioli í eigin sósu, rótargrænmeti
Eftirréttur:
Riz a´la mande hrísgrjónabúðingur, hvít súkkulaði sabayon, möndlur, mandarínuískrap
Hádegismatseðill
Veljið 2 rétti kr. 6.900
Veljið 3 rétti kr. 8.900
5 rétta kr. 12.900
Kvöldverðarmatseðill
5 rétta kr. 15.900
Vínpörun (bæði hádegi og kvöld)
3 réttir kr. 8.900
5 réttir kr. 12.900
Borðapantanir á dineout.is
Hákon Már: „Það má því segja að ég sé kominn aftur á kunnuglegar slóðir….“
Listasafnið á Hótel Holti skipar stórt hlutverk í veitingahúsasögu Íslands en það opnaði fyrst dyr sínar árið 1965. Um árabil var Holtið miðpunktur veitingahúsamenningarinnar á Íslandi og það viðmið sem allir litu til þegar meta átti gæði matar og þjónustu.
Holtið naut góðs af einstakri umgjörð, hvert rými lítið listasafn, barinn með afslappað andrúmsloft við arineld, koníaksstofan sem minnti á breskan séntilmannaklúbb þar sem hægt var að sökkva sér ofan í mjúka sófa úr dökku leðri og svo auðvitað sjálft Listasafnið eða Gallerý, matsalurinn þar sem margar af flottustu veislum Íslands hafa verið haldnar.
Matargerðin hefur frá upphafi sótt í franska eldhúsið og var klassísk fyrstu árin. Margir af réttunum sem í boði voru nutu það mikilla vinsælda að þeir voru á matseðli áratugum saman eins og graflaxinn með ristuðu brauði og víkingasósu, crepes suzette að ekki sé minnst á Holtsvagninn sem ekið var um salinn en á honum mátti finna m.a. turnbauta með béarnaise og heilsteiktan lambahrygg sem var sneiddur niður, eða „trancheraður“ fyrir framan gesti af þjónum í sal.
Það var svo á áttunda áratug síðustu aldar að Holtið fór að skera sig í auknum mæli frá öðrum veitingahúsum og mynda sér sérstöðu. Matreiðslumenn Holtsins fengu frelsi til að þróa matargerðina frá þeirri íhaldssemi sem hafði verið ríkjandi í matargerð, ekki bara á Íslandi heldur um Evrópu alla. Straumar á borð við nouvelle cuisine, sem þá þóttu mjög framandi, fóru að hafa áhrif inn í eldhúsið á Holtinu og það varð leiðandi í því að þróa og móta veitingahúsamenninguna.
Margir af þekktustu matreiðslumönnum og bestu þjónum landsins fengu „uppeldi“ sitt á Holtinu og áhrifa þess gæta víða enn þann dag í dag. Einn af þeim þekktustu er Hákon Már Örvarsson sem byrjaði í eldhúsinu á Holtinu 1994 eftir að hafa verið nemi á Fiðlaranum á Akureyri. Eftir að hafa starfað í millitíðinni sem aðstoðaryfirkokkur á hinum þekkta veitingastað Leu Linster í Lúxemborg kom hann aftur á Holtið sem aðstoðaryfirkokkur áður en hann varð yfirkokkur á Holtinu 1999-2000.
Í framhaldinu starfaði hann um skeið sem yfirkokkur hjá Leu Linster og Vox.
Hann rak einnig um tíma veitingastaðinn Essensia og hefur séð um matinn í veiðihúsunum í Haffjarðará, Miðfjarðará og Norðurá.
Hákon hefur unnið til margvíslegra verðlauna á ferli sínum, meðal annars hefur hann verið valinn Matreiðslumeistari ársins, unnið brons-verðlaun í Bocuse d’Or keppninni og Norðurlandakeppni.
Hákon segir það vera gaman og spennandi að koma aftur inn í eldhúsið á Holti.
„Ég var fyrst ráðinn hingað inn kvöldið sem ég var að elda fyrir sveinsprófið sem matreiðslumaður. Eldhúsið á Holtinu var þá eitt það besta á landinu og þessi tími hér hafði mjög mótandi áhrif á mig. Það má því segja að ég sé kominn aftur á kunnuglegar slóðir,“
segir Hákon Már.
Það voru þau Þorvaldur Guðmundsson og eiginkona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir sem stofnuðu hótelið en frá árinu 2004 hefur það verið í eigu Geirlaugar dóttur þeirra.
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýr Indverskur veitingastaður opnar í Miðbæ Selfoss
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel11 klukkustundir síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Keppni11 klukkustundir síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Bocuse d´Or4 dagar síðan
Sindri Guðbrandur keppir 27. janúar í Bocuse d´Or
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun12 klukkustundir síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Keppni2 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana