Vertu memm

Greinasafn

Geta fræðingar verið frumkvöðlar?

Birting:

þann

Geta fræðingar verið frumkvöðlar?Titill þessa erindis er geta fræðingar verið frumkvöðlar? Þetta kann að hljóma sem dálítið undarleg spurning. Eru ekki mörg dæmi þess að hámenntað fólk hafi stofnað kraftmikil fyrirtæki, jafnvel búið til heilar atvinnugreinar? Vitaskuld eru þess dæmi. Þau eru meira að segja mörg og sum þeirra íslensk – en – og þar stendur hnífurinn í kúnni – þessir fræðingar eru í fæstum tilfellum viðskiptafræðingar eða hagfræðingar.

Skoðum aðeins íslenskt atvinnulíf og kannski sérstaklega þann hluta þess sem er einna mest í fréttunum, almenningshlutafélög sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands. Nokkur þessara fyrirtækja eru í örum vexti og mörg þeirra hafa verið að brydda upp á nýjungum. Flest þeirra eru a.m.k. þokkalega rekin og sum mjög vel.

Þessum fyrirtækjum er langflestum stýrt af mönnum með viðskiptafræðimenntun, flestir cand.oecon. frá H.Í., nokkrir með aðra viðskiptamenntun, t.d. MBA próf. Út af fyrir sig er ekkert skrýtið að viðskiptafræðingar skuli stjórna fyrirtækjum sem þessum, námið gengur út á að þjálfa fólk til slíkra starfa.

Ég tel litla ástæðu til að gera greinarmun á viðskiptafræðingum og hagfræðingum að þessu leyti þótt auðvitað sé nokkur munur á menntun þeirra. Undir sama hatt má fella ýmsa tækni- og verkfræðimenntaða, t.d. véla- og iðnaðarverkfræðinga, það væri allt eins hægt að kalla þá viðskiptafræðinga sem eru sérhæfðir í rekstri framleiðslufyrirtækja. Þegar ég tala um viðskiptafræðinga hér eftir þá á ég því almennt við fólk með háskólamenntun í viðskiptafræði og skyldum greinum.

Fyrrnefndir stjórnendur þessara almenningshlutafélaga eiga þó fleira en menntun í viðskiptafræðum sameiginlega, nefnilega það að þeir hafa ekki stofnað fyrirtækin sem þeir stjórna, nema kannski með örfáum undantekningum.

Þegar litið er á það hvaða fyrirtæki eru á íslenskum hlutabréfamarkaði kemur dálítið skrýtin heildarmynd í ljós. Mörg fyrirtækjanna eru fyrrverandi ríkis- eða bæjarfyrirtæki eða u.þ.b. fjórðungur. Þarna er líka að finna leifar af samvinnuveldinu. Í hvorugum þeirra hópa eru fyrirtæki sem eiga tilveru sína að þakka frumkvöðlum í einkageira.

Afgangurinn hefur hafið göngu sína fyrir tilstuðlan einkaframtaks – hefðbundinna frumkvöðla – en viðskiptafræðingar hafa ekki heldur spilað þar stórt hlutverk. Útgerðarfyrirtæki eru t.d. áberandi en þau eru oftast að stofni til fjölskyldufyrirtæki sem duglegur skipstjóri, alls ómenntaður í viðskiptafræðum, hefur lagt grunninn að.

Nokkur fyrirtæki hafa verið stofnuð fyrir atbeina útlendinga.

Enn eru nokkur fyrirtæki ótalin, af ýmsum gerðum og með margvíslegan uppruna, þar á meðal stór og áberandi fyrirtæki eins og Eimskip og Flugleiðir, en ekki finnast þar heldur margir ef nokkrir viðskiptafræðingar meðal stofnenda.

Í dag verður Baugur hf. að almenningshlutafélagi og því er kannski vert að velta því sérstaklega fyrir sér hverjir voru frumkvöðlar að stofnun Bónus og Hagkaups. Jóhannes Jónsson í Bónus er menntaður sem iðnaðarmaður og Pálmi Jónsson stofnandi Hagkaup var lögfræðingur. Þar er því loks fundinn fræðingur meðal frumkvöðla – en af rangri tegund!

Það er því leit að fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði sem viðskiptafræðingar hafa stofnað.

Fyrirtækin sem komin eru á hlutabréfamarkað eru reyndar flest nokkuð ráðsett og starfa í vel þekktum atvinnugreinum. Þótt þau bryddi vitaskuld upp á margs konar nýjungum í starfsemi sinni þá er ef til vill áhugaverðara að leita að fræðingum sem frumkvöðlum við rekstur fyrirtækja sem ekki eru enn komin á skipulegan hlutabréfamarkað. Skoðum nokkur íslensk sem hafa verið áberandi:

Atlanta – stofnendur þess fyrirtækis eru flugmaður og flugfreyja.

Flaga – stofnandi þess fyrirtækis er læknir.

Sama má segja um Íslenska erfðagreiningu.

Auglýsingapláss

Læknar eru vitaskuld fræðingar en þeir hafa enga þjálfun í viðskiptafræðum.

Svipað gildir um Marel – það á rætur sínar að rekja til frumkvöðla með þjálfun í raunvísindum og verkfræði.

Össur. Það fyrirtæki er reyndar að verða þrítugt en á engu að síður heima í þessum hópi. Stofnandi þess er stoðtækjafræðingur.

Svo mætti telja fjölmörg hugbúnaðarfyrirtæki sem gustað hefur um að undanförnu. Eitthvað er um að viðskiptafræðingar hafi komið þar að á fyrstu stigum en það er þó nánast undantekning.

Stofna þá viðskiptafræðingar engin fyrirtæki? Jú – þeir gera það og raunar alls konar fyrirtæki en mest áberandi eru fyrirtæki sem selja út þjónustu þeirra, t.d. endurskoðunarskrifstofur, auglýsingastofur, ráðgjafarfyrirtæki og fleiri svipuð. Þau fyrirtæki eru vitaskuld allra góðra gjalda verð en stofnun fleiri slíkra markar engin vatnaskil í atvinnusögu landsins. Það er hins vegar miklu erfiðara að finna dæmi um nýstárlegri fyrirtæki sem viðskiptafræðingar hafa stofnað, fyrirtæki sem rutt hafa nýrri atvinnugrein braut, búið til nýjan geira í atvinnulífinu þar sem fáum ef nokkrum öðrum datt í hug að hægt væri að starfa áður.

Ég nefndi Flögu, Íslenska erfðagreiningu og Marel. Þetta eru allt fyrirtæki sem hafa sprottið upp úr fræðastarfi og nokkur fleiri slík mætti nefna þótt þessi hafi verið einna mest áberandi. Þau hafa verið stofnuð af fræðingum – en ekki viðskiptafræðingum heldur sérfræðingum í þeirri tækni sem fyrirtækin eru byggð á. Út af fyrir sig er það ekkert skrýtið.

Tökum Flögu sem dæmi, fyrirtæki sem sérhæfir sig í að framleiða tækjabúnað til að fylgjast með svefni fólks. Maður, hvort heldur hann er viðskiptafræðingur eða eitthvað annað, sem ekki hefur komið nálægt slíkum rannsóknum hefur sennilega ekki hugmynd um að þær eru stundaðar, veit ekkert um það hvað þarf til rannsóknanna og enn síður hvort markaður er fyrir tæki til að stunda þær.

Læknir sem stundar rannsóknir á þessu sviði sér hins vegar manna best hvar skóinn kneppir, veit hve umfangsmiklar rannsóknir eru stundaðar og jafnvel hverjir stunda þær. Hann þarf ekki að hafa tekið námskeið í markaðsfræði til að geta metið stærð markaðarins, hann kemst að því í starfi sínu.

Össur er annað dæmi, stofnandinn er sérþjálfaður í ákveðnu handverki og sú vinna hans vatt smám saman upp á sig og varð að öflugu og framsæknu iðnfyrirtæki.

Það er því ekkert skrýtið að sérfræðingar á ýmsum sviðum stofni nýstárleg fyrirtæki sem nýta sérþekkingu þeirra. Þótt viðskiptafræðingar hafi þjálfun í því að finna gróðavænleg tækifæri, og sérstaklega að vega þau og meta, reikna út vænta ávöxtun og áhættu, þá er ekki við því að búast að þeir geti grafið í stórum stíl upp tækifæri á mörkuðum sem þeir hafa ekki einu sinni hugmynd um að eru til.

Ef við lítum á hversdaglegri fyrirtæki eins og t.d. veitingahús þá kemur í ljós að stofnendur þeirra eru iðulega kokkar eða þjónar. Dæmigert veitingahús er stofnað af kokki sem starfað hefur á öðru veitingahúsi. Hann leggur allt sitt sparifé undir og jafnvel eignir einhverra ættingja sinna líka. Kokkurinn hefur einhverja tilfinningu fyrir markaðinum og mikinn faglegan áhuga og metnað. Hann hefur líka einhverja tilfinningu fyrir því hvernig kaupin gerast á eyrinni, hver laun starfsmanna í greininni eru og hvað einstök aðföng kosta.

Viðskiptafræðingar geta líka komist að þessum atriðum og þeir geta ráðið kokka í vinnu. Vitaskuld vita þeir af þessum markaði, markaðinum fyrir veitingahús, allir vita af honum. Þegar viðskiptafræðingar hafa skoðað málið eiga þeir að vera mun færari en meðalkokkur í því að reikna út hvort reksturinn borgar sig.

Samt eru það aðilar eins og kokkar eða þjónar sem einkum stofna veitingahús og hjá sumum þeirra gengur reksturinn mjög vel.

En þeir fara líka iðulega á hausinn.

Auglýsingapláss

Þetta með að fara á hausinn er lykilatriði. Hátt hlutfall nýrra fyrirtækja fer á hausinn og stofnendur þeirra tapa stórfé, verða oft sjálfir gjaldþrota. Þetta vita viðskiptafræðingar. Þeir eru sérþjálfaðir í að sjá slíkt fyrir.

Það er þannig oftast rökrétt frá sjónarhóli viðskiptafræðings að setja ekki á stofn eigið fyrirtæki. Kokkur eða þjónn getur tæplega orðið sjálfs síns herra, stjórnað fyrirtæki, nema hann stofni það. Nýútskrifaður viðskiptafræðingur getur í flestum tilfellum gengið að nokkuð góðu starfi vísu, vel launuðu, mikilsmetnu, krefjandi og áhugaverðu. Hann veit líka að duglegir viðskiptafræðingar geta klifrað hratt og jafnvel orðið stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins, án þess að eiga á hættu veruleg persónuleg skakkaföll eins og gjaldþrot. Viðskiptafræðingar þurfa með öðrum orðum ekki að setja fyrirtæki á stofn til að stjórna þeim – þeir hæfustu meðal þeirra verða beðnir um að taka við stjórnartaumunum af fólki sem þegar hefur stofnað fyrirtæki og reynslan hefur sýnt að geta gengið.

Og það gera viðskiptafræðingar vel.

Það er því alls engin ástæða til að gera lítið úr framlagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga í atvinnulífinu. Enda væri það mjög fjarri mér, þótt ekki væri nema vegna þess að ég er bæði viðskiptafræðingur og hagfræðingur og hef atvinnu af því að búa til fleiri slíka.

Ekki er þó alveg laust við að það sé dálítið sérkennilegt að stétt sem er sérþjálfuð í að reka fyrirtæki skuli ekki vera duglegri við að búa þau til. Eiginlega kemur stéttin ekki við sögu fyrr en í öðru bindi af Litlu gulu hænunni. Hænan er búin að ryðja brautina í fyrra bindinu, gera það sem enginn annar hafði frumkvæði að og byrjuð að baka. Í öðru bindi tekur viðskiptafræðingur við bakaríinu og rekur með glæsibrag, stofnar jafnvel keðju bakaría og setur á hlutabréfamarkað.

Lítum aðeins nánar á þetta hlutverk viðskiptafræðinga sem stjórnenda og framlag þeirra til vaxtar efnahagslífsins. Þeir taka fyrirtæki sem aðrir hafa stofnsett og rekið um skeið og reka þau vel, oft jafnvel betur en stofnendurnir.

Einn vaxtarsprotinn í íslensku athafnalífi undanfarin ár hafa verið grámygluleg og stöðnuð fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga sem hafa verið seld, komist í hendur sérþjálfaðra stjórnenda – oftar en ekki viðskiptafræðinga, ef ekki sem framkvæmdastjóra þá sem stjórnarmanna – og flest blómstrað sem aldrei fyrr.

Annar vaxtarsproti eru fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið breytt í almenningshlutafélög. Þau hafa verið misvel rekin áður, sum reyndar afar vel, önnur lakar eins og gengur. Viðskiptafræðingar, oft starfandi sem sérfræðingar hjá fjármálafyrirtækjum, hafa skipulagt breytingu á rekstrarformi, stofnendur eða afkomendur þeirra hafa dregið sig til hliðar og sérmenntaðir stjórnendur tekið við. Stofnandinn er orðinn vellríkur og tekur sér sumarfrí í fyrsta sinn í tuttugu ár. Oft taka sérmenntaðir stjórnendur reyndar við án þess að verulegar breytingar verði á eignarhaldi.

Slík vinna viðskiptafræðinga, taka gömul fyrirtæki, reka þau, byggja við, sameina eða jafnvel sundra, er mjög mikilvægur þáttur í vexti hagkerfisins. Það er bráðnauðsynlegt að fyrirtæki lagi sig að breyttum aðstæðum, bryddi upp á nýjungum og auðvitað að þau séu almennt talað vel rekin.

Slík vinna er þó að litlu leyti frumkvöðulstarf, hún fellur vart undir nýsköpun. Það eru ekki búnar til nýjar tegundir fyrirtækja eða atvinnugreina. Þessi vinna er í raun fólgin í því að taka góða hugmynd sem annar hefur fengið og prófað og vinna vel úr henni. Fyrsti bíllinn varð ekki til við það að einhver ræktaði sífellt hjólbeinóttari hross.

Þegar viðskiptafræðingar vinna sem ráðgjafar birtist sama hugsun. Mér skilst t.d. að ráðgjafar á vegum opinberra eða hálfopinberra sjóða og stofnana sem ætlað er að styðja við nýsköpun ráðleggi skjólstæðingum sínum, fólki sem hyggst stofna ný fyrirtæki, að betrumbæta þekkta hugmynd, breyta litlu í einu, gera aðeins betur en aðrir eða kannski bara það sama og einhver annar hefur gert annars staðar. Þetta er allt gott og blessað – og raunar meira en það – þetta er sennilega skynsamleg stefna í flestum tilfellum, því að róttækar hugmyndir að nýjum fyrirtækjum reynast svo oft ekki ganga upp. Þess vegna eru þeir sem sækja um styrki eða lán til nýsköpunar látnir skrifa nákvæmar viðskiptaáætlanir eftir öllum reglum viðskiptafræðinnar og þær eru svo vegnar og metnar með tólum og tækjum viðskiptafræðinga, tólum og tækjum sem eru mótuð af reynslunni af því hvað hefur gengið hingað til. Þannig eru slæmar hugmyndir vinsaðar út, flestar a.m.k., einstaka slíkar sleppa auðvitað í gegn. Sumar slæmar hugmyndir sleppa grunsamlega oft í gegn og má nefna endalaus loðdýrabú og fiskeldisstöðvar en það er annað mál. Í þessum hreinsunareldi deyja líka flestar róttæku hugmyndirnar – og oftast réttilega.

Gallinn er auðvitað að ef enginn hrindir róttækum hugmyndum í framkvæmd þá komast menn aldrei að því hverjar af þeim eru þær fáu sem eru í raun sniðugar. Með öðrum orðum, viðtekin viðhorf um það hvað gengur og hvað ekki breytast ekki fyrr en einhver sýnir fram á að það sem átti ekki að geta gengið, gengur eða að eitthvað sem engum öðrum hafði einu sinni dottið í hug, gengur.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa haft mest áhrif á bandarískt efnahagslíf síðastliðin aldarfjórðung eða svo heitir Federal Express. Sem kunnugt er sérhæfir það sig í hraðflutningum og var brautryðjandi í þeirri grein, fyrsta fyrirtækið sem þorði að etja kappi við einkaleyfisverndaða póstþjónustu ríkisins vestra. Það er nú stærsta hraðflutningafyrirtæki í heimi og veltir meira en tvöfaldri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Fjöldi annarra sambærilegra fyrirtækja hefur verið stofnaður í kjölfarið, ný atvinnugrein orðið til og þjónustan sem boðið er upp á hefur valdið byltingu í starfsháttum hjá mörgum viðskiptavinanna, meira segja lagt grunninn að starfsemi sumra þeirra.

Stofnandi Federal Express, Frederick W. Smith, er ekki viðskiptafræðingur en hann lauk háskólaprófi frá fínum háskóla og tók nokkur námskeið í greinum sem tengjast viðskiptafræði. Í einu námskeiðanna skrifaði hann ritgerð þar sem hann lýsti grunnhugmyndinni að Federal Express. Prófessorinn var ekki hrifinn, gaf ritgerðinni einkunnina C. Sagði hugmyndina fjarstæðukennda. Prófessorinn var ekki einn á þessari skoðun. Við athugun á hugmyndinni virtist augljóst að hún gæti ekki gengið upp eins og sést best á því að enginn annar en Smith lagði í að stofna slíkt fyrirtæki.

Auglýsingapláss

Smith safnaði samt saman fé, m.a. frá ættingjum og stofnaði fyrirtækið. Rak það með miklum harmkvælum fyrstu árin. Var nærri farinn á hausinn en náði svo flugi og nú er fyrirtækið mjög öflugt og arðbært. Smith hefur gefið ágæta skýringu á því hvers vegna honum tókst það sem aðrir töldu ókleift, raunar fráleitt: „Það skipti miklu máli hve barnalega vitlaus ég var. Ég vissi ekki að þetta væri ómögulegt.“

Hér er kominn einn Akkilesarhæll viðskiptafræðinga, þeir eru ekki barnalega vitlausir, þeir vita hvað er ómögulegt. Þess vegna reyna þeir ekki hið ómögulega. Og því þarf aðra til að komast að því hvenær hið ómögulega er í raun mögulegt.

Einhvers staðar segir að það sé sama hvaðan gott kemur og það má kannski heimfæra það upp á þetta. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að viðskiptafræðingar geri lítið af því að stofna frumleg fyrirtæki ef aðrir verða til þess. Það er samt ástæða til að hugleiða aðeins hvort það sé of lítill hvati til nýsköpunar í atvinnulífinu.

Sumir frumkvöðlar verða forríkir og tilhugsunin um það er auðvitað heljar gulrót. Frederick Smith er moldríkur og stofnendur nokkurra þeirra íslensku fyrirtækja sem ég hef nefnt eru það líka, a.m.k. á íslenskan mælikvarða.

En duglegur frumkvöðull gerir fleiri en sjálfa sig ríka. Kraftmikil fyrirtæki sem hasla sér völl á nýjum markaði skapa auð fyrir marga fleiri, starfsmenn og viðskiptavini, þau greiða háa skatta, önnur fyrirtæki fylgja í kjölfarið og svo mætti lengi telja. Frumkvöðull nýtur bara hluta ábatans af því sem hann skapar ef vel tekst til. Ef illa tekst til situr frumkvöðull hins vegar illilega í súpunni, oft sjálfur gjaldþrota, og orðstírinn í molum.

Þá er sennilega betra að vera kokkur en viðskiptafræðingur. Kokkur sem verður gjaldþrota á rekstri veitingahúss getur verið ágætis kokkur engu að síður. Það segir lítið um faglega hæfni kokks hvort hann getur rekið veitingahús. Viðskiptafræðingur sem verður gjaldþrota eða stýrir fyrirtæki sem gengur illa þarf hins vegar sennilega að sætta sig við að fagleg hæfni hans sé dregin í efa, hvort sem það er með réttu eða röngu.

Með öðrum orðum, það er gott fyrir þjóðfélagið að einhverjir séu reiðubúnir að leggja mikið undir. Ef vel gengur njóta þess margir, ef illa gengur gjalda þess fáir. Frumkvöðlar eru því hálfgert fallbyssufóður í baráttunni fyrir bættum lífskjörum, a.m.k. þeir sem prófa hugmyndirnar sem ekki reynast ganga upp.

Íslandssagan hefur mörg dæmi um illa nýtt tækifæri – skort á frumkvöðlum – en það dæmi sem mestu skiptir er óumdeilanlega það að við skyldum búa öldum saman umkringdir einhverjum gjöfulustu fiskimiðum heims – og gera ekkert í því. Ekki var því að heilsa að Íslendingar vissu ekki af þessum miðum, útlendingar sóttu hingað langan veg til veiða og það fór ekki framhjá Íslendingum. Samt hófu Íslendingar engar fiskveiðar sem um munaði fyrr en á nítjándu öld og raunar ekki af krafti fyrr en undir lok aldarinnar. Sultu í landi, dútluðu kannski aðeins með árabátum og horfðu á útlendinga moka upp fiski við landsteinanna. Á þessu má finna ýmsar skýringar, og raunar hafa bæði sagnfræðingar og hagfræðingar gert það, en upp úr stendur einhvers konar þjóðardoði sem drap niður frumkvæði. Það vantaði litlu gulu hænuna.

Nær okkur í tíma en að öðru leyti furðuhliðstætt dæmi er að finna í áliðnaði. Eins og allir vita hefur verið hér álver í eigu útlendinga í yfir þrjátíu ár og svo sem margt gott um það að segja. Rekstur álvera er ekki í eðli sínu neitt sérstaklega flókið fyrirbrigði og með starfsemi Ísal hefur þekking á honum verið færð inn í landið. Íslendingar hafa sem sé vitað í a.m.k. 30 ár að það væri hægt að reka álver á Íslandi og haft alla þekkingu til þess. Samt hefur ekki hvarflað að neinum í íslenska einkageiranum að reisa annað slíkt. Það heyrðust að vísu raddir sem vildu fleiri álver en sá söngur hljómaði yfirleitt eitthvað á þessa leið: „Mikið væri nú gott ef stjórnmálamennirnir gætu fengið einhverja útlendinga til að byggja fleiri svona.“ Það tókst líka á endanum.

Er eitthvað til ráða? Þarf eitthvað að gera? Er skortur á frumkvöðlum? Ég skal fyrstur manna viðurkenna að ég veit það ekki enda var ekki ætlunin með þessum fyrirlestri að svara þeim spurningum. Það væri kannski nær að kalla fyrirlesturinn hugvekju.

Það er þó alla vega ljóst að það eru margir vaxtarsprotar í íslensku athafnalífi og sumir bara ansi sprækir. Það er full ástæða til að hlúa að þeim. Sérstaklega fyrir viðskiptafræðinga því að þeir eiga sennilega eftir að stjórna flestum sprotanna sem best standa sig. Það er líka full ástæða til að leyfa nýjum sprotum sem ekkert verður úr að deyja án þess að álasa þeim sem gróðursettu þá.

eftir Gylfa Magnússon, dósent, viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands

Erindi flutt á aðalfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga 28. apríl 1999.

Auglýsingapláss

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið