Frétt
Fyrirtæki verðlaunuð á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram nú í vikunni í Húnaþingi vestra. Húnvetningar tóku vel á móti kollegum sínum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir til ýmissa fyrirtækja á svæðinu og nýr útsýnispallur við Kolugljúfur var sömuleiðis skoðaður.
Um kvöldið var svo haldin vegleg veisla í veislusalnum á Hótel Laugarbakka, þar sem dansinn dunaði fram eftir nóttu.
Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar.
Fyrirtæki ársins
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.
Það fyrirtæki sem fær viðurkenninguna í ár er Hotel Natur.
Í kringum árið 2004 fóru þau Stefán Tryggvason og Inga Margrét Árnadóttir að hugsa um að hætta að vera kúabændur og vildu snúa sér að ferðamennsku. Árið 2005 höfðu þau gert breytingar á fjósinu og hlöðu, og opnuðu þar 10 herbergja hótel. Árin á eftir fylgdu fleiri breytingar og herbergin eru nú 36 talsins.
Hotel Natur er sannkallað fjölskyldufyrirtæki, þar sem foreldrarnir hafa séð um að stýra skútunni en börnin koma að daglegum rekstri og þá sérstaklega yfir sumartímann.
Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál og endurnýtingu. Engar nýjar byggingar hafa verið byggðar heldur þeim gömlu breytt og nýjasta dæmið um það er útsýnispallurinn í súrheysturninum. Sumir myndu reyndar segja að Stefán hefði ákveðið blæti fyrir turnum, enda var hann ekki lengi að tryggja sér glerturnana sem áður hýstu keiluhöllina á Akureyri þegar hún var rifin niður. Fyrirtækið er til fyrirmyndar á mörgum sviðum og við hin getum svo sannarlegt lært mikið af fjölskyldunni á Þórisstöðum.
Sproti ársins
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær verðlaunin í ár er Hótel Laugarbakki.
Það er ekkert lítið verkefni sem þau Hildur Ýr og Örn réðust í þegar þau ákváðu að breyta þessum gamla héraðsskóla hér í heilsárs hótel. Eins og þið hafið nú þegar séð hefur þeim tekist vel upp og herbergin hér eru stórglæsileg.
Hótelið er það stærsta á Norðurlandi vestra og með opnun þess opnuðust nýir möguleikar bæði fyrir ferðafólk og þá sem starfa í ferðaþjónustu hér í nágrenninu. Mjög mikilvægt er að hafa svona valmöguleika í gistingu hér á þessu svæði og ekki skemmir fyrir hve auðvelt er að halda hér alls kyns viðburði, ráðstefnur og fleira. Veitingastaðurinn Bakki setur svo punktinn yfir I-ið.
Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi
Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í er það Skagfirðingurinn Svanhildur Pálsdóttir sem hlýtur þessa viðurkenningu.
Svanhildur hefur starfað í ferðaþjónustu í meira en áratug, en hún ásamt öðrum keypti Hótel Varmahlíð árið 2006 og gerðist hótelstjóri eftir að hafa starfað áður sem kennari. Í viðtali við Morgunblaðið sagðist hún stefna ótrauð að því að hafa hótelið áfram opið yfir vetrartímann eins og áður hafði verið gert og taldi að Varmahlíð og Skagafjörður ætti mikið inni í ferðaþjónustu. Þar myndi það skipta sköpum að fyrirtæki á svæðinu myndu vinna saman að því fá ferðamenn til að stoppa á svæðinu. Það voru orð að sönnu þá og þau eiga sannarlega við enn í dag, ekki bara á þessu svæði heldur alls staðar.
Í gegnum árin hefur Svanhildur sinnt þessu samstarfi vel og var lengi í stjórn Markaðsstofu Norðurlands og þar af formaður í nokkur ár. Auk þess var hún ein af stofnendum Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði og gegndi einnig formennsku þar til langs tíma. Auk þess hefur hún setið í stjórnum Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra.
Hótel Varmahlíð var selt til nýrra eigenda í fyrra og nú er veruleiki Svanhildar ekki bundinn við raunheima, því hún hóf nýlega störf hjá 1238 Battle of Iceland á Sauðárkróki.
Sýndarveruleiki er þar nýttur til þess að leyfa gestum að upplifa Örlygsstaðabardaga og það er því ljóst að ferðaþjónusta í Skagafirði og á Norðurlandi öllu mun áfram njóta góðs af reynslu og kröftum Svanhildar.
Myndir: northiceland.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir4 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt3 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Markaðurinn3 klukkustundir síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla