Viðtöl, örfréttir & frumraun
Frændurnir á Torginu eru komnir í jólastuð – Bjóða upp á jólahlaðborð í fyrsta sinn
Veitingastaðurinn Torgið á Siglufirði er vinsæll meðal bæjarbúa og erlendra gesta. Staðurinn er staðsettur í miðbænum við ráðhústorg Siglufjarðar. Eigendur Torgsins eru frændurnir Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Daníel Pétur Daníelsson en þeir hafa rekið staðinn síðan 18. mars í fyrra.
Í ár munu frændurnir bjóða upp á glæsilegt jólahlaðborð í fyrsta sinn:
„Við fundum fyrir því í fyrra að það var mikil eftirspurn hjá vinnuhópum og vinahópum að komast í jólahlaðborð hjá okkur,“
sagði Daníel Pétur Baldursson í samtali við veitingageirinn.is, aðspurður um tilurð jólahlaðborðsins í ár.
Jólahlaðborðið hefst núna um helgina og verður svo næstu þrjár helgar á föstudögum og laugardögum. Það verður að segjast eins og er að verðið á jólahlaðborðinu er með því ódýrasta á landinu, aðeins 5.900 krónur.
Það er nánast fullbókað í jólahlaðborðið og því ekki þörf á að hafa annan matseðil í gangi.
„Já þetta hefur farið fram úr björtustu vonum og erum við ákaflega ánægðir með viðtökurnar. Hámarksfjöldi á kvöldi er 45 manns og lágmark 20 manns.
Við erum að vinna þetta svolítið eftir okkar leiðum og bjóðum t.d. upp á jólapizzu og jólahamborgara á hlaðborðum, sem sló rækilega í gegn sem stakir réttir í fyrra. Við erum svo með okkar eigið rauðkál, erum að sjóða jólagraut, grafa kjöt og fisk og útbúa flottar sósur. Við bjóðum einnig upp á hægeldaða sojagljáða nautatungu og síldin sem við bjóðum upp á er verkuð og marineruð hjá Hákoni vini okkar í fiskbúð fjallabyggðar. Í aðalrétt er purusteikin sívinsæla og kalkúnabringa með sætkartöflufyllingu, að hætti konu minnar Auðar Aspar Magnúsdóttur,“
sagði Daníel Pétur Baldursson hress og bætti við:
„Jólasegullinn frá Matta vini mínum í Segli 67 hér á Siglufirði verður allsráðandi yfir hátíðarnar, en einnig tökum við inn sér vín fyrir jólahlaðborðin.“
Boðið er upp á lifandi tónlist öll kvöldin, en það er Björn rafvirki sem mætir með píanóið og spilar falleg jólalög.
![](https://veitingageirinn.is/wp-content/uploads/2018/02/veitingageirinn.png)
-
Frétt5 dagar síðan
Veisluþjónusta án starfsleyfis: Matarsýkingar rekjanlegar til rangrar meðhöndlunar hjá veisluþjónustu
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Pílumeistarinn 2025 krýndur á stórskemmtilegu móti veitingafólks – Myndaveisla
-
Keppni3 dagar síðan
Munið skilafrestinn 14. febrúar – Graham’s Blend Series Kokteil keppni 2025
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Eldhús framtíðarinnar: Snjallbúnaður sem sparar tíma, vinnu og orku – Myndbönd
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Frönsk matargerð í hávegum höfð: Michelin-meistari færir Midland Grand Dining Room á næsta stig
-
Keppni1 dagur síðan
Global Chefs Challenge fer fram á Ítalíu
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
Nýjustu Michelin-stjörnurnar í Bretlandi og Írlandi – Roux-fjölskyldan fagnar stórsigri
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Vatnsdeigsbolla með Nutella-kremi og kransabita