Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Einvalalið fagfólks á nýjum veitingastað á Hótel Borg
Næstkomandi helgi verður opnaður glæsilegur veitingastaður á Hótel Borg. Einvalalið fagfólks stendur að breytingunum og má þar til dæmis nefna Hákon Örvarsson matreiðslumann, sem hefur lagt eldhúsinu til krafta sína. Hákon vann til bronsverðlauna í sterkustu einstaklingsmatreiðslukeppni heims, Bocuse d’Or, í Frakklandi árið 2001.
Til að tryggja gestum góða upplifun hafa hjónin Jóhann Gunnar Arnarsson og Kristín Ólafsdóttir komið að breytingunum.
Hótel Borg hefur ávallt haft yfir sér ákveðinn glæsileika og þar hafa mörg fyrirmennin gist í gegnum árin. Eftir nokkur döpur ár í sögu hússins hefur nú verið tekið til hendinni og húsið aftur orðið að þeim sjarmastað sem áður þekktist. Jóhann segir að þau hjónin beri mikla virðingu fyrir veitingasögu hússins og vilja endurspegla hana í nýja veitingasalnum.
Jóhann, sem er fyrsti faglærði butler á Íslandi, starfaði ásamt konu sinni lengi fyrir forsetaembættið á Bessastöðum. Kristín er menntaður framreiðslumeistari en hún hóf einmitt nám sitt á Borginni. Undanfarin fimm ár hafa þau rekið veiðihúsin við Selá og Hofsá.
Þá er Katrín Ósk, dóttir þeirra, rekstrarstjóri veitingastaðarins, en hún er lærður framreiðslumeistari með margra ára reynslu í faginu, fyrir utan það að hafa lært öll trix foreldra sinna.
„Við ætlum að bera fram ljúffenga, fallega og bragðgóða rétti með hugsjón okkar að leiðarljósi, ávallt í anda klassískrar matargerðarlistar. Við berum mikla virðingu fyrir veitingasögu hússins, sem er gríðarlega mikil, og ætlum að reyna að endurspegla hana í daglegum störfum okkar við matreiðslu og þjónustu,“
segir Jóhann og bætir við:
„Aðalmarkmiðið verður þó alltaf fyrst og fremst að halda áfram að búa til nýjar og góðar minningar fyrir gestina okkar og starfsfólkið. Gestir geta fengið sér rétti eins og Tournedo Rossini, graflax, skelfisk í smjördeigskænu (Vol-au-vent) og margt fleira klassískt og gott,“
segir hann.
Unnið hefur verið að endurnýjun og uppfærslu salanna, með það að leiðarljósi að gæta heildarmyndar hússins og gera salina að aðaldjásnum hússins. Þannig er verið að mæta væntingum gestanna, sem hæfir þessu sögufræga húsi.
„Art Deco“-stíllinn svífur yfir vötnum og Pálmasalurinn með sínum tignarlegu gluggum út að Austurvelli og Gyllti salurinn aftur orðnir eins og þeir voru á gullaldarárum sínum,“
segir Jóhann.
Þrátt fyrir að veitingastaðurinn á Hótel Borg verði færður aftur á þann stall sem honum ber í þessum glæsilegu, klassísku en samt sem áður tímalausu húsakynnum, ætla Jóhann og samstarfsfólk að stilla verði þannig að hægt sé að gera hann að samastað fyrir sem flesta, ekki eingöngu þá efnameiri.
„Við verðum klassískt veitingahús en um leið tímalaust og getum boðið verð sem hentar öllum. Staðurinn verður fyrir alla sem vilja góðan, klassískan og heiðarlegan mat. Matur í þessum anda hentar fyrir alla aldurshópa og alltaf verður notað fyrsta flokks íslenskt hráefni eftir því sem við á,“
segir hann.
Saga Hótel Borgar var lengst af samofin mikilli tónlist og margir af frægustu tónlistarmönnum Íslandssögunnar spiluðu þar.
„Það er okkur ljúft og skylt að halda áfram þeirri sögu, þannig að tónlist og dans verður enn á ný og áfram hluti af veitingastaðnum á Hótel Borg. Björgvin Sigvaldason fer fyrir þeirri vinnu en hann er með reyndari hljóðmönnum landsins.
Vinna er í gangi að tengja tónlistarflutning sögu hússins frá tíma sveiflunnar. Tónlist Ragnars Bjarnarsonar, Ellýjar og hljómsveitar Svavars Gests verða þar rauður þráður ásamt öðrum nöfnum frá svipuðum tíma,“
segir Jóhann stoltur með þær breytingar sem gerðar hafa verið á Borginni.
Myndir: Sigurjón Ragnar
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Nýr samningur markar tímamót hjá Matvís – Samningur undirritaður við Reykjavíkurborg
-
Uppskriftir1 dagur síðan
Ekta franskar jólakræsingar hjá Sweet Aurora í Reykjavík – Einstakt Aðventudagatal
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Heimalagaður hátíðarís með hvítu súkkulaði og piparkökum
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Jólamarkaður í Hafnarhúsinu í dag
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Síldarveisla á Siglufirði
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Mánaðartilboð og jólalisti á dúndur afslætti
-
Nýtt á matseðli2 dagar síðan
Grillaður lax að hætti Sumac
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Lambakjötsúpa – yljar á köldu vetrarkvöldi