Viðtöl, örfréttir & frumraun
Beint frá býli dagurinn heppnaðist frábærlega – Myndir frá hátíðinni
Beint frá býli dagurinn var haldinn í ár í þriðja sinn sunnudaginn 24. ágúst síðastliðinn og hefur á örfáum árum fest sig í sessi sem fjölskylduvænn hátíðisdagur í íslenskri sveit.
Þökk sé gestgjöfunum sjö og félagsmönnum sem tóku þátt á matarmörkuðunum varð dagurinn enn einu sinni afskaplega vel heppnaður. Sem fyrr lögðu gestgjafarnir sig alla fram við að gera daginn sem ánægjulegastan fyrir gesti og eiga þeir mikið hrós skilið.
Gestgjafar í ár voru:
Vesturland: Rjómabúið Erpsstaðir í Dölum
Vestfirðir: Hvanmsbúið á Barðaströnd
Norðurland vestra: Gróðurhúsið Starrastaðir í Skagafirði
Norðurland eystra: Vellir í Svarfaðardal, Dalvíkurbyggð
Austurland: Félagsbúið Lindarbrekka í Berufirði
Hornafjörður: Miðskersbúið í Nesjum, Hornafirði
Suðurland: Korngrís frá Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi
„Samkvæmt lauslegri samantekt var samanlagður fjöldi gesta sem lagði leið sína á býlin í kringum fjögur þúsund, sem er svipað og í fyrra. Veðrið á landinu var að jafnaði milt og gott, þó rigndi eitthvað á nokkrum stöðum,“
sagði Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna í samtali við Veitingageirinn.is.
Markmiðið með deginum er að vekja athygli á hugmyndafræði Beint frá býli og hinni fjölbreyttu smáframleiðslu matvæla sem er stunduð víðsvegar um landið. Þá er lögð áhersla á að kynna íbúum starfsemi heimavinnsluaðila á lögbýlum, efla tengsl milli framleiðenda og neytenda og hvetja fleiri til að hasla sér völl á sviði smáframleiðslu.
Jafnframt fá íbúar landshlutanna tækifæri til að njóta samveru í sveitinni, kynnast staðnum sem maturinn kemur frá og fólkinu sem stendur á bak við framleiðsluna. Ekki síst er dagurinn vettvangur fyrir félagsmenn hvers svæðis til að hittast, mynda tengsl og jafnvel samstarf.
Þáttastjórnendur Morgunvaktarinnar á RÚV fjölluðu um Beint frá býli og smáframleiðendur í samtali við Oddnýju Önnu Björnsdóttur framkvæmdastjóra samtakanna. Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér, sem hefst á mínútu 28:20.
Myndir sem fylgja fréttinni eru frá Oddnýju Önnu Björnsdóttur framkvæmdastjóra samtakanna og af Facebook-síðu Vellir í Svarfaðardal.
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel6 dagar síðanAlfreð, fyrrverandi landsliðskokkur, tekur við veitingarekstri á Urriðavelli
-
Markaðurinn2 dagar síðanÓJ&K–ÍSAM og Sjöstrand hefja öflugt samstarf
-
Keppni2 dagar síðanOpið fyrir innsendingar í ítalskri kokteilkeppni Tipsý
-
Markaðurinn7 dagar síðanLe Tribute – Hágæða drykkjarvörur koma á íslenskan markað
-
Markaðurinn6 dagar síðanKlassískar kjúklingabringur í rjómasósu sem slá í gegn
-
Markaðurinn2 dagar síðanFLOTIÐ snýr aftur á Múlaberg, þjónar og kokkar skipta um hlutverk
-
Starfsmannavelta4 dagar síðanÓvænt brottför á Michelin staðnum Auro, Pico’s BBQ lokar og Lulu einfaldar reksturinn
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan„Ég hélt fyrst að þetta væri svindl“ segir Róbert um fyrstu samskipti við Teya


















