Vertu memm

Keppni

Ásbjörn í 4. sæti á alþjóðlegri kjötiðnarkeppni í Sviss – Myndir

Birting:

þann

Ásbjörn Geirsson í 4. sæti á alþjóðlegri kjötiðnarkeppni í Sviss

Ásbjörn Geirsson við verðlaunaafhendinguna í Chur í Sviss.

Nú á dögunum fór fram alþjóðleg keppni í kjötiðn í borginni Chur í Sviss. Ísland átti þar sinn fulltrúa, Ásbjörn Geirsson, sem keppti undir leiðsögn þjálfara síns, Stefáns Einars Jónssonar kjötiðnaðarmeistara. Stefán hefur unnið náið með Ásbirni í undirbúningi og stutt hann í gegnum allt ferlið, bæði fyrir og á meðan á keppni stóð.

Alls tóku fjórir keppendur þátt að þessu sinni og hafnaði Ásbjörn í fjórða sæti. Hann stóð sig afar vel og fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína.

Keppnin í Chur samanstendur af fjölbreyttum og krefjandi verkefnum sem reyna á nákvæmni, handverk og fagmennsku á hæsta stigi. Fyrsta verkefnið fólst í kjötskurði þar sem keppendur úrbeinuðu nautalæri, grísalæri og lambaskrokk eftir ströngum stöðlum. Áhersla var lögð á rétt vinnulag, nákvæma bindingu og snyrtilega framsetningu með skýra flokkun einstakra vöðva.

Í öðru verkefninu, sem bar heitið BBQ grill, útbjuggu keppendur átta ólíkar vörur úr mismunandi kjötskömmtum. Þar var meðal annars unnið með lamb, naut, svín og kalkún og ein vara þurfti að vera pylsa. Dómarar dæmdu hvernig keppendur nýttu hráefnið og sköpuðu fjölbreyttar og aðlaðandi vörur.

Þriðja verkefnið, sem kallað var tilbúið fyrir eldhús, krafðist mikillar sköpunargleði. Þar þurftu keppendur að útbúa sex tegundir af fylltum kjötvörum með munstri innan í vörunni. Þeir þurftu jafnframt að geta útskýrt innihald, ofnæmisvalda og eldunartíma fyrir dómurum.

Í fjórða verkefninu, sem sneri að tilbúnum réttum og snittum, útbjuggu þátttakendur fimm mismunandi snittur og fimm stykki af hverri tegund. Þar var unnið með margvíslegt hráefni, meðal annars naut, svín, kalkún og einn vegan rétt sem auk þessa þurfti að standast strangar kröfur um fagurfræði og jafnvægi í bragði.

Að lokum þurftu keppendur að ljúka öllum verkefnum innan tiltekins tíma og skila vinnusvæðinu hreinu og vel skipulögðu. Nákvæm flokkun á hráefni, grænmeti, kjöti, afskurði, beinum og rusli skipti miklu máli og gat rangt verklag haft í för með sér töluverða stigalækkun.

Ásbjörn Geirsson í 4. sæti á alþjóðlegri kjötiðnarkeppni í Sviss

Keppnin í Chur er mikilvægur vettvangur fyrir fagmenn í kjötiðn til að sýna kunnáttu sína, skapandi hugsun og faglegt handverk á alþjóðavettvangi.

Myndir: Stefán Einar Jónsson

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið