Frétt
Mikill áhugi hjá innflytjendum að koma sér upp matarvagni og bjóða upp á framandi götubita
Gerðuberg var bókstaflega fullt út úr dyrum af ótrúlega fjölbreyttum hópi nýrra Íslendinga að kvöldi miðvikudags s.l. þegar þangað mættu um 150 manns frá öllum heimshornum. Þar var haldinn kynningarfundur um möguleika nýrra Íslendinga á að koma sér upp matarvagni og bjóða upp á framandi götubita á torgum borgarinnnar.
Fundurinn var haldinn í samstarfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Reykjavík Street Food. Markmið fundarins var að kynna þá hugmynd að efna til einskonar viðskiptastuðnings eða námskeiðs sem mundi styðja við nýja Íslendinga sem eiga sér þann draum að standa á eigin fótum og stofna til reksturs sem byggir á þeirra eigin matarhefð og þykir jafnvel framandi hérlendis.
Til fundarins komu innflytjendur úr öllum heimsálfum, einstaklingar, hjón og heilu fjölskyldurnar. Fimm manna fjölskylda frá Afganistan, ekkja með fimm börn á unglingsaldri, lét sig ekki muna um að mæta með fulla potta og heitar pönnur og sýndi fram á það í verki að framandi matarhefð fellur vel í kramið hjá Íslendingum. Miklar og skemmtilegar umræður spunnust á fundinum og rigndi bæði spurningum og ábendingum yfir skipuleggjendur.
Í viðtölum félagsráðgjafa við flóttafólk og innflytjendur hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafa ítrekað komið fram óskir um að opna veitingastað eða að koma sér upp matarvagni. Því var ákveðið að hafa samband við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um möguleika á námskeiðum fyir þennan hóp um að stofna og reka fyrirtæki. Vel var tekið í hugmyndina og einnig kom Reykjavík Street Food inn í samstarfið.
Global Street Food á Íslandi
Reykjavíkurborg, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Reykjavik Street Food leita því nú að innflyjendum og flóttafólki, hvaðanæva að úr heiminum, sem luma á frábærum uppskriftum og gómsætum mat sem þau vilja þróa sem götubita. Leitað er að konum og körlum, fjölskyldum eða vinahópum sem hafa kraftinn og getuna til að þróa spennandi uppskrift og gera hana að ómótstæðilegum götubita. Stefnt er að því að aðstoða þátttakendur við öflun á hráefni, undirbúning fyrir matseld, útfærslu á réttunum, val á umbúðum, hönnun og markaðsmál. Markmiðið er að þáttakendur séu í aðstöðu til að opna matarvagn eða bjóða staka í matarvagni næsta sumar í borginni.
Spennandi verkefni framundan – byrjunin lofar góðu
Á vefslóðinni www.nmi.is/streetfood stendur nú yfir skráning á áhugasömum og í framhaldi verður haft samband við alla þátttakendur um leið og næstu skref eru ljós. Mikið verk er framundan að skipuleggja þetta verkefni sem mun fara að mestu fram á vormánuðum næsta árs. Ljóst er að leita þarf stuðnings fjölmargra aðila varðandi aðstöðu, þekkingu og reynslu til þess að þetta megi verða að veruleika.
Umsjón með fundinum höfðu Edda Ólafsdóttir og Hildur Aðalsteinsdóttir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Fjalar Sigurðarson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Róbert Magnússon frá Reykjavík Street Food. Þau voru sammála um það að fundurinn hefði farið fram úr björtustu vonum varðandi fjölda áhugasamra, fjölbreytni og almennar, jákvæðar undirtektir.
Mynd: Nýsköpunarmiðstöð Íslands
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Veitingastaðurinn MAR opnar á Frakkastíg
-
Frétt3 dagar síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Fljótlegur hátíðareftirréttur – Einfaldasta skyrkaka í heimi
-
Keppni4 dagar síðan
Skráning hafin á Íslandsmót nema og ungsveina í matvæla -og veitingagreinum
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Opnunartími Innnes um jólahátíðina 2024
-
Frétt4 klukkustundir síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Veitingageirinn í jólaskapi