Pistlar
Fyrsta Landslið Klúbbs Matreiðslumeistara
Til gamans þá langar mig að minnast á hvað mikil breyting hefur orðið á þessum árum hjá Kokkalandsliðinu.
Þegar Klúbbur Matreiðslumeistara (KM) gekk í Norrænu samtökin, ef ég man rétt árið 1974 eða 5, var okkur boðið að taka þátt í nokkurra þjóða keppni í Bella Center í Kaupmannahöfn. Þetta var rætt á nokkrum klúbbfundum og ákveðið að þiggja boðið.
Birgir Pálsson og Stefán Hjaltested höfðu tekið þátt í landskeppni í Noregi og fengið verðlaun. Ísland hafði aldrei tekið þátt í alþjóða keppni áður en við höfðum farið nokkrir á Ólympíuleika matreiðslumanna í Frankfurt.
Til að stofna liðið þurftu menn að bjóða sig fram. Sigurvin, Gísli og ég buðum okkur fram. Á þessum árum átti klúbburinn enga peninga, enda sennilega bar 10-12 meðlimi í honum og félagsgjöldin eina innkoman.
Þá mér vitanlega ekki búið að finna upp orðið “Styrktaraðili”. Við sömdum við vinnustaðina okkar um að fá að taka hráefni fyrir æfingarnar, okkur að kostnaðarlausu. Við fengum að nota eldhúsið í Hótel og Veitingaskólanum, sem þá var í Sjómannaskólanum. Ekki man ég hversu margar helgar við æfðum, en þær urðu æði margar. Við höfðum fengið keppnisreglurnar sendar og bókstaflega lærðum þær utanað.
Við æfðum og æfðum og þegar fór að nálgast keppnina fóru nokkrir meðlimir að koma í lok dags og dæma vinnuna okkar. Við gátum betlað lambið hjá Sambandinu, man ekki hjá hverjum við fengum fiskinn fyrir heita matinn. Eins og áður sagði, þá átti klúbburinn engan sjóð svo við urðum að borga flugfar og hótel úr eigin vasa. Við fengum lánuð silfurföt og létum smíða spegla föt undir kalda matinn.
Svo kom dagurinn og við flugum til Kaupmannahafnar og tókum allir konurnar með. Ég var að vísu með frímiða fyrir mig og konuna svo við skiptum kostnaðinum jafnt á milli okkar. Allt kjöt og fisk tókum við með okkur. Þegar til Kaupmannahafnar kom þurftum við að fara í búð og kaupa allt sem við þurftum af öðru hráefni. Morguninn eftir mættum við í eldhúsið sem okkur hafði verið skaffað en það var í mötuneytis eldhúsi í skóla.
Það háði okkur smávegis að allir pottar og pönnur voru fyrir stóreldhús, stórt og klunnalegt. Við vorum í eldhúsi með fjórum öðrum þjóðum. Nú við byrjuðum á að taka allt upp úr kössunum og fórum að laga köldu réttina. Þegar nokkrir klukkutímar voru liðnir og við á fullu við að laga allskonar Paté og galantine gengu tveir kokkar úr þýska liðinu yfir til okkar og horfðu á.
Þá datt uppúr öðrum þeirra File Arbeite, sem þýðist: svaka vinna. Nokkru seinna kom kokkur hjá þeim, með kælitösku, tók fjögur tilbúin Paté uppúr. Hann skar þau öll í sundur í miðju, skoðaði sárið og henti þremur í ruslafötuna. Þarna vorum við að laga okkar Paté frá grunni. Smá seinna tók annar, nokkur pappaspjöld uppúr kælitösku og á þeim voru skreytingar full gerðar í hlaupi. Það þurfti bara að taka þær af spjaldinu með heitum spaða og setja á matinn. Þetta stuðaði okkur svakalega að horfa upp á svona gróft svindl og við töluðum um í alvöru, að mótmæla, með því að labba út. Sem betur fer gerðum við það ekki, eftir allan þann kostnað og fyrirhöfn sem við höfðum lagt í málið.
Við fluttum síðan matinn í sendiferðabíl í Bella Center. Þar stilltum við upp okkar mat á glæsilegt sýningarborð með hvít blómguðu tré í miðju borði. Mér var sagt af dönskum kokki seinna um daginn, að þegar við vorum búnir að stilla upp hafi ákveðin kokkur í stjórn danska klúbbsins, komið inn á skrifstofu sem þeir voru með á staðnum með klósettrúllu, skellt á borðið og sagt: Nú getið þið skeint ykkur. Íslendingarnir eru búnir að stilla upp. Okkar borð var að nokkru leiti óvenjulegt því það hafði Lunda og Hangikjöt sem örugglega hafði aldrei sést áður á svona keppnum.
Maður sá nokkuð oft menn draga aðra að þessum fötum til að sýna sérstaklega. Persónulega verð ég að segja að ég var svo úrvinda af þreytu þennan dag að hann er hálf óskýr í huganum enda höfðum við unnið stanslaust í 24 tíma og farið svo beint á sýninguna. Næsta dag vorum við svo með heita matinn, þar sem við þurftum að elda kjötrétt, fiskrétt og eftirrétt. Það var auðveldur dagur. Daginn eftir var svo verðlaunaafhending við hátíðlega athöfn í sal sem var svipaður og bíósalur.
Í athöfninni var spurt hver í hópnum hefði lagað Lundann og Hangikjötið og voru veitt sérstök verðlaun fyrir það. Einnig veitti nokkurskonar Öldungadeild Dananna okkur sérstök verðlaun fyrir það sama. Okkur fannst það frekar óviðeigandi þar sem við vorum landslið en þetta var gert líka við sum önnur lönd. Það voru hrikalega þreyttir en ánægðir landsliðsmenn sem flugu heim daginn eftir.
Það er engin smá breyting sem hefur orðið á landsliðsmálum frá því við félagarnir fórum í þetta ævintýri, frá því að vera þrír og þurfa að greiða svo til allt úr eigin vasa í að vera 16 manns og kostnaðurinn margar miljónir.
Það eina sem hefur ekki breyst er hversu óendalega mikið menn leggja á sig til að halda upp hróðri og fána Íslands.
Með kærri kokkakveðju
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Food & fun5 dagar síðan
Tveir íslenskir gestakokkar verða á Food and Fun hátíðinni í Stavanger
-
Uppskriftir2 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel6 dagar síðan
Árið 2024 var stórt ár fyrir matgæðinga á KEF
-
Frétt1 dagur síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun11 klukkustundir síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða