Vertu memm

Frétt

Fyrsta drónasendingarkerfi í þéttbýli tekið í notkun af Aha

Birting:

þann

Helgi Már Þórðarsson og Maron Kristófersson, stofnendur og eigendur AHA

Helgi Már Þórðarsson og Maron Kristófersson, stofnendur og eigendur AHA

Veitingar og vörur fljúga yfir höfuðborginni er AHA, í samstarfi við drónatæknifyrirtækið Flytrex, setur heimsins fyrsta sjálfstýrða sendingadrónakerfið í loftið.

AHA og drónatæknifyrirtækið Flytrex tilkynntu í dag formlega opnun á sendingaþjónustu með drónum á höfuðborgarsvæðinu, en þjónustan er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Með kerfinu er ætlunin að auka skilvirkni í heimsendingaþjónustu, stytta sendingartímann og draga úr orkunotkun.

Maron Kristófersson, annar stofnandi og eigandi AHA, segir gríðarlega aukningu hafa orðið á heimsendingapöntunum í gegnum netið undanfarna mánuði og býst hann við áframhaldandi vexti á komandi mánuðum þar sem neytendur munu m.a. geta notið þess stutta sendingartíma sem AHA getur nú boðið upp á með drónum. Í tilkynningu segir Maron;

„Við erum lengi búin að fylgjast vel með tækni fyrir sendingar og skoða nýjungar um allan heim. Þessi lausn hefur forskot á sínu sviði með skjótri, afkastamikilli og viðskiptalega raunhæfri lausn. Við vonumst til að samstarf okkar við Flytrex nái ekki bara yfir Ísland heldur einnig yfir lausnir okkar fyrir verslunarmiðstöðvar erlendis“.

Eftir ítarlegt umsóknarferli hjá Samgöngustofu fékk AHA leyfi til að hefja flug og bjóða neytendum upp á að fá veitingar og vörur frá verslunum og veitingastöðum eftir einni flugleið í höfuðborginni. Kerfið stýrir flugi drónans á milli þessara tveggja svæða sem skilin eru að af Elliðaárvogi, en með þessu dregur úr orkunotkun og þörfinni á þeim mannskap sem þarf til að senda vöruna á landi og er talið að þetta geti minnkað sendingartímann um 20 mínútur á álagstímum. Eftir ákveðinn reynslutíma og prófanir stefna AHA og Flytrex að því að senda vörur og veitingar með drónum eftir fleiri flugleiðum og að lokum beint í garðinn hjá neytendum.

Sendingar á veitingum og vörum með sjálfstýrðum drónum á höfuðborgarsvæðinu

Veitingar og vörur frá AHA fljúga nú yfir höfuðborgina

Yariv Bash, forstjóri og meðstofnandi Flytrex, segir að með þessari byltingarkenndu þjónustu verði nánast jafn fljótlegt að fá sent og að panta vöruna eða veitingarnar.

„Við erum mjög spennt að vinna með AHA að því að gera heimsendingaþjónustu með drónum að veruleika í Reykjavík og vonandi bráðum um allan heim. Drónatæknin er sífellt að þróast og komast á enn meira flug og nú er Ísland að taka forskot á þessu sviði“.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segist fagna því að þessi byltingarkennda tækninýjung sé að verða að veruleika í Reykjavík. „Drónarnir koma til með að létta á samgöngum og gera þannig vegakerfið okkar öruggara. Svo má auðvitað líka horfa til þess að borgarbúar eiga eftir að fá betri og hraðari heimsendingarþjónustu og það getur ekki verið neitt nema gott mál“.

Um AHA
AHA hefur síðustu 6 ár þróað og rekið markaðssvæði sem er heildarlausn í netverslun fyrir veitingastaði, verslanir og matvöruverslanir. Kerfið sér um allt ferlið við netverslun fyrirtækisins, þ.m.t. vöruinnlestur, sölu, markaðssetningu og heimsendingu. Til viðbótar við eigin þróun velur Aha bestu mögulegu tækni hverju sinni og skeytir við heildarlausnina sem nú er í boði fyrir verslunarmiðstöðvar eða verslunarsvæði erlendis. Aha.is notast við kerfið og er í dag stærsta netmarkaðstorg landsins en þar er hægt að kaupa heitan mat, matvörur og vörur frá yfir 100 fyrirtækjum.

AHA er með höfuðstöðvar í Skútuvogi 12A og starfsstöð í Bretlandi.

Um Flytrex
Flytrex framleiðir sjálfstýrð sendingarkerfi fyrir dróna sem gera fyrirtækjum kleift að veita viðskiptavinum sínum hraðar heimsendingar. Flytrex vinnur náið með viðskiptavinum sínum og aðstoðar við reglugerðarferli.

Flytrex er með höfuðstöðvar í Tel Aviv og hafa starfsmenn fyrirtækisins rúmlega 50 ára loftrýmisreynslu.

Myndir: aðsendar

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið