Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Ungir aðgerðasinnar gegn matarsóun fengu titilinn Reykvíkingar ársins 2022

Birting:

þann

Frískápur - Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022

Marco Pizzolato og Kamila Walijewska við Elliðaárnar

Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs kynnti í gær hverjir hefðu orðið fyrir valinu sem Reykvíkingar ársins 2022. Tilkynnt var um valið við opnun Elliðaánna í gærmorgun.

Í ár urðu vinirnir Kamila Walijewska og Marco Pizzolato fyrir valinu en þau settu upp frískáp fyrir matvæli á Bergþórugötu 20 í fyrrasumar undir hatti alþjóðlegu hreyfingarinnar Freedge.org.

Sjá einnig: Sporna gegn matarsóun með náungakærleika – Ótrúlegt magn af mat fer í ruslið

Skápurinn var settur upp fyrir utan húsnæði Andrýmis 29. júní í fyrra og hafa viðtökurnar verið framar vonum. Hjá Andrými hittist fólk reglulega og eldar saman úr afgöngum til að draga úr matarsóun og fannst Marco og Kamilu því tilvalið koma skápnum fyrir þar. Síðan skápurinn á Bergþórugötu var settur upp hafa að minnsta kosti tveir frískápar verið teknir í notkun á höfuðborgarsvæðinu; annar í Breiðholti og hinn í Kópavogi og eru þeir allir mikið notaðir.

Frískápur - Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022

Marco Pizzolato og Kamila Walijewska Reykvíkingar ársins ásamt Einari Þorsteinssyni formanni borgarráðs, sem kynnti valið að þessu sinni.

Markmið Freedge.org er að draga úr matarsóun og byggja upp samfélag í kringum það að deila mat í gegnum frískápa. Þau Kamila og Marco stofnuðu facebook síðu um skápinn og nú eru meðlimir orðnir 2.400 talsins og er skápurinn í stöðugri notkun bæði hjá þeim sem setja í hann matvæli og þeim sem njóta matar úr honum.

Marco hefur einnig verið ötull talsmaður „Couch-surfing“ eða Beddaflakks á Íslandi en það snýst um að fólk leyfir gestum að gista hjá sér endurgjaldslaust.

Í frétt sem birtist um Marco og Kamilu á vef Reykjavíkurborgar í desember sl. höfðu vinirnir þetta að segja um framtak sitt.

„Okkur finnst frábært að sjá verkefnið öðlast eigið líf. Fólk lætur orðið berast, kemur færandi hendi með mat og stundum heyrum við af fólki sem hittist við kælinn og kynnist þannig. Við sjáum mikla möguleika á að tengja fólk saman og efla um leið meðvitund um matarsóun og þar með um jörðina okkar.“

Þau Kamila og Marco hafa bæði búið á Íslandi í tvö ár. Kamila kemur frá Póllandi og hefur stundað alþjóðaviðskipti en Marco er verkfræðingur frá Sviss. Þau segjast bæði elska íslenska náttúru og hafa bæði ferðast víða um heiminn.

Frískápur - Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022

Kamila Walijewska, annar Reykvíkingur ársins, rennir fyrir lax í Elliðaánum

Í gærmorgun fengu hinir nývöldu Reykvíkingar ársins að opna Elliðaárnar í boði borgarstjórans í Reykjavík og Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem hefur haft umsjón með ánum í 82 ár. Þau voru fljót að læra að kasta flugu fyrir laxinn og settu bæði í væna laxa á Breiðunni neðst í ánum og lönduðu sitt hvorum laxinum.

Frískápur - Kamila Walijewska og Marco Pizzolato Reykvíkingar ársins 2022

Marco Pizzolato, annar Reykvíkingur ársins, freistar þess að veiða lax íElliðaánum.

Aðspurð sögðust þau ekki búast við að veiða lax aftur þar sem þeim er báðum annt um náttúruna og umhverfið og borða sjálf hvorki kjöt né fisk. Þeim fannst samt báðum forvitnileg lífsreynsla að hafa fengið að prófa að kasta flugu og taka þátt í þeirri hefð að opna laxveiðiá inni í höfuðborginni miðri.

Þetta er í tólfta sinn sem Reykvíkingur ársins er valinn.

Myndir: reykjavik.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið