Keppni
Þessir fagmenn dæma Eftirrétt ársins og Konfektmola ársins
Þriðjudaginn 28. október stendur Garri fyrir árlegu sælkerahátíðinni þar sem keppt verður í Eftirrétti ársins og Konfektmola ársins. Keppnin fer fram á veitingastaðnum La Primavera í Hörpu þar sem fagmenn fá að njóta sín í skapandi og krefjandi umhverfi.
Alls kynna 27 keppendur eftirrétti fyrir dómurum og tíu keppendur skila sínum konfektmolum til mats dómnefndar. Keppnin hefst klukkan 8:30 og fyrsti keppandinn skilar diski klukkan 8:50. Þarna gefst einstakt tækifæri til að fylgjast með hæfileikaríku fagfólki í skapandi og krefjandi umhverfi þar sem fagmennska og hugmyndaflug ráða ferðinni.
Í keppninni er dæmt eftir fimm matsatriðum: Uppskriftaskil og skýrleika (10%), þar sem nákvæmni og greinargóð vinnulýsing skiptir máli; samsetningu innihaldsefna og tengingu við þema (25%); bragði og áferð (35%); framsetningu og nýsköpun (20%); og loks faglegt vinnubragð, hreinlæti og skipulagi (10%).
Dómarar í Eftirrétt ársins
Yfirdómari í Eftirréttur ársins
Snædís Xyza Mae Jónsdóttir er matreiðslumeistari og þjálfari íslenska Kokkalandsliðsins. Hún er í dag yfirkokkur á Fröken Reykjavík, Hótel Reykjavík Saga. Snædís hefur mikla keppnisreynslu og unnið fjölda verðlauna, meðal annars Eftirréttur ársins árið 2018, Arctic Chef, og gull í heita á World Cup Luxembourg 2018. Snædís hefur keppt og sigrað með Kokkalandsliðinu sem náði til dæmis frábærum árangri á Ólympíuleikunum í matreiðslu 2020 og árið 2024.
Hinrik Örn Lárusson er margverðlaunaður matreiðslumaður, frumkvöðull og veitingamaður sem hefur markað sér sterk spor í íslenskri matargerð. Hann hefur unnið titilinn Ungkokkur Íslands tvisvar og hlotið silfur á Ungkokkur Norðurlanda tvívegis. Hinrik var Matreiðslumaður ársins 2024 og Matreiðslumaður Norður-Evrópu 2025. Hann keppti sem commis með Viktori í Bocuse d’Or 2017, þar sem þeir unnu brons. Hinrik er næsti keppandi Íslands í Bocuse d‘Or. Hinrik er stofnandi og eigandi Lux veitinga, Sælkerabúðarinnar, Sælkeramatar og Asks, og undirbýr nú opnun nýs staðar, Brasa, í Kópavogi.
Sigurjón Bragi Geirsson er matreiðslumeistari og yfirkokkur hjá Flóru veisluþjónustu. Sigurjón lærði á Hótel Borg á árunum 2007–2010 en síðan þá hefur hann starfað á fjölmörgum veitingastöðum og tekið virkan þátt í keppnum bæði hérlendis og erlendis. Hann keppti með Kokkalandsliði Íslands 2017–2020 og var þjálfari liðsins, sem vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikum í Stuttgart. Sigurjón hlaut titilinn Kokkur ársins árið 2019 og keppti í Bocuse d’Or, þar sem hann náði 5. sæti í Evrópu og 8. sæti í aðalkeppninni í Lyon 2023.
Dómarar í Konfektmola ársins
Ásgeir Sandholt er fjórði ættliður bakara í hinu rómaða Sandholt bakaríi. Hann hefur unnið þar frá unga aldri og byggt upp einstakan feril sem konditori. Ásgeir lærði í Danmörku og útskrifaðist frá RTH Ringsted árið 1999. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal Eftirréttur ársins árið 2017, auk fjölda gullverðlauna á alþjóðlegum mótum. Ásgeir er þekktur fyrir sköpunargleði, fagmennsku og ástríðu fyrir gæðahráefni, og hefur kennt og miðlað þekkingu til fjölda fagmanna hérlendis og erlendis.
Axel Þorsteinsson er bakari, konditor og frumkvöðull með yfir tuttugu ára alþjóðlega reynslu. Hann hefur starfað víða um heim, meðal annars í Miðausturlöndum, London, Mílanó og New York. Axel hefur tekið þátt í fjölda keppna með góðum árangri, bæði á Íslandi, í Evrópu og í Dubai. Axel sigraði í Eftirréttur ársins árið 2015. Í dag er Axel eigandi Hygge Coffee & Micro Bakery, þar sem hann sameinar handverk, gæði og nútímalega sýn í notalegu umhverfi.
Þetta er viðburður sem enginn sælkeri ætti að láta fram hjá sér fara.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðanMúlaberg slær öll met: Yfir 4.000 gestir í jólahlaðborð á fimm vikum
-
Kokkalandsliðið2 dagar síðanKM, Kokkalandsliðið og 3D Verk skrifa undir nýjan samstarfssamning
-
Markaðurinn1 dagur síðanPampero og hefðin á bak við eitt þekktasta romm Venesúela
-
Vín, drykkir og keppni1 dagur síðanÍslenskir barþjónar og barir tilnefndir í áttunda sinn til BCA-verðlauna
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðanMichael O’Hare opnar nýjan veitingastað eftir erfiðan kafla í rekstri
-
Markaðurinn5 dagar síðanJanúartilboð: Kjöt fyrir veitingastaði, mötuneyti og stóreldhús
-
Markaðurinn1 dagur síðanStóreldhúslausnir á einum stað hjá Bako Verslunartækni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðanMest lesnu fréttir ársins 2025











