Vertu memm

Markaðurinn

Portionex: Snjallkerfið sem íslenskur matreiðslumaður smíðaði úr eigin reynslu

Birting:

þann

Portionex: Snjallkerfið sem íslenskur matreiðslumaður smíðaði úr eigin reynslu

Kristinn Gissurarson

Íslenskur matreiðslumaður hefur þróað tæknilausn sem gæti breytt því hvernig mötuneyti skipuleggja starfsemi sína og dregið stórlega úr matarsóun. Kristinn Gissurarson, stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Portionex, byggði hugmyndina á eigin reynslu úr eldhúsinu.

„Þegar ég byrjaði að vinna í mötuneytum fannst mér strax undarlegt hversu mikil ágiskun fólst í því að áætla rétt magn af mat,“ segir Kristinn í samtali við veitingageirinn.is.

Kveikjan kom þegar hann starfaði hjá veisluþjónustu og veitingastjórinn fór í veikindaleyfi.

„Þá blasti raunveruleikinn við: óteljandi Excel-skjöl og misvísandi upplýsingaleiðir, bara til þess að vita fjöldann að borða.“

Þegar hann síðar sá sama vandamálið í öðru starfi ákvað hann að þróa þá lausn sem honum hafði sjálfum alltaf vantað.

Portionex: Snjallkerfið sem íslenskur matreiðslumaður smíðaði úr eigin reynslu

Útkoman er Portionex, snjallt vefkerfi sem gerir eldhúsum kleift að fá nákvæma spá fram í tímann, halda utan um allar ofnæmis- og sérþarfaupplýsingar og skipuleggja matseðla með hjálp gervigreindar. Í kerfinu er einnig gagnabanki sem varðveitir uppskriftir og vinsælustu rétti fyrirtækisins, svo þekkingin verði til framtíðar eign rekstraraðilans.

Þrátt fyrir að fyrirtækið sé á byrjunarreit hefur Kristinn þegar reiknað út ávinninginn fyrir meðalstórt fyrirtæki.

„Ef 50 manna fyrirtæki nýtir kerfið og hver starfsmaður sóar aðeins einni máltíð minna á mánuði, samhliða sex klukkustunda sparnaði í umsýslu, nemur heildarávinningurinn um 900.000 krónum á ári. Og það er með mjög varfærnum útreikningum,“

útskýrir hann.

Viðbrögðin frá fyrstu prufusamstarfsaðilum hafa verið afar jákvæð. Stjórnendur og yfirkokkar þekkja vandamálið strax og kunna að meta ávinninginn.

„Einn rekstrarstjóri sagði að bara það eitt að hafa áreiðanlega yfirsýn yfir ofnæmi og sérþarfir á einum stað myndi spara honum óteljandi símtöl og tölvupósta í hverjum mánuði,“

segir Kristinn.

Aðspurður um framtíðarsýnina segir hann að næstu skref snúi að því að gera kerfið enn snjallara með dýpri gervigreindarvirkni.

„Við viljum geta lagt til matseðla byggða á sögulegum vinsældum og árstíð. Markmiðið er alltaf það sama: Að gera reksturinn mælanlegri og einfaldari, svo matreiðslumenn geti einbeitt sér að því sem þeir gera best, að elda frábæran mat.“

Að svo stöddu einbeitir Kristinn sér alfarið að íslenska markaðnum, þar sem hann þekkir aðstæður best. Hann útilokar þó ekki erlenda útbreiðslu síðar meir.

„Matarsóun er alþjóðlegt vandamál og okkar nálgun á erindi út um allan heim. En fyrst þurfum við að sanna okkur hér heima. Það er eitt skref í einu.“

Það sem gerir Portionex frábrugðið öðrum kerfum er að það er ekki aðeins daglegt umsýslutól heldur stefnumarkandi rekstrartæki. Það horfir fram í tímann, gerir þekkinguna að eign fyrirtækisins og gefur eldhúsinu rauntímagögn um mætingu starfsmanna, jafnvel þegar stórir hópar eru fjarverandi. Niðurstaðan er markvissari innkaup, betri nýting hráefna og verulega minni matarsóun.

Portionex er því skýrt dæmi um íslenska nýsköpun þar sem reynsla úr eldhúsinu mætir tækni og skapar lausn sem getur bæði sparað fyrirtækjum fjármuni og létt álagi í daglegum rekstri.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.portionex.is og á samfélagsmiðlunum Facebook og LinkedIn má sjá hvernig hugmyndin heldur áfram að vaxa.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá Portionex kynnt í framkvæmd:

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið