Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Peter í úrslitum í Master of Port Scandinavia

Birting:

þann

Peter Hansen í úrslitum í Master of Port Scandinavia

Manuel Lima, yfirsmakkari og tæknistjóri hjá IVDP, ásamt Peter Hansen eftir úrslitakeppnina í Master of Port Scandinavia.

Peter Hansen, aðstoðarsölustjóri hjá Ölgerðinni og vínsérfræðingur af gamla skólanum, hefur tryggt sér sæti í úrslitum í hinni virtu vínþjónakeppni Master of Port Scandinavia. Peter, sem er menntaður bæði sem kokkur og þjónn í Kaupmannahöfn og hefur starfað á Michelin-stjörnuveitingastöðum, flutti til Íslands fyrir 14 árum og hefur síðan þá verið virkur í íslensku vínþjónasamfélaginu.

Við fengum hann til að segja okkur frá ferlinu, undirbúningnum og ástríðunni fyrir portvíni sem hefur nú skilað honum í þrjá efstu í Skandinavíu.

Hver er Peter Hansen?

Ég er menntaður bæði sem kokkur og þjónn í Kaupmannahöfn og starfaði þar um árabil á Michelin-veitingastöðum, meðal annars sem aðstoðarveitingastjóri og veitingastjóri.

Fyrir 14 árum flutti ég til Íslands með íslenskri eiginkonu minni, Margréti Polly. Við eigum tvö börn, Pál og Helenu, og búum í sveitinni á milli Hveragerðis og Selfoss. Við hjónin erum um þessar mundir að vinna að því að framleiða vín úr vínvið sem við ræktum í gróðurhúsinu okkar og hyggjum á stækkun nú í vor.

Síðustu níu ár hef ég starfað hjá Ölgerðinni, þar sem ég er nú aðstoðarsölustjóri fyrir hótel- og veitingadeildina.

Hvernig kom til að þú tókst þátt í þessari keppni, lýstu ferlinu ?

Ég fékk fregnir af keppninni í gegnum Íslenska vínþjónasambandið. Fyrst var haldin „master class“ þar sem send voru sex mismunandi portvín og farið yfir stílana og einkenni þeirra.
Í kjölfarið fór fram fræðilegt próf á netinu, þar sem ákveðið var hverjir kæmust áfram fyrir Ísland, Danmörku, Svíþjóð, Noreg og Finnland.

Ísland fékk eitt sæti í 8-liða úrslitum af tíu.  8-liða úrslitin fóru fram í Porto í fyrra. Þar tókum við þátt í fjölmörgum „master classes“ og heimsóttum framleiðendur í Douro-dalnum.

Á lokadeginum var haldið skriflegt próf, blindsmökkun og stutt verklegt próf. Sama dag var tilkynnt að tveir keppendur frá Danmörku, einn frá Noregi, einn frá Finnlandi og ég frá Íslandi hefðu komist áfram í undanúrslitin sem nú fóru fram í Kaupmannahöfn.

Þú komst í 3 manna úrslit, í hverjar voru þrautirnar ?

Undanúrslit voru haldin á sunnudeginum og tóku 5 keppendur þátt í þeim. Þar var skriflegt próf og skrifuð ritgerð um hvernig mætti kynna portvín, auk  þess var verklegur hluti sem fól í sér blindsmökkun og matarpörun.

Á mánudagsmorgninum var tilkynnt að Ketil frá Danmörku, Alexander frá Noregi og ég frá Íslandi hefðum komist áfram í 3 manna úrslitin.

Úrslitin fólust í nokkrum verklegum verkefnum. Fyrsta verkefnið var að þjóna tveimur gestum tveimur glösum af 50 ára Tawny Port, gera ítarlega bragðlýsingu og útskýra hvað Tawny Port er og ljúka verkefninu innan sex mínútna.

Annað verkefnið var að opna og dekantera flösku af Vintage Port frá árinu 1999 og þjóna fjórum gestum við tvö mismunandi borð innan sjö mínútna.

Þriðja verkefnið fólst í að aðstoða ferðamann sem hafði einn og hálfan dag til umráða í Porto og Douro með ráðleggingar um hvað hann ætti að sjá og upplifa og til þess voru tvær mínútur.

Fjórða verkefnið var röð af tíu spurningum um Portvín, allt frá því hvenær Douro-svæðið var sett á heimsminjaskrá UNESCO til þess hvenær IVDP var stofnað.

Að loknum þessum verkefnum héldum við að úrslitakeppninni væri lokið, en dómnefndin átti eina lokaþraut í handraðanum. Þetta var klassísk keppnisgrein þar sem okkur voru sýndar 15 mismunandi myndir, og við höfðum 15 sekúndur fyrir hverja mynd til að greina hvað, hvar eða hvernig hún tengdist.

Peter Hansen í úrslitum í Master of Port Scandinavia

Hefurðu keppt í mörgum vínþjónakeppnum?

Nei, ég hef ekki tekið þátt í mjög mörgum keppnum áður, aðeins nokkrum sinnum í Íslandsmótinu, en það er í raun allt.

Áttu þína uppáhalds þrúgu og léttvín?

Þetta er spurning sem ég hef oft fengið, og hún er ekki auðveld að svara. Fyrir mér fer það algjörlega eftir stemningunni, hverjum ég er að deila víninu með, hvar ég er og auðvitað hvað ég er að borða.
Ég tel samt að Riesling sé eins konar ofurhetja í vínheiminum. Það hefur einstaka hæfileika til að henta við ótrúlega margar aðstæður, og fjölbreytnin í stílum er nánast endalaus.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir vínþjónakeppni?

Í þessari keppni var áherslan mjög skýr, hún snerist öll um eitt ákveðið vín og svæði, sem að sumu leyti gerði undirbúninginn auðveldari. Hins vegar fór mikill tími í lestur um sögu, landafræði, vínrækt, vínframleiðslu og framleiðendur.

Það skipti einnig miklu máli að æfa mismunandi verkefni sem gætu komið upp í keppninni, og ég var heppinn að Alba og Oddný höfðu tíma á sunnudeginum fyrir keppnina til að fara yfir ýmsa þætti með mér.

Fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á þessari atvinnugrein, hverju myndir þú ráðleggja þeim?

Það eru engar „heimskulegar“ spurningar, ef maður spyr ekki, þá lærir maður ekki.

Kynnið ykkur CMS-, WSET– og ASI-diplómanámið; það getur hjálpað til við að gera námið markvissara og skipulegra.

Við erum kannski ekki stærstu vínþjónasamtök í heiminum, en hurðin er alltaf opin. Fyrir þá sem vilja ná langt og eru tilbúnir að læra, ef þeir biðja um aðstoð, þá verður þeim hjálpað.  Að lokum: smakk, smakk og aftur smakk. Því meira sem þú smakkar, því meira lærir þú.

Frábær árangur í harðri keppni

Peter stóð sig frábærlega í keppninni, en sigurvegari að þessu sinni var Ketil Sauer frá Danmörku.

Tolli er framreiðslumaður að mennt og Certified Sommelier frá Court of Master Sommelier, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára. Tolli hefur verið í stjórn Vínþjónasamtaka frá árinu 2001 og sá eini sem hefur gegnt öllum störfum samtakanna, nú sem ritari og gjaldkeri. Tolli starfaði lengst af í Perlunni og var stofneigandi af Sommelier Brasserie við hverfisgötu forðum daga, í dag starfar hann hjá víninnflytjanda Globus. Hægt er að hafa samband við Tolla á netfangið [email protected]

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið