Vín, drykkir og keppni
Nýir Íslenskir bjórar á markaðinn – Framleiddir í Vestmannaeyjum
Það var seint árið 2012 sem Jóhann Guðmundsson og Kjartan Vídó voru að vinna saman þegar sú hugmynd kviknaði hjá þeim félögum að skoða bruggun á bjór.
,,Við báðir fórum þá strax að safna að okkur upplýsingum og bókum um allt sem tengdist bruggun á bjór. Ætli það liggi ekki einhverjar tæplega 20 bækur í valnum núna, allt frá sögu bjórbruggunar til hreinsunar á tækjum. Ásamt öðrum eins haug af greinum og upplýsingum sem maður er búinn að sanka að sér og lesa frá þessum tíma,“
sagði Jónann í spjalli við Eyjafréttir.
Hann sagði á einhverjum tímapunkti við Kjartan, að þetta væri nú orðið helvíti slæmt því þeir voru farnir að sofna út frá lestri um þrif á bruggtækjum og tólum. Í byrjun ræddu þeir við nokkra félaga um að koma að þessu með þeim sem endaði með því að þeir urðu fjórir Jóhann, Davíð bróðir hans, Kjartan Vídó og Hlynur Vídó, þannig kom nafnið The brothers Brewery.
,,Þegar Hannes fór svo að troða sér í fjölskylduna mína þá tók bruggfélagið vel á móti honum þar sem hann átti bílskúr sem hentaði vel sem aðstaða.“
Átti fyrst að vera áhugamál
„Þetta átti bara að vera skemmtilegt áhugamál og fyrstu bjórarnir gáfu kannski ekkert tilefni til annars,“
sagði Jóhann.
,,Við byrjuðum á að kaupa malað korn frá Brew þar sem það var búið að fyrirfram ákveða uppskriftir og brugga heima yfir nokkrum bjórum.“
Þeir höfðu það strax að markmiði að reyna að komast yfir besta mögulega hráefnið til bruggunar og frá byrjun hafa þeir keypt malt, ger og humla frá Brew.is sem er aðili sem flytur inn hráefni sem er sambærilegt að gæðum og stóru brugghúsin eru að kaupa.
„Ferlið í einföldustu mynd er bara að meskja malað korn við ákveðið hitastig í ákveðnu magni af vatni sem er svo skolað í raun til að safna sykri úr korninu til að koma í suðu. Eftir suðu er svo virturinn kældur niður til þess að bæta við hann geri sem byrjar þá að breyta sykrinum í alkóhól. Þegar gerjun er lokið er komið að því að koma bjórnum á umbúðir, flöskur eða kúta.“
Það eru til ákveðnar grunngerðir af bjór sem eru í raun grunnurinn fyrir alla bjóra í heiminum.
„Þannig ákveðum við t.d. að brugga í dag, Red Ale, Porter eða IPA sem dæmi. Þá förum við eftir ákveðnum leiðbeiningum fyrir þá tilteknu gerð, veljum tilheyrandi ger og malt og svo bara það sem okkur dettur í hug.“
Fyrsta tilraun ekki alltaf góð tilraun
Jóhann nefndi einhvern tímann við strákana að þeir yrðu að gera bjór sem væri flottur sem Vestmannaeyja bjór.
,,Ég hafði þá nýlega verið að sjá bjór sem James og Martin hjá Brewdog blönduðu með þara og fannst tilvalið að velja söl úr Eyjum til að setja í bjór,“
sagði Jóhann. Þeir fóru þá að leita að grunni sem passaði og Red Ale varð fyrir valinu.
,,Næsta skref var að finna humlana sem við vildum hafa með sölinni. Til þess að vinna svo á móti saltinu í sölinni ákváðum við að bæta við chilimauki sem Einar Björn á Einsa kalda reddaði okkur. Í fyrstu tilraun héldum við að við værum búnir að eyðileggja 40 l af einhverju sem hefði getað orðið góður bjór með því að bæta sölinni út í og angaði bílskúrinn hjá Hannesi eins og söl.“
Ferlið er erfitt og langt
„Ferlið tók langan tíma og ekki auðvelt að fá öll leyfi upp í hendurnar. Við ætluðum að reyna að stytta ferlið með því að Einsi Kaldi myndi sækja um leyfi fyrir starfsemina. Einar Björn þurfti eftir sem áður að fá nýtt starfsleyfi, nýtt iðnaðarleyfi ofan á öll önnur leyfi sem hann er með. Breyta tilgangi félagsins og fá svo áfengisframleiðsluleyfi sem er svo háð reglum um áfengisgjöld. Við erum því með öll leyfi í dag til að framleiða áfengi undir Einsi Kaldi þó svo að við tölum alltaf um vöruna okkar sem The Brothers Brewery.“
Þeirra stíll sem er bragðmiklir bjórar
Aðspurður út í fyrirmyndir í þessum bransa sagði Jóhann
„Það eru mörg frábær brugghús hér heima og erlendis sem eflaust væri hægt að nefna. Við hinsvegar erum kannski frekar að reyna að gera okkar stíl frekar en að reyna að elta einhverjar fyrirmyndir. Það sem við viljum fyrst og fremst reyna að gera er að framleiða bjór hér í Eyjum sem gæti hentað vel með mat til að leika við bragðlaukana. Við erum meðal annars að þróa Saison bjór sem við munum kalla Sædísi sem á að henta mjög vel með sjávarréttum. Við munum því væntanlega alltaf framleiða það sem flestir tala um sem bragðmikinn bjór þó að okkur finnst við vera að tóna suma niður.“
Viðtalið í heild má sjá í tölublaði Eyjafrétta fyrir áskrifendur hér.
Stefna á Bjórhátíðina á Hólum með Mistök kokksins
„Við höfum sett stefnuna á Bjórhátíðina á Hólum í sumar. Erum svo nýkomnir með leyfið og byrjaðir að selja að við ætlum að fara rólega af stað og sjá hvert næstu vikur og mánuðir leiða okkur.“
sagði Kjartan Ólafsson í samtali við veitingageirinn.is aðspurður um þátttöku þeirra á bjórhátíð á næstunni. Brugghúsið The brothers Brewery framleiða bjórana Eldfell, Sædís, Surtsey og Mistök kokksins.
Nú eru bjórarnir eingöngu til sölu í Vestmannaeyjum, en hvenær hafið þið hug á því að selja t.a.m. í Reykjavík?
„Til að byrja með er Einsi Kaldi í eyjum eini staðurinn sem selur bjórinn okkar. Strax um helgina höfðu samband við okkur veitinga- og skemmtistaðir á höfuðborgarsvæðinu og leituðust eftir því að selja bjórinn okkar. Við erum svo hógværir og rólegir eyjamenn að við höfum ekkert ákveðið hvenær við hefjum innrás á höfuðborgarsvæðið en miðað við viðtökurnar sem við fengum um helgina þá verður vonandi ekki langt í að bjórinn okkar fái að njóta sín á fleiri stöðum en í eyjum.“
sagði Kjartan að lokum.
Myndir: af facebook síðu The brothers Brewery
-
Frétt1 dagur síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Veitingastaðurinn MAR opnar á Frakkastíg
-
Frétt4 dagar síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fljótlegur hátíðareftirréttur – Einfaldasta skyrkaka í heimi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Veitingageirinn í jólaskapi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Flottir ekta ítalskir réttir og pizzur af betri gerðinni – Fagnaðu gamlárskvöldinu með stæl á Piccolo – Myndir
-
Nemendur & nemakeppni3 dagar síðan
Útskriftarnemendur Hótel- og matvælaskólans í MK tóku þátt í ýmsum keppnum og krefjandi verkefnum
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Óáfengir kokteilar frá ISH, danskur framleiðandi