Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Hlaðvarpið sem fagmenn í veitingageiranum elska – MatMenn bjóða upp á innsýn í bransann

Birting:

þann

MatMenn vekja athygli með fersku sjónarhorni - "Við vildum búa til hlaðvarpsþátt sem við sjálfir myndum hlusta á"

Davíð Stefán Hanssen (55) og Bjartur Birkisson (31).
Mynd: Viktor Böðvarsson

Einn af ferskustu hlaðvarpsþáttum á Íslandi í dag ber heitið MatMenn en þar fjalla matreiðslumennirnir Davíð Hanssen og Bjartur Birkisson um mat og allt sem honum tengist á einhvern hátt. Þátturinn er á léttu nótunum og fær hlustendur til að fræðast og skella uppúr á sama tíma.

Í gegnum árin hafa Bjartur og Davíð starfað á ýmsum stöðum, en nokkrir þeirra standa upp úr þegar kemur að því að móta þá sem matreiðslumenn.

Bjartur Birkisson, annar þáttastjórnenda MatManna, hóf feril sinn sem matreiðslunemi í eldhúsi Grand Hótel Reykjavíkur, þar sem hann starfaði undir leiðsögn Úlfars Finnbjörnssonar. Á sama tíma gegndi Davíð Hanssen stöðu vaktstjóra á staðnum, einnig undir handleiðslu Úlfars, og störfuðu þeir félagar því saman á þessum mótandi tíma í upphafi ferils Bjarts.

Davíð, sem er örlítið eldri af þeim tveimur – og hefur eldað mat lengur en Netflix hefur verið til – nefnir lykiláhrifavalda á sínum ferli.

Davíð nefnir sérstaklega áhrifin sem hann varð fyrir í samstarfi við Ragnar Lárusson matreiðslumann, en þeir störfuðu lengi saman í eldhúsi Nóatúns í Austurveri. Þá hafi einnig verið dýrmæt reynsla að vinna við kjötskurð með Sigurði Haraldssyni, betur þekktum sem Pylsumeistara, sem rekur Kjötpól og Pylsumeistarann. Þeir félagar unnu saman bæði hjá Grundakjöri og síðar Kjöt & Fisk í Mjóddinni, og segist Davíð hafa lært mikið af þeirri reynslu.

Hugmynd sem fæddist við veiðivatn – og varð að hlaðvarpi um mat og mannlíf

Hugmyndin að hlaðvarpsþættinum MatMenn kviknaði í rólegri veiðiferð síðasta sumar, þar sem Davíð Hanssen sat við vatnið og leyfði huganum að reika. Þótt hugmyndin væri fyrst sett í bið, lét hún hann ekki í friði og um áramótin ákvað hann að ræða hana við eiginkonu sína. Hún tók vel í hugmyndina og hvatti Davíð til að láta slag standa.

Við frekari undirbúning fór Davíð að velta fyrir sér hvort hann ætti að fá einhvern með sér í verkefnið. Fyrrverandi vinnufélagi benti honum þá á Bjart Birkisson, sem hafði sjálfur mikinn áhuga á að stofna hlaðvarp. Samstarfið var fljótt ákveðið og úr varð tvíeykið sem stýrir MatMönnum í dag.

Aðstaðan var svo engin fyrirstaða – dóttir Davíðs og tengdasonur hans reka hlaðvarpsstúdíó, og þar var allt til alls. Með þannig bakland varð hugmyndin fljótt að veruleika.

Hvert var upphaflega markmiðið með MatMönnum – og hvernig hefur það þróast með hverjum þætti?

„Upprunaleg hugmynd var að vera með þátt með skemmtilegri umræðu um allt tengt bransanum þar sem eingöngu væri rætt við kokka. Þáttinn ætlaði Davíð að kalla Chefinn, en eftir að hafa borið þetta undir Bjart þá fannst þeim það of einhæft svo þeir hugsuðu planið upp á nýtt.

Þá kom upp nafnið Matmenn sem um leið opnaði möguleikana að ræða ekki eingöngu við matreiðslumenn, heldur alla sem koma að mat og drykk á einhvern hátt. Við erum því afar ánægðir með að hafa ákveðið þetta nafn fyrir þáttinn, og teljum það afar lýsandi.“

Sögðu þeir Davíð og Bjartur í viðtali við Veitingageirann.

Viðmælendur MatManna eru af ýmsum toga og öll eiga þau sameiginlegt að koma að mat á einn eða annan hátt. Nóg er af sögum úr bransanum, og hlakka Davíð og Bjartur til að koma bæði fróðleik og skemmtun til skila, til allra sem hafa gaman af því að fræðast um matarbransann á Íslandi.

Þættirnir eru gefnir út á hverjum föstudegi og eru þeir bæði í mynd og hljóði.

Viðmælendur hafa reynst bæði áhugaverðir og fróðlegir, svo úr verður oft efni í mun lengri þætti en tímamörkin leyfa.

„Viðmælendur hafa öll komið okkur skemmtilega á óvart, þar sem það virðist alltaf vera nóg um að fræðast. Þau hafa öll verið svo áhugaverð og gætum við auðveldlega haft þættina lengri.

Við gerum þó okkar besta til að halda okkur nokkurn veginn við klukkutímann, en það tekst nú ekki alltaf!“

Gætuð þið hugsað ykkur að fara með þættina „út á land“ eða í beinni útsendingu?

„Já það stendur til að fara með þáttinn um víðan völl. Okkar plan er að fara á heimsmeistarakeppnina í matreiðslu í Lúxemborg á næsta ári. Svo væri ekki leiðinlegt að geta skroppið út á land með þáttinn.

Við leitumst við að fá áhugavert og skemmtilegt fólk í viðtölin okkar og erum alveg til í að leggja land undir fót ef það býðst.“

Hver væri draumaviðmælandi ykkar í MatMenn (lifandi eða látinn)?

„Anthony Bourdain, Raymond Blanc, Gino D’Acampo og Michel Roux Jr. svo einhverjir séu nefndir.“

Hafa komið upp einhver sérstök vandræðaleg augnablik í upptöku sem þið þyrftuð að klippa út eða hlæja að eftir á?

„Já við tókum upp fyrsta þátt sem átti að vera meiri kynning á okkur tveimur.

Sú upptaka var fyrsta upptaka okkar og þótti svolítið of mikið yfir strikið, en annars veltum við okkur ekki mikið upp úr því hvort hlutirnir séu vandræðalegir, við erum bara eins og við erum.“

Hvað væri það skrítnasta sem þið mynduð borða fyrir gott podcast content?

„Ég (Davíð) segi no comment á þessa spurningu, en Bjartur væri meira til í hvað sem er hahaha….“

Nú þegar hafa verið gefnir út nokkrir þættir þar sem viðmælendur eru m.a. Þórir Erlingsson forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Ívar Örn Hansen (Helvítis kokkurinn), Dóra Svavarsdóttir formaður Slow Food Iceland og Emil Hallfreðsson fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta sem nú starfar innan veitingageirans, Jóhann Gunnar Arnarson Butler (Briti) og Snædís Xysa Mae Jónsdóttir yfirmatreiðslumeistari á Fröken Reykjavík kitchen and bar og landsliðsþjálfari í matreiðslu.

MatMenn er að finna á helstu streymisveitum s.s. á Spotify, YouTube og Apple Podcast.

Þættirnir eru teknir upp í Stúdíó Hlaðbergi og sér Viktor Böðvarsson um framleiðslu.

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið