Starfsmannavelta
Fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins til liðs við Múlakaffi
Hið rótgróna fjölskyldufyrirtæki Múlakaffi hefur um áratugaskeið verið leiðandi í veisluþjónustu þar sem viðburðir af öllum stærðum og gerðum taka á sig ævintýralegan blæ þegar kemur að framsetningu veitinga og upplifun.
Nú hefur Múlakaffi heldur betur fengið liðsstyrk þar sem að einn af mest spennandi matreiðslumönnum yngri kynslóðarinnar og fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins, Ísak Aron Jóhannsson, hefur gengið til liðs við hið öfluga teymi sem fyrir er í Múlakaffi, að því er fram kemur í tilkynningu.
Þar mun Ísak hitta fyrir listakokkinn Eyþór Rúnarsson, sem er yfirmatreiðslumaður Múlakaffis. Það er skemmtileg staðreynd að Eyþór, sem er einn af ástsælustu kokkum okkar Íslendinga, var einmitt fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins á árunum 2008 – 2011.
Saman munu því nýi fyrirliðinn og sá gamli, ásamt meistarakokknum Ara Sylvain Posocco, mynda þríeyki sem mun halda áfram að þróa og efla veisluþjónustu Múlakaffis og mega landsmenn eiga von á sannkallaðri flugeldasýningu á næstu misserum.
„Við erum afar spennt og stolt af því að fá Ísak Aron í okkar lið. Hann hefur vakið mikla athygli undanfarin ár og hefur mikla ástríðu og metnað. Það er eitt af okkar leiðarljósum að vera sífellt að bæta við okkur þekkingu og feta nýjar slóðir í matseðlum og framsetningu.
Þannig munum við halda áfram að skapa hámarksvirði fyrir okkar viðskiptavini,“
segir Eyþór Rúnarsson, yfirmatreiðslumaður Múlakaffis.
Ísak Aron hefur, þrátt fyrir ungan aldur, náð eftirtektarverðum árangri í sínu fagi. Frá því að hann hóf störf á nemasamningi á Satt Restaurant á Hotel Natura árið 2015 hefur margt vatn runnið til sjávar. Hann hefur starfað á tveimur Michelin stjörnu stöðum, Hotel Helvie í Suður-Frakklandi og Texture í London, þar sem hann fékk sannkallaða eldskírn. Hann fékk inngöngu í kokkalandsliðið árið 2019 og náði þriðja sætinu á Ólympíuleikunum í Stuttgart og fimmta sætinu á Heimsmeistaramótinu í Luxemburg.
Árið 2022 sigraði Ísak keppnina Eftirréttur ársins og var þá gerður að fyrirliða kokkalandsliðsins sem náði aftur þriðja sætinu á Ólympíuleikunum. Í ár lenti Ísak í öðru sæti í keppninni Kokkur ársins og hóf sitt annað tímabil sem fyrirliði kokkalandsliðsins og setur að sjálfsögðu stefnuna á fyrsta sæti á Heimsmeistaramótinu í Luxemburg árið 2026.
„Ég er gríðarlega stoltur af því að ganga til liðs við Múlakaffi. Þetta eru „legends“ í leiknum eins og sagt er og teymið sem ég mun starfa með er algjört draumateymi.
Ég hef fylgst með Eyþóri í mörg ár og hlakka mikið til að læra af honum og sökkva mér í verkefnið,“
segir Ísak.
Það að keppa á efstu sviðum matreiðslu útheimtir mikla vinnu og þrotlausar æfingar og hluti af samstarfi Ísaks og Múlakaffi snýr að því að skapa Ísaki aðstöðu til æfinga.
„Við erum afar stolt af því að fá Ísak til liðs við okkur. Hann mun koma með nýja strauma og hugmyndir að borðinu og við ætlum á sama tíma að styðja hann til afreka í keppnismatreiðslu og vonandi að veita honum mikilvæga reynslu og þekkingu á þeim vettvangi.
Þetta er því sannkallað „win-win“ fyrir bæði Ísak og Múlakaffi,“
segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.
Þeir sem vilja fylgjast með Ísaki og Múlakaffi er bent á Instagram reikningana þar sem alltaf er eitthvað spennandi á döfinni.
Mynd: Kristján Maack
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Keppni4 dagar síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Keppni4 dagar síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Uppskrift – Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð
-
Nemendur & nemakeppni2 dagar síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Mozzarella fiskréttur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Hótel og heilsulind Bláa Lónsins á meðal 10 bestu hótelum heims – Michelin