Vertu memm

Keppni

Fagmennska og metnaður einkenndu Norrænu nemakeppnina – Myndir

Birting:

þann

Forkeppni fyrir Norrænu nemakeppnina í matreiðslu og framreiðslu fór fram laugardaginn 8. nóvember 2025 í Menntaskólanum í Kópavogi. Þar kepptu hæfileikaríkir íslenskir nemar um sæti í lokakeppninni sem fram fer 19.–21. apríl 2026 í Grythyttan í Svíþjóð.

Keppnin markaði mikilvægan áfanga í starfi ungra iðnnema í matreiðslu og framreiðslu, þar sem fagmennska, metnaður og sköpunargleði voru í fyrirrúmi.

Fagmennska og metnaður einkenndu Norrænu nemakeppnina - Myndir

Framreiðsla

Framreiðslunemar hófu einnig daginn á skriflegu prófi áður en þau mættu í fjölbreytt verkleg verkefni sem reyndu á bæði færni og faglegt viðmót.

Verkefnin voru meðal annars:

Að blanda tvo drykki á Vínstúkunni

Að sýna færni í eldsteikingu

Að setja upp kvöldverðaborð fyrir fjóra

Að para vín við mat

Að brjóta servíettur á skapandi hátt

Úrslit í framreiðslu:

1. sæti: Freyja Dröfn Bjarnadóttir – Oto

2. sæti: Árný Lind Berglindardóttir – Kol Restaurant

Fagmennska og metnaður einkenndu Norrænu nemakeppnina - Myndir

Matreiðsla

Matreiðslunemar hófu daginn á skriflegu prófi áður en þeir tóku til við verklega keppni þar sem reyndi á útsjónarsemi, tæknilega færni og hugmyndaauðgi.

Keppendur elduðu tvo rétti:

Aðalréttur: „Mystery basket“, þar sem hráefnin voru opinberuð á keppnisdegi.

Eftirréttur: Þar þurfti að nýta Freyju rjómasúkkulaði, Lavazza kaffi, Pink Lady epli og Mysing.

Elda þurfti fyrir sex manns og var ekki heimilt að koma með nein hráefni að heiman.

Úrslit í matreiðslu:

1. sæti: Hákon Orri Stefánsson – Fröken Reykjavík

2. sæti: Aron Fannar Þrastarson – Nomy

Dómarar

Dómarar í keppninni voru reyndir fagmenn úr veitingageiranum sem lögðu mat á frammistöðu keppenda með fagmennsku

Framreiðsla:

Erlingur Gunnarsson
Kristinn Einar Guðmundsson
Silvía Louise
Oddný Ingólfsdóttir
Tristan Máni Wolfgang Maríönnuson

Matreiðsla:

Jakob Zarioh Baldvinsson
Denis Grbic
Árni Þór Arnórsson
Magnús Örn Guðmarsson
Ólöf Ólafsdóttir

Faglegt samstarf og sameiginlegt markmið

Forkeppnin er hluti af sameiginlegu verkefni MATVÍS, Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Klúbbs matreiðslumeistara, sem nýlega undirrituðu samning um skipulag og framkvæmd Norrænu nemakeppninnar.

Með samningnum tekur Klúbbur matreiðslumeistara við umsjón með forkeppni, þjálfun keppenda og þátttöku Íslands í lokakeppninni. Samstarfið er ætlað að efla faglegt starf ungra iðnnema og styrkja ímynd og gæði norrænnar matargerðar og framreiðslu.

Fagmennska og metnaður einkenndu Norrænu nemakeppnina - Myndir

Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara

„Það var einstakt að fylgjast með þessu unga fólki að störfum. Fagmennskan, áhuginn og metnaðurinn sem þau sýna er til fyrirmyndar.

Það er augljóst að framtíð keppnismatreiðslu og framreiðslu á Íslandi er björt,“

segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, tekur undir mikilvægi verkefnisins og segir þátttöku í Norrænu nemakeppninni styrkja starfsvettvang matvælagreina og vekja áhuga á þeim mikilvægu störfum sem matreiðsla og framreiðsla eru fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, bætir við að samstarfið sé glöggt dæmi um hvernig félög og stofnanir geta sameinast um að efla íslenska fagmenntun og skapa ungu fólki tækifæri til að vaxa í starfi.

Sterk framtíð faggreina

Verðlaunaafhending fór fram að lokinni keppni þar sem rík stemning var meðal keppenda, dómara og áhorfenda. Keppnin tókst afar vel í alla staði og sýndi glöggt að framtíð íslensks matreiðslu- og framreiðslufólks er björt.

Klúbbur matreiðslumeistara óskar öllum keppendum hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur og þakkar kennurum, dómurum og samstarfsaðilum kærlega fyrir stuðninginn.

Meðfylgjandi myndir tók Mummi Lú.

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið