Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Allt um nýja EDITION hótelið við Austurbakka – Myndir og vídeó
Það má með sanni segja að líflegur áfangastaður matgæðinga með töff kaffihúsum, veitingastað, fjörlegu næturlífi og stórbrotinni tónlistarsenu verði að veruleika þegar The Reykjavík Edition hótelið við Austurbakka 2 opnar.
„Reykjavík er mjög svöl, ung borg – fullkomin fyrir vörumerkið okkar,“
segir Ian Schrager, frumkvöðull að hugmyndinni um boutique hótel, og skapari PUBLIC og EDITION og bætir við:
„Okkur finnst tími Reykjavíkur runninn upp og við erum hér í hjarta borgarinnar á hárréttum tíma.“
Opnar með sérstakri forsýningu 9. nóvember 2021
The Reykjavík Edition verður opnað á sérstakri forsýningu 9. nóvember 2021 og mun setja ný viðmið sem fyrsta sannkallaða lúxushótel borgarinnar sem sameinar það besta sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða og þá persónulegu, þægilegu og einstaklingsmiðuðu upplifun sem EDITION-vörumerkið er þekkt fyrir.
Hótelið er með 253 herbergi, bari, veitingastað og næturklúbb og eins og EDITION einu er lagið, glænýrri hugmynd um nútímalegt og félagslegt vellíðunarrými.
Í landi hinna heitu hvera, náttúrulegra uppspretta og fjarða leiðir þessi hugmyndaríka nýsköpun sem að Ian Schrager, ásamt Marriott hótelkeðjunni, sækir innblásturinn í.
Schrager varð agndofa yfir óspilltri náttúru landsins
Eins og þekkt er þá komst Reykjavík fyrst á kortið þegar bandaríski skákmeistarinn Bobby Fischer vann heimsmeistaramótið í skák sem haldið var í borginni árið 1972. Schrager fylgdist einmitt með keppninni á sínum tíma og segist hafa verið agndofa yfir óspilltri náttúru landsins. Þar sem það situr í miðju Atlantshafinu, rétt við norðurheimskautsbauginn, er Ísland bókstaflega enn í mótun þar sem landslagið er í stöðugri þróun vegna rymjandi eldfjalla, sjóðandi hvera, gjósandi goshvera.
Allt þetta hefur leitt af sér stórkostlegt, dulúðugt sambland af hraunbreiðum þöktum grænum mosa, magnþrungnum jöklum og stórskornum fjöllum sem umlykja djúpa dali.
„Á Íslandi sérðu hluti sem þú sérð hvergi annars staðar. Hér, frekar en nokkurs staðar í heiminum, hefurðu tækifæri á að komast í snertingu við náttúruna og við erum stolt af því að auka við EDITION-hótelkeðjuna á ótrúlegum stað með ótrúlega spennandi hóteli sem veitir þér sanna upplifun af staðnum.“
segir Schrager.
The Reykjavík Edition hótelið
Hótelið er með glæsilegt útsýni yfir höfnina og tilkomumikla fjallasýn, en hótelið er staðsett eins og áður segir við Austurbakka 2 við hliðina á Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.
Framhliðin á The Reykjavík EDITION er úr shou sugi ban-timbri, sem hefur verið sótað svart með aldagamalli japanskri tækni, og svertum stálrömmum sem minna á áhrifamikið hraunið í landslagi Íslands. Húsið sjálft hefur einfaldar, hreinar línur og er komið þannig fyrir að útsýnið og staðsetningin við líflega höfnina nýtist til hins ýtrasta.
Móttakan er aðgengileg frá tveimur hliðum, annaðhvort frá torginu við Hörpu eða höfninni.
Eins og á öllum EDITION-hótelum þá skapast oft á tíðum fjörugur samkomustaður sem gefur þér góða tilfinningu fyrir því sem koma skal. Í miðju anddyrinu er skúlptúr úr íslenskum hraunmolum í mótsögn við hlýrri efni, s.s. leður, sem er vafið utan um steinsteypusúlur, og hvíta eik á gólfum, í loftbitum og listum sem umlykja barinn í anddyrinu. Drykkjarseðillinn á barnum í anddyrinu leggur áherslu á fjölþjóðleg vín og klassíska kokteila með íslenskum áhrifum. Í setustofunni í anddyrinu er arinn sem er hjarta rýmisins, umkringdur sætum og sérsmíðuðum húsgögnum sem bjóða upp á hlýleg svæði fyrir litla hópa, eins og hvítir leðurklæddir hægindastólar í anda Jean-Michel Frank og svartir flauelsstólar í stíl Pierre Jeanneret.
Eins og áður segir þá er fjögurra metra hár skúlptúr sem er úr blágrýtisskífum frá suðurhluta Íslands, sem er lýst upp, bæði raf- og kertaljósum, og umkringdur grágrýtisbekk þöktum mjúkum svörtum sauðagærum og silkipúðum. Hugmyndin af súlunni er að fólk hópast saman í miðju anddyrisins til að sýna sig og sjá aðra, en þar við hliðina er hægt að horfa á norðurljósin á hreyfimynd.
Tides veitingastaðurinn – Gunnar Karl Gíslason
Á jarðhæð og aðgengilegt frá anddyrinu, eru bæði Tides, veitingastaðurinn með sér borðsal, bakarí og kaffihúsi með heimabökuðu góðgæti, og Tölt, hlýlegur bar sem líkist hinum margverðlaunaða Punch Room á The London EDITION-hótelinu.
Tides er með útisvæði og sérinngang frá höfninni og er stýrt af Gunnari Karli Gíslasyni sem er kokkurinn á bak við Dill, hinn vinsæla veitingastað og handhafa New Nordic Michelin-stjörnunnar.
Glæsilegar og fágaðar innréttingarnar eru úthugsaðar fyrir óaðfinnanleg umskipti frá degi til nætur, með stórum gluggum sem á daginn varpa náttúrulegu ljósi á rifflaðar steinsteyptar súlur og áhersluatriði úr olíubornum aski eins og upplýstar loftplöturnar, ýmis húsgögn og sexhyrndan bar í miðju rýmisins þar sem sérsmíðuð ljósakróna úr bronsi og alabastri eftir hinn fræga franska listamann, Eric Schmitt, hangir.
Á morgnana er borinn fram morgunverður með fersku, hollu úrvali af hreinum ávaxtasafa, sætabrauði, ávöxtum, morgunkorni og skyri, ásamt úrvali af heitum réttum og smurbrauði af matseðli. Í hádegis- og kvöldverð býður Gunnar upp á nútímalega íslenska matargerð, með tvist af hefðbundnum íslenskum eldunaraðferðum með áherslu á árstíðabundnar íslenskar afurðir og hágæða alþjóðlegt hráefni sem er að mestu eldað yfir opnum eldi.
Samhliða yfirgripsmiklum alþjóðlegum vínlista má búast við réttum eins og salati með steiktum ostrusveppum, sojasósu og ristuðum möndlum, sítrónufylltri bleikju með dilli og hvítlaukssmjöri, bökuðum þorski með grilluðum kartöflum, blönduðum kryddjurtum og smjöri og brúnuðum, hægelduðum lambaframparti með súrsuðum lauk, myntu og eplum og í eftirrétt Tides gulrótarkaka, súrmjólkurís, gulróta- og hafþyrnissulta með brenndri kúmenolíu.
Einnig verður í boði dögurðarseðill um helgar og þrjú kvöld í viku mun „The Counter“, sem horfir yfir opna eldhúsið, bjóða upp á 8 rétta fastan matseðil með vínpörun fyrir allt að 10 manns. Þeir sem eru á höttunum eftir einhverju aðeins léttara geta litið inn í bakaríið og á kaffihúsið í kaffibolla og valið úr nýbökuðum krækiberjaskonsum, girnilegu súrdeigsbrauði eða rúgbrauðssamlokum sem hægt er að borða á staðnum eða taka með.
Tölt barinn
Hinum megin við anddyrið er Tölt sem er kenndur við hinn einstaka fimmta gang sem íslenski hesturinn er þekktur fyrir, stendur huggulegur bar sem er með þremur notalegum krókum með litríkum, sérsniðnum mottum með mynstri sem er innblásið af hefðbundinni íslenskri rúmfræði, veggskápum úr tekki, appelsínugulum bólstruðum bekkjum og kollum með hrosshári sem eru við arininn í miðjunni.
Utan krókanna er rýmið þakið þiljum úr valhnotu í lofti og á gólfi, sérsmíðaðri valhnotuljósakrónu og gólfsíðum gluggum sem ramma inn útsýnið yfir Hörpu. Á bak við græna marmarabarinn eru upplýstar bronshillur sem hanga niður úr loftinu og skapa hlýjan bjarma til að njóta kokteila sem fá innblástur úr íslenskri menningu úr íslenskum hráefnum.
The Roof
The Roof er staðsett á 7. hæð hótelsins og býður upp á útsýni yfir fjöllin, Norður Atlantshafið og gamla bæinn til allra átta. Fjölbreytilegt rými sem hægt er að skipta með glerhurð fyrir einkaviðburði.
Glerhurðir opnast út á stóra verönd sem nær allan hringinn, með þægilegum sætum og stóru eldstæði en glansandi svartar innréttingar skapa lágstemmdan bakgrunn sem skerðir ekki útsýnið.
Hugmyndin af The Roof er frjálsleg stemmning með litlum matseðli með þægilegum mat eins og grilluðum flatbökum, ristuðum samlokum og fersku salati. Frá þessu sjónarhorni er augljóst að Ian Schrager hannaði hótelið út frá útsýninu á staðnum.
253 herbergi og svítur
Á hótelinu eru 253 herbergi og svítur sem hafa verið hönnuð sem hlýlegt athvarf, öll með rúmum sem snúa að gólfsíðum gluggum sem ramma inn útsýnið yfir nærliggjandi hverfi. Sum eru með verönd en öll eru þau útfærsla á nálgun EDITION-vörumerkisins á nútíma lúxus með fíngerðum staðbundnum áherslum. Dempuð litapalleta með aski og fölgrárri eik þjónar sem hlýr grunnur fyrir úthöggvinn steinsteypuvegg, sérsmíðuð ítölsk húsgögn, lesljós úr kopar, mottur úr gervifeldi og listaverk og fylgihluti eftir íslenskt handverksfólk, svo sem litskrúðug rúmteppi.
Á svarthvítum baðherbergjunum eru hins vegar sérsniðnar, handsmíðaðar hvítar keramikflísar, framleiddar á Ítalíu, með hvítum marmaraborðum, möttum svörtum fylgihlutum og innréttingum, ásamt sérhönnuðum Le Labo-snyrtivörum með einstökum ilmi EDITION-hótelanna.
Í besta horninu á 6. hæð er eins-svefnherbergis Penthouse-svítan – með einkaverönd og stórkostlegt útsýni yfir höfnina, Hörpu og fjöllin. Penthouse-svítunni fylgir einnig stórt baðherbergi með hvítum ítölskum marmara og arni.
Funda- og viðburðarými
The Reykjavík EDITION býður upp á nútímaleg funda- og viðburðarými, þar á meðal sveigjanlegar vinnustofur, fundarherbergi með náttúrulegri birtu og hvíttuðu trégólfi og glæsilegan danssal með anddyri. Danssalurinn, sem hægt er að aðlaga breytilegum aðstæðum og skipta í tvö aðskilin rými, er með glugga sem ná frá gólfi og upp í loft en stórar glerhurðirnar eru nógu breiðar til að rúma bíl. Í danssalnum hangir alabastursljósakróna sem tónar við náttúrulegar drapperingar í salnum.
Sunset – Neðanjarðarklúbbur
Í kjallaranum er Sunset, sem opnar seinna á þessu ári er neðanjarðarklúbbur með háþróuðu hljóðkerfi og lýsingu sem lýsir upp töff, dökka steinsteypta innréttingu með svörtum steyptum bar. Sunset má skipta í þrjú rými sem eru aðgengileg frá hótelinu og torginu við Hörpu. Ásamt því að bjóða upp á kokteilaseðil og stöðuga viðburði.
Klúbburinn mun bjóða upp á nokkra af bestu plötusnúðum og flytjendum heims og stimpla sig inn sem ómissandi viðkomustað í blómlegu næturlífi Reykjavíkur.
Einnig er sérinngangur fyrir þá sem þarfnast ýtrustu leyndar.
„Það hefði verið draumur að opna Studio 54 hérna þar sem myrkrið ræður ríkjum í 6 mánuði á ári í stað þessara 8 klukkustunda sem það gerir í New York. Þetta hefði verið fullkominn staður fyrir það,“
segir Schrager.
Líkamsrækt, tyrkneskt gufubað, heilsulindarbar og hollur matseðill
Á neðri hæðinni er einnig líkamsræktaraðstaða sem er búin fullkomnum búnaði til styrktaræfinga og lyftingar- og þrekæfingatækjum. Það er hins vegar félagslega heilsulindin sem er einn af sérstæðustu þáttum hótelsins og lætur The Reykjavík EDITION svo sannarlega skera sig úr. Auk þess að hafa þrjú meðferðarherbergi, tyrkneskt gufubað, sána og laug sem býður upp á vatnsmeðferð, er setustofa með heilsulindarbar sem býður daglega upp á ferskan, hollan matseðil með víkingabústum, kampavíni og gómsætu mosavodka ásamt snarli eins og eldfjallabrauði með svörtu hraunsalti.
Það er best að njóta kræsinganna í grunnu lauginni ásamt 60 mínútna Sundown Spa-meðferðinni, sem felur í sér endurnærandi líkamsnudd og svalandi onyx höfuðnudd. Heilsulindin er staðsett beint á móti Sunset og er hið fullkomna dekurrými áður en farið er út að skemmta sér, til að undirbúa sig vel fyrir stórkostlegt kvöld.
„Heilsulind og vellíðunaraðstaða með bar er eitthvað sem við höfum í raun aldrei séð áður. Að fara þangað niður og hitta fólk og fá sér drykk og baða sig í heitu vatninu, er aftur svar við því að vera á Íslandi. Að sameina þetta á smekklegan og glæsilegan hátt undirstrikar hvað EDITION-vörumerkið snýst um.“
Segir Schrager að lokum.
Sérstök opnunartilboð eru í boði, 25% afsláttur af hefðbundnu verði, aðeins fáanleg í takmarkaðan tíma. Herbergjaverð er frá 53.438 ISK fyrir herbergi í eina nótt.
Um EDITION hótelin
Hvert EDITION-hótel býður upp á gæðaúrval af veitingastöðum og afþreyingu, þjónustu og þægindum, „allt undir einu þaki“, og endurspeglar það besta í menningar- og félagslegu umhverfi staðsetningar sinnar og tíðaranda í hverju landi.
EDITION er hugarfóstur Ian Schrager í samstarfi við Marriott hótelkeðjuna og sameinar bæði hina persónulegu og nánu upplifun sem Ian Schrager er þekktur fyrir og hin alþjóðlegu tengsl, rekstrarþekkingu og umfang Marriott. Sá áreiðanleiki og frumleiki sem Ian Schrager færir þessu vörumerki ásamt alþjóðlegum tengslum Marriott leiðir af sér einstaka afurð sem aðgreinir sig frá öllu öðru á markaðnum. Hvert hótel, með sínum einkennum, áreiðanleika, frumleika og einstöku siðferði, endurspeglar anda og tíðaranda sinnar staðsetningar. Þrátt fyrir að hótelin séu öll ólík þá speglast sameiginleg fagurfræði vörumerkisins í nálgun og viðhorfi til nútímalífsstíls fremur en útlits.
EDITION snýst um viðhorf og hvernig það lætur þér líða frekar en hvernig það lítur út. Fáguð almenningsrými, frágangur, hönnun og smáatriði þjóna upplifuninni í stað þess að keyra hana áfram.
Sjá einnig:
Bjarni Gunnar og Gunnar Karl stjórnendur í nýja Marriott Edition hótelinu
Fyrir áhugasama
Skoðið EDITION hótelin á eftirfarandi samfélagsmiðlum:
Facebook: /EDITIONhotels
Facebook: /TheReykjavikEDITION
Twitter: @EDITIONhotels
Instagram: @EDITIONhotels
Instagram: @EDITIONReykjavik
editionhotels.com
editionhotels.com/reykjavik
marriott.com/rekeb
The Reykjavík Edition kynningarmyndband:
Myndir: aðsendar
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Keppni2 dagar síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Nýtt veitingasvæði rís í austurenda Smáralindar – 13 nýir veitingastaðir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Mijita er fyrsti 100% glútenfríi veitingastaðurinn í Wolt appinu
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Dill opnar á ný eftir breytingar – nú með nýju borðabókunarkerfi Noona
-
Keppni3 dagar síðan
Matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana í húsi Fagfélagana