Vertu memm

Pistlar

Á lífinu í London, seinni hluti

Birting:

þann

Hallgrímur Sigurðarson

Hallgrímur Sigurðarson

Bretar hafa oft verið taldir leiðinlegir, einhverra hluta vegna, en í þessari stuttu heimsókn minni tókst þeim alveg að eyða öllum slíkum orðrómi. Þeir eru hressir bjórdrykkjumenn sem kunna að skemmta sér, það lærði ég í neðanjarðarlestunum kvöldið sem þeir urðu “heimsmeistarar” í rugby. Þá hafði þeim tekist að hrella Bush forseta heim sem hafði skroppið í kaffi til Blair og co. í nokkra daga og vinna ástrali í þessari íþrótt ef íþrótt skyldi kalla.

Í London var allt kröggt af temmilega ölvuðu fólki sem hafði slegið tvær flugur í einu höggi, sem sagt góð helgi. Okkur tókst nú samt að ferðast um alla borgina með neðanjarðarlestunum sem eru með þeim betri sem ég hef ferðast með, mjög einfalt og ódýrt, klassískur leigubílakostnaður í svona ferðalögum er óþarfi.

Eftir indverska staðinn, www.chowki.com (flott síða) bauð okkur hinsvegar reiðhjólataxi far að fyrra bragði, sem okkur þótti frekar skrítið, þar sem við vorum þrjú, í mígandi rigningu og klassísku reykvísku veðri. Eftir að hafa spurt blessaðan drenginn hvort hann væri í góðu formi og hvort hann treysti sér í þetta þáðum við farið og sögðum honum hvert við vildum fara, það kom smá hik en svo hjólaði hann af stað, í rigningunni, kuldanum og uppí móti með þrjá íslendinga aftaná (í litlum vagni). Fyrir um 10 mín ferð bað manngreyið um 5 pund en fékk 10 fyrir metnað og vilja, ógleymanleg ferð.

Í fyrri hluta var minnst á www.tamarindrestaurant.com þar sem allt var fullt en hér kemur a.m.k. vefsíðan. Mottó þeirra er “Let us change your perception of indian cooking” afar spennandi staður og verður heimsóttur í næstu ferð til London með meiri bókunarfyrirvara. En um morguninn lá fyrir að vakna og borða lítið, því Restaurant Zuma var næsti viðkomustaður og eftir að hafa skoðað heimasíðuna (í fyrrihluta) og pantað borð með góðum fyrirvara, sem er ekkert mál, var óneitanlega svolítil spenna því við höfðum heyrt að þarna væri á ferðinni einn sá heitasti í dag, og viti menn það var svo.  Eftir að konan hafði séð um neðanjarðarlestir og kortalestur án nokkurra vandræða komum við að húsi sem lét ekki mikið yfir sér en þegar inn var komið var reyndin önnur, afar hlýr og nokkuð stór staður sem tekur yfir 100 gesti í sæti og var allt að fyllast, í laugardagshádegi, við töldum okkur heppin að hafa pantað borð.

Þarna blasti við okkur risavaxinn  sakebar með fleiri hundruðum tegunda og handan við hann viðamikið opið eldhús með um 12-14 matreiðslumönnum að matreiða ferskan fiskinn sem lá á klakabeði fyrir framan, afar traustvekjandi umhverfi. Eftir mikla lesningu komst ég aðeins að því að mig langaði í sake og ál, en þegar þjónninn kom að aðstoða okkur tilkynnti hann okkur að fyrrabragði að állinn væri hreinlega ekki nógu góður til framreiðslu svo við spurðum hann ráða.  Eftir að hann komst að því hvað við værum eiginlega að gera þarna, hvort við hefðum komið áður og í hvernig skapi við værum, ákvað hann matseðilinn og byrjaði á að færa okkur maki rúllu (bita) og heitt sake – hrein snilld, besta byrjun á brunch sem ég hefði getað hugsað mér, svona til að hrista hrollinn úr manni. Næst kom barrinn, léttmarineraður í chillí og engifer án þess að rífa nokkuð í og fullkomlega settur fram, svo var það sem kallað er “seared beef”, létteldað og ekki ósvipaður réttur og barrinn en bara kjöt, nautið var afar bragðmikið og meyrt og þurfti lítið til að fylgja því niður.

Einn af skemmtilegri réttum ferðarinnar var næst borinn fram í formi rúllu, “softshell crab” snöggristaður, vafinn, skorinn og á diskinn minn, alveg geggjað, klærnar stóðu út úr sitthvorum enda (kallað “spider roll”) og ekki var laust við að konan hafi verið hálfsmeyk við þennan rétt, þó vel sjóuð sé í svona vísindaferðum, og naut ég góðs af því, át nánast alla rúlluna einn og fór létt með enda heita sake-ið farið að virka. Næst kom spænski þjónninn okkar með vel legið rauðvín og aðra nautasteik, ég leit á hann og spurði, meira naut ? Já sagði hann það er bara svo svakalega gott að þið verðið bara, og fór svo. “Spicy beef” stóð undir meðmælum, ein sneið af fullkomnu oriental krydduðu nauti og ekkert annað, …frábært.

Nú var hlé, enda pundið farið að þyngjast, en eftir drykklanga stund kom hvítvín, ekki of kalt sem gerist orðið alltof oft, og þorskur bakaður í bananalaufi sem hafði verið penslaður með sætri hnetu dressingu og bakaður við mikinn hita svo að hann karmeleseraðist og stóð undir nafni “black cod” sætur, léttur, einfaldur og um fram allt bragðgóður réttur. En eftir allskonar smakk hér og þar var þetta orðið gott, bara svo við gætum staðið upp aftur. Zuma stendur uppúr sem frábær staður og næst verður hann heimsóttur að kveldi.

Næst var farið til Notting Hill á slóðir Hugh Grant og farið í bókabúðina www.booksforcooks.com, frábær lítil búð sem inniheldur allt sem hugur hins lesandi matreiðslumanns girnist. Þarna var fjárfest í áritaðri “Secrets” af konungi breskra veitingahúsa, skaphundsins Gordon Ramsey.  Fyrst visakortið var hvort eð er komið uppúr veskinu fékk “French Laundry” að fylgja með því hana hafði jú alltaf vantað í hilluna. Inni í Books for cooks er lítið kaffihús (8 sæti) þar sem er hægt að kíkja í varninginn og hafa það gott, frábær búð sem allir fagmenn verða að kíkka í.

Notting Hill-hverfið var afar skemmtileg gönguferð og Portobello Road markaðurinn var í fullum gangi og þar gerði ég góð jólainnkaup og dröslaði svo varningum inná hótel, www.stgiles.com , sem er staðsett á besta stað, nánast á Oxfordstreet í hjarta borgarinnar. Á hótelinu var slakað á, með gourmet vískíinu frá Harrods, fyrir næsta veitingastað sem var Shumi, opnaður fyrir um mánuði síðan og sagður vera að gera afar góða hluti. Þessi staður er þekktur fyrir að framreiða ítalskan mat að japönskum hætti. Þegar ég hringdi og pantaði borð var mér tjáð að ég fengi borð frá kl 19.00 – 21.00 og ekki mínútu lengur, þótt ég hikaði svolítið við þessar fréttir lét ég nú samt slag standa.

Þegar við mættum svo tilkynnti ég þjóninum um leið og ég var flottur á því og pantaði kampavín, að okkur langaði að smakka sem flest, en okkur væru aðeins gefnir tveir klukkutímar svo að hann yrði að taka á honum stóra sínum til þess að þetta tækist allt saman. Hann bað okkur að bíða á meðan hann talaði við yfirþjóninn og reddaði klukkutíma í viðbót, því hann taldi greinlega að þarna væru á ferð moldríkir túristar, …. við gerum víst öll mistök. Á Shumi er hugmyndin að allir deili réttunum sem eru reiddir fram á stórum diskum, gestirnir eru með tóma diska sem þeir raða svo á eftir eigin höfði, gerir máltíðina skemmtilegri og meira lifandi, allir að deila. Maturinn var klassískur ítalskur og verkfærin og framsetningin klassísk japönsk, afar spennandi og maður þurfti að hafa fyrir því að borða og deila.

Þarna sátum við með prjónana okkar og sömdum um hver ætti að fá síðasta ætiþistilinn og síðasta portobello sveppinn, nokkrir privat brandarar sem urðu til við þessar samningaviðræður og gerir minninguna kærkomna. Eftir um átta rétti og alla litaflóruna af borðvínum var komið að því að velja desertinn. Dömurnar pöntuðu sér “Pear crostata” og “Chocolat fondant”, en ég lét vaða á einn espresso eftir góða ábendingu frá kollega sem hafði borðað þarna stuttu áður og viti  menn, glæsilegasti espresso sem ég hef verslað, vodkaskot, konfektmoli og himneskt espresso.

Þetta steinlá og eftir nokkra drykki á barnum eftir máltíðina stóð ég mig að því að panta annan VIP espresso og kvartaði ekki. Eftir skósíðan reikning og nokkuð marga drykki á barnum báðum við þjóninn að panta leigubíl, og viti menn, þarna dugar ekki að hringja og sló því karlinn upp regnhlífinni og hljóp út, öslaði lengst niður eftir götunni öskrandi sem óður væri og nældi í einn, óþolandi leigubílar þarna í Bretlandi. Nú var bara að pakka niður, sofa stutt og hafa sig út á flugvöll, heima beið sver visareikningur og skósítt mise en place. London fær fullt hús stiga sem frábær viðkomustaður á langri helgi.

Hallgrímur Sigurðarson

[email protected]

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið