Markaðurinn
Höfðu eftirlit með 100 fyrirtækjum í haust – …mest þörf sé á eftirlitsheimsóknum í veitingageiranum…
„Sex af hverjum tíu sem við tölum við í vinnustaðaheimsóknum eru verkamenn af erlendum uppruna. Nánast undantekningalaust varða þau tilvik þar sem eitthvað er ekki í lagi þann hóp starfsmanna.“ Þetta segir Mirabela Blaga, fulltrúi vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar. Frá því Mirabela hóf störf í september, samhliða Adam Kára Helgasyni, fram til ársloka, voru tæplega 100 fyrirtæki heimsótt. Í þessum ferðum hafa eftirlitsfulltrúarnir rætt við 318 starfsmenn.
Mirabela segir að mest þörf sé á eftirlitsheimsóknum í veitingageiranum, byggingaiðnaði og svo ferðaþjónustu (svo sem á hótelum og hestaleigum). Þar sé því áherslan. Hún segir að sem betur fer fari margir atvinnurekendur að lögum, reglum og kjarasamningum þegar kemur að aðbúnaði starfsfólks. Þrátt fyrir það sé pottur brotinn víða. „Við sjáum mörg dæmi um að fólk fái ekki greidd laun í samræmi við kjarasamninga, yfirvinna er oft ekki greidd með réttum hætti auk þess sem fólk er snuðað um umsamdar launahækkanir,“ segir hún og bætir við að fólk af erlendum uppruna viti oft ekki hvaða stéttarfélagi það tilheyrir, hver réttindi þeirra eru og hvað það á að gera ef það lendir í ágreiningi við sinn vinnuveitanda. „Sumt af þessu fólki er hrætt við að tala við okkur.“
Skýr lagaheimild
Vinnustaðaheimsóknirnar byggja á lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, lög nr. 42 frá 2010. Í fjórðu grein segir meðal annars: „Eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði atvinnurekanda til að ganga úr skugga um að atvinnurekandi og starfsmenn hans starfi í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kjarasamninga. Skal eftirlitsfulltrúunum veittur aðgangur að vinnustöðum í þeim tilgangi.“ Eftirlitsfulltrúarnir gegna einnig veigamiklu hlutverki við eftirlit með kjörum erlendra starfsmanna, þ.m.t. kjörum erlendra starfsmanna starfsmannaleiga. Sé ekki trúnaðarmaður stéttarfélags á vinnustað getur eftirlitsfulltrúi á vegum stéttarfélags óskað eftir aðgangi að upplýsingum á grundvelli samkomulags ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.
Mirabela segir að tilgangur heimsóknanna sé að fylgjast með að þessum lögum sé framfylgt. Hún segir að fyrirtækin taki þeim í flestum tilfellum mjög vel og það gildi raunar um flest starfsfólk líka – enda séu heimsóknirnar til þess fallnar að passa upp á að fólk sé ekki hlunnfarið í vinnunni. „Við höfum séð að í þeim tilfellum þar sem við finnum að fólk er hrætt við að tala við okkur, þá er eitthvað að. Í þeim tilfellum reynum við að gefa okkur meiri tíma og ávinna okkur traust þeirra. Við reynum að fá fólkið með okkur í lið.“
Gott samstarf við aðrar stofnanir
Umfjöllun um grun um mansal og hagnýtingu starfsfólks í veitingageiranum hefur verið áberandi í fjölmiðlum í haust. Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar hefur komið að þeirri vinnu í góðu samstarfi við aðrar stofnanir. Mirabela bendir á að þeim beri að gera viðeigandi stofnunum viðvart ef grunur kviknar um lögbrot, til dæmis ef iðgjöld eru ekki greidd eða ef þau komast á snoðir um svarta atvinnustarfsemi. „Við eigum í góðu samstarfi við stofnanir sem gegna eftirlitshlutverki, svo sem lögreglu, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, Bjarkarhlíð, ASÍ og jafnvel barnaverndaryfirvöld,“ segir hún.
Mirabela segir að almennt sé staða vinnandi fólks góð á Íslandi. Vinnustaðaeftirlitið standi auk þess á traustum lagalegum grunni og heimildir til að afla gagna séu góðar. „Í heimsóknunum okkar getum við krafist launaseðla, tímaskýrslna og ýmissa annarra gagna til að geta lagt mat á það hvort réttindi félagsfólks séu virt,“ segir hún.
Árangurinn lætur ekki á sér standa. Nýlegt dæmi (sjá hér) er um að íhlutun vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar hafi skilað miklum umbótum fyrir starfsfólk fyrirtækis í byggingaiðnaði, án þess að til íhlutunar dómstóla hafi komið. Þar skiluðu ákvæði laga um keðjuábyrgð og skýr vilji yfirverktaka til að laga það sem aflaga hafði farið hjá undirverktaka, skýrum ávinningi.
Flestir með allt á hreinu
Mirabela nefnir annað nýlegt dæmi, þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu var heimsótt. Þar kom í ljós að starfsmenn hestaleigu voru hlunnfarnir með grófum hætti. Starfsfólkið fékk greidd óuppgefin laun sem voru auk þess langt undir lágmarkstöxtum. Engir launaseðlar bárust auk þess sem freklega var brotið gegn reglum um vinnutíma og aðbúnað. Þetta mál er nú á borði þar til bærra aðila.
Mirabela, sem er sjálf af rúmenskum uppruna, segir að sem betur fer séu svona dæmi ekki algeng. „Flestir eru sem betur fer með hlutina í lagi og koma vel fram við starfsfólkið sitt,“ segir hún og bætir við tungumálakunnáttan komi sér oft vel þar sem stór hluti starfsfólks í umræddum geirum séu af erlendum uppruna. Algengt er að starfsmenn í byggingaiðnaði séu austanverðri Evrópu en í veitingageiranum er nokkuð algengt að fólk komi alla leið frá Asíu til að vinna. Mirabela segir að aðbúnaður á Íslandi byrgi þessum hópi oft sýn. Dæmi séu um að þau sjái ekkert athugavert við aðbúnað og launakjör sem ekki eru samboðin íslenskum vinnumarkaði. „Menningarmunurinn er oft mjög mikill og það getur flækt málin. Stundum veit fólk ekki hvað stéttarfélag er,“ segir hún að lokum.
Hlutverk vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna og Eflingar:
- Að upplýsa starfsfólk um réttindi sín og hlutverk stéttarfélaga
- Að upplýsa og fræða atvinnurekendur um sínar skyldur.
- Að berjast gegn félagslegum undirboðum, hagnýtingu starfsfólks og mansali
- Að vinna með félagsfólki
Hvernig gerum við þetta:
- Förum á vinnustaði og ræðum við félagsfólk
- Skoðum launaseðla, samninga og vinnustaðaskírteini
- Dreifum fræðsluefni á mörgum tungumálum
- Upplýsum aðra eftirlitsaðila um málavexti eftir atvikum
Myndir: úr safni / Matvis.is
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Veitingastaðurinn Parma flytur – Leó Máni: Við höfum fengið mjög góðar móttökur….
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Matarupplifun í jólapakkann – Dineout gjafabréf gildir á yfir 300 veitingastaði
-
Uppskriftir4 dagar síðan
Ris a la mande ostakaka í glösum
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Nýr ítalskur veitingastaður opnar á Laugaveginum
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Ferskur kavíar er kominn í hús
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Ljúffengir léttkryddaðir andarleggir – fullkomin villibráð
-
Frétt2 dagar síðan
Afhendingartími eggja lengdur
-
Markaðurinn13 klukkustundir síðan
Expert opnar glænýja og endurbætta vefverslun – Þægindi fyrir veitingageirann