Smári Valtýr Sæbjörnsson
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli haldinn í þrettánda sinn – 7. til 11. ágúst á Dalvík
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í þrettánda sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.
Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður hlekkjuð saman neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00, föstudaginn 9. ágúst. Dagskráin er glæsileg. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru Matti Matt, Eyþór Ingi, Regína Ósk og Svenni, Kvartettinn Kvika, Logi Kjartansson, Gyða Jóhannesdóttir, Friðrik Ómar, karlaraddir og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2013 flytur biskup Íslands Séra Agnes M. Sigurðardóttir, 5.000 friðardúfublöðrum verður sleppt, flugeldum skotið, knúskorti og vináttuböndum dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina.
Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, er haldið í níunda sinn í ár og samtals hafa ríflega 160.000 gestir ritað nöfn sín í gestabækur á súpukvöldi. Í ár eru einn fleiri götur sem taka sig saman og eru með eina stóra súpustöð og þar af leiðandi er enn fleiri fjölskyldur sem taka þátt. Þá er gaman að segja frá því að einum stað verður súpa sem var valin í samkeppni starfsfólks Marels, þá er stafasúpa á einum stað og fiskinúðlusúpuréttur á öðrum svo að fátt eitt sé nefnt. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni.
Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00, opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst.
Í ár hefst dagskráin kl 10:30 með þyrlubjörgunarsýningu frá Landhelgisgæslunni í höfninni.
Það eru margir réttir á matseðlinum og nýjungar í bland við gamla góða rétti. Nú fáum við aftur 5 fermetra saltfiskpitsuna sem er bökuð í hverfissteypuofni Promens í samvinnu við Fiskidaginn mikla, Promens, Ektafisk og Greifann. Friðrik V. kemur með humarsoðsúpu, Grímur kokkur mætir með nýjan rétt og gamla góða plokkfiskinn og nú gerir hann tilraun með að afgreiða réttina á nýjan máta. Bjarni Ningsari og Nings stórfjölskyldan munu fylla stærsta súpupott landsins, 1.200 l af gómsætri fiskisúpu með austurlenskum blæ. Hinn frækni ’66 árgangur mun grilla þúsundir fiskborgara á stærsta langrilli landsins sem er 8 metra langt með 20 brennurum. Harðfiskurinn er á sínum stað hjá Sölku Fiskmiðlun, rækjudrottningarnar fá nýja stóra rækju til að vinna með. Sú rækja kemur frá Kanada. Á meistarstöðinni hjá sjálfum yfirkokki dagsins og hans félögum, Úlfari Eysteinssyni verður að finna hrefnu og bleikju sasimi. Kolla Páls og síldarhópurinn hennar bjóða uppá síld og rúgbrauð, íspinnar frá Samhentum og sjóðandi heitt Rúbín kaffi frá Kaffibrennslunni. Matseðillinn á almennu matarstöðvunum er nýr að hluta, fersk bleikja í ananaskarrý sósu, ferskir þorskhnakkar í sinnepshvítlaukssósu og gráðostarækjusalatið góða, Fiskurinn í boði Samherja, rækjur frá Dögun og Jóni Ægi, drykkir í boði Vífilfells, brauðið í boði Ömmubaksturs og sósur og meðlæti í boði Nettó.
Skemmtidagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Vegleg og fjölbreytt dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn og til viðbótar fjöldi fjölskylduvænna atriða vítt og breitt um hátíðarsvæðið. GG sjósport leyfir öllum að prófa áhugaverða tegund af Sit-On-Top kajökum, SEIGLA sýnir báta og fer í stuttar skemmtisiglingar, örsiglingar í boði Arctic Sea Tours ásamt því að Draumur og Máni verða til sýnis, fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar, Grímseyjarferjan til sýnis og heitt á könnunni og myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins, sólskoðun, happadrætti, verbúðartorgið vígt, stærsta fiskasýning landsins, hákarlaskurður, svo fátt eitt sé nefnt. Þá dansa, syngja og spila listamenn, syngja, teikna og sýna listir sýnar vítt og breytt um svæðið.
Í ár leggjum við enn meiri áherslu á fjölskylduhátíðina og að fjölskyldan komi saman og skemmti sér. Við munum bjóða upp á enn meira úrval en áður af skemmtiefni fyrir börnin. Börnin fá andlitsmálun og fiskifléttur í hárið, Brúðubíllinn kemur að vanda og verður með 3 sýningar yfir daginn—í boði KEA. Við fáum Skoppu, Svakara bakara og Lúsí í boði Samherja, Leikhópurinn Lotta mætir með Gilitrutt og hennar lið, Svalahoppukastalinn í boði Vífilfells. Í Allahúsinu verður skemmtilegt teikniverkefni. Þar geta börn á öllum aldri komið og teiknað fisk sem þau skíra og hann verður hengdur upp. Smátt og smátt verður til stór myndlistasýning eftir börn. Svo má ekki gleyma einni stærstu og mikilvægustu fjölskyldustundinni sem er að fjölskyldan getur snætt saman fjölbreytta rétti, fengið eins mikið af ís eins og hver vill, börnin fá nammi dagsins, blöðrur og skoðað áhugaverðustu fiskasýningu landsins, veitt saman á bryggjunni, hlustað á tónlist saman og margt fleira.
Fréttir af öðrum viðburðum í tengslum við Fiskidaginn mikla 2013
Fjölskylduganga fram að Kofa – Dísa í Dalakofanum
Fiskidagurinn mikli mun líkt og undanfarin ár koma upp sérstakri gestabók í kofanum sem stendur í Böggvisstaðadal. Þeir sem skrifa í gestabókina lenda í potti og á aðalsviði Fiskidagsins mikla verða veglegir vinningar dregnir út. Kofinn stendur á tóftarbrotum smalakofa sem þar stóð til skamms tíma. Sagnir herma að þar hafi Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ort kvæðið um Dísu í dalakofanum. Lagt verður upp frá Dalvíkurkirkju kl. 16:00 miðvikudaginn 7. ágúst og mun slökkviliðstjórinn Vilhelm Hallgrímsson leiða hópinn. Gangan tekur rúmar þrjár klukkustundir, fram og til baka og er öllum fær.
Samherji 30 ára – Freddie Mercury Show og flugeldasýning
Laugardagskvöldið 10. ágúst kl. 22:00 mun Samherji bjóða til kvölddagskrár af betri gerðinni í tilefni af 30 ára afmæli sínu. Fyrir neðan hafnarbakkann býður Samherji uppá hvorki meira né minna en Freddie Mercury Showið sem var flutt í Eldborgarsal Hörpu og í Hofi við góðan orðstír síðasta vetur. Á þriðja tug söngvara og hljóðfæraleikara tekur þátt í sýningunni og þar á meðal heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Dagskráin endar síðan með risaflugeldasýningu sem að björgunarsveitin á Dalvík setur upp og sýningin er einnig í boði Samherja.
Myndasýning Samherja vegna 30 ára afmælis
Í tilefni af 30 ára afmælis Samherja verður Samherji með myndasýningu úr starfi Samherja í gegnum tíðina. Sýningin verður í Salthúsinu, húsinu með stóra Fiskidagsmálverkinu og verður opin á Laugardeginum 10. gúst milli kl 11:00 og 17:00. Allir velkomnir.
Risamillilandaskip 100 metra langt og tekur 503 gámaeiningar
M/v Pioneer Bay, millilandaskip Samskipa er áætlað inn á Dalvík fimmtudaginn 8. ágúst (ef veður og aðstæður leyfa). Skipið mun koma með innflutning og strandflutning til Dalvíkur og taka vörur ætlaðar á markað á erlendri grundu. M.a annars verður vörum frá Promens skipað út. Engin óviðkomandi umferð verður leyfð um bryggjuna á þeim tíma sem skipið verður í höfn. En við bendum öllum á að upplagt er að skoða skipið frá suðurgarði og fylgjast með úr fjarlægð frá kaupfélagsbrekkunni.
Gefstu aldrei upp, fyrirlestur
Í fyrirlestrinum Gefstu aldrei upp! segir Dalvíkingurinn ungi Kristján Guðmundsson frá sögu sinni þegar að hann var nær dauða en lífi eftir að hafa lent í alvarlegu vinnuslysi við löndum í maí árið 2011. Kristján greinir ítarlega frá fyrsta degi slyssins, allt til dagsins í dag og hversu langt er hægt að komast á jákvæðninni einni. Átakanleg frásögn en jafnframt stútfull af húmor sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Fyrirlesturinn verður í Bergi Menningarhúsi fimmtudaginn 8. Ágúst kl 17:00 Allir velkomnir. Frítt inn.
Fiskisúpu uppskriftasamkeppni Marels
Það var súpa með dulnefninu Sulla sem vann bráðskemmtilega fiskisúpu uppskriftasamkeppni sem var haldin meðal starfsmanna Marel. Á bakvið dulnefnið reyndist vera nafn Elínar Þorbergsdóttur sem er kokkurinn í eldhúsi Marels. Þessi keppni var haldin í tilefni af Fiskisúpukvöldinu mikla. Þessi frábæra súpa verður í boði á fiskisúpukvöldinu ofarlega í Mímisveginu, nánar tiltekið í garði starfsmanns Marels á Dalvík Hauks Gunnarssonar og Rúnu spúsu hans.
Gummi og dvergurinn úrilli, útgáfuteiti
Dagbjört Ásgeirsdóttir sem gaf út barnabókina Gummi fer á veiðar á s.l. ári er komin með aðra bók í sömu seríu sú heitir Gummi og dvergurinn úrilli. Föstudaginn 9. ágúst kl. 11:30 verður útgáfuteiti fyrir börn í Bókasafni Dalvíkurbyggðar í Bergi í tilefni af útgáfu bókarinnar. Þar mun Dagbjört lesa upp úr bókinni fyrir börn á öllum aldri.
Samherji og Fiskidagurinn bjóða börnum að skapa nýja fiskiveröld
Náttúran hefur skapað marga fiskana og í hafinu leynast þúsundir tegunda. Á Fiskidaginn mikla verður börnum boðið að skapa og nota hugmyndaflugið til að búa til enn fleiri fiska í Allahúsinu. Öll börn eru hvött til að teikna fisk, gefa honum nafn og hengja hann upp. Þegar líður á daginn verður orðinn til fiskasýning sem fer stækkandi. Samherji, Fiskidagurinn og börnin bjóða alla velkomna á sýninguna.
Dalpay opið hús
Fimmtudaginn 8. ágúst verður Dalpay á Dalvík með opið hús fyrir gesti og gangandi milli kl. 13:00 og 15:00. Þar geta allir komið og kynnt sér þetta áhugaverða fyrirtæki sem að teygir anga sína víða um heiminn.
Brotið heimildarmynd
Miðvikudaginn 7. ágúst verður um 20 mínútna brot úr heimildarmyndinni Brotið Eftir Hauk Sigvaldason og Maríu Jónsdóttur frá Dalvík ásamt Stefáni Loftssyni kvikmyndatökumanni. Myndin fjallar um sjóslysin sem áttu sér stað 9. Apríl 1963. Í myndinni er fjallað um bátana frá Dalvík sem fórust, þá sem komu að björgunaraðgerðum og þá sem eftir stóðu, dáðakonurnar, ekkjurnar með ungu börnin. Sýningin hefst kl. 21:00 í Bergi. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir en tekið er við frjálsum framlögum og einnig er hægt að skrá sig fyrir eintaki af myndinni.
Bátasmiðjan Seigla sérstakur gestur Fiskidagsins mikla í ár
Seigla frá Akureyri sem m.a. smíðar báta sem heita Seigur, verður gestur Fiskidagsins mikla í ár. Seigla mun bæði sýna báta og bjóða í stuttar skemmtisiglingar.
Bryggjusöngurinn á sviðinu um daginn
Verður með örlítið breyttu sniði í ár vegna kvölddagskrárinnar. En nú verður söngurinn kl. 16:30 í enda dagskrárinnar á sviðinu á hátíðarsvæðinu. Það verður Matti Matt ásamt frðu﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽﷽ur Matti Matt nu á ha´asíðu og mjög áhugaverðu föruneyti. Bryggjusöngurinn verður í samvinnu við Símann og það verður hægt að nálgast textana á M síðum Símans.
Logi og ljúfu píanótónarnir
Logi Kjartansson barnabarn Gests heitins Hjörleifssonar kórstjóra og tónlistarkennara. Leikur á píanó á Vináttukeðjusviðinu frá kl. 17:40 meðan að gestir eru að koma sér fyrir, dagskráin hefst kl 18:00. Logi mun einnig leika fingrum fram í Bergi eftir klukkan 17:00 á laugardeginum. Það verður opið fram á kaffihúsið, allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Dalvík/Reynir – Grótta
Spennandi leikur verður í íslandsmótinu 2 deild í knattspyrnu fimmtudaginn 8. ágúst kl. 18:00, þá keppa heimamenn í Dalvík/Reyni við Gróttu. Allir á völlinn.
Eurovisionþorpsbræðingur
Á sviðinu á Fiskidaginn mikla um miðjan daginn fáum við örlitla Eurovision stemningu að sumri. Þrír Dalvískir Eurovisionfarar, Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi flytja sín lög, að venju er Regína Ósk með Friðriki Ómari í „This is my life“ og síðan er það rúsínan í pylsuendanum, Eurovision snillingurinn Eiríkur Hauksson sem tekur líka eitt lag.
Málverkasýning Össur Mohr í Bergi, opnun
Kl. 17:00 miðvikudaginn 7. ágúst opnar Færeyski listmálarinn Össur Mohr myndlistarsýningu í menningarhúsinu Bergi. Össur Mohr hefur haldið sýningar víð um Evrópu. Verkin eru olíumálverk og fær hann innblástur af húsum og manneskjum. Opnunin stendur til kl. 20:00 en sýningunni lýkur 27. ágúst.
Vígsluathöfn – Kristjánsbúrið
Á Fiskidaginn mikla verður Kristjánsbúrið vígt og blessað og afhent Valeska ehf. á Dalvík. Búrið er fyrsta vottaða löndunarbúrið og er til notkunar við löndun fiskafla. Búrið er grind sem hangir í kranavír. Í grindina eru sett fiskikör og þau þannig hífð upp úr fiskilestinni. Öryggisgrind er utan um fiskikörin til þess að koma í veg fyrir að þau getið losnað og fallið niður við löndun. Valeska ehf. sér m.a. um löndun úr skipum Samherja í Eyjafirði. Kristjánsbúrið er nefnt í höfuðið á Dalvíkingnum Kristjáni Guðmundssyni. Hann slasaðist mjög alvarlega þegar hann varð undir þungum fiskikörum við löndun á Dalvík fyrir tveimur árum. Kristján hefur náð ótrúlegum bata. Vélsmiðjan Hamar ehf. hefur í samvinnu við Valeska og Samherja þróað og smíðað búrið og hefur sótt um einkaleyfi á hugmyndinni.
Kvika, knús og kelerí – Frumflutningur
Á vináttukeðjunni föstudaginn 9. ágúst mun kvartettinn Kvika frumflytja nýtt Fiskidagslag og texta eftir Hafstein Reykjalín sem hann færði Fiskideginum mikla á vordögum. Lagið heitir Fiskidagsins knús og kelerí. Kvartettinn Kvika er ungur sönghópur, stofnaður haustið 2011 og eru meðlimir hans þau Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir alt, Pétur Húni Björnsson tenór og Jón Svavar Jósefsson bassi. Kvika mun einnig verða með sumartónleika í Bergi að kvöldi Fiskidagsins mikla 10. ágúst og hefjast tónleikarnir kl. 20:30. Miðasala við innganginn. Söngflokkurinn Kvika syngur allskonar tónlist, með eða án undirleiks, allt frá þjóðlögum til poppslagara, og allt þar á milli.
Sólskoðun
Sólskoðun á verður á Fiskidaginn mikla frá kl 13:00, ef skýin fela ekki sólina af illgirni. Það er stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnu-Odda félagið sem að standa að skoðuninni. Umsjón með þessu verkefni er í höndum Ottós Elíassonar.
Verbúðartorgið vígt
Á Fiskidaginn mikla verður nýtt torg milli gömlu verbúðanna vígt og þar hefur verið komið fyrir minningarsteininum vegna sjóslysanna 1963 sem og vatnshananum sem Jón Ægir Jóhannsson gaf íbúum Dalvíkurbyggðar á Fiskidaginn mikla 2012.
Kajakar
GG sjósport heimsækir Fiskidaginn mikla í ár líkt og á síðasta ári. Hjá þeim fá gestir dagsins að prófa hina einstöku Sit-On-Top kajaka milli kl. 11:00 og 17:00 á Fiskideginum mikla. Þessir bátar hafa slegið í gegn út um allan heim. Bátarnir eru afar stöðugir en þú situr ofan á bátnum. GG sjósport verður með aðstöðu í horninu við ferjubryggjuna. Þetta tækifæri ætti enginn að láta framhjá sér fara. Nánar um bátana og fleira á heimasíðu GG sjósports. www.ggsjosport.is
Hagleikssmiðja í Fiskidagsvikunni – Gestastofa Sútarans á Dalvík
Gestastofa sútarans frá Sauðárkróki er staðsett í einu sútunarverksmiðjunni í Evrópu sem framleiðir leður úr fiskroði. Með gestastofunni er ferðamönnum og almenningi opnaður aðgangur að sútunarverksmiðju og afurðum hennar á óvenjulegan hátt. Fiskleður hefur heillað hönnuði heimsþekktra vörumerkja eins og Prada, Dior og Nike. Nú hefur verið sett upp Hagleikssmiðja í salnum sunnan við Klemmuna í Hafnarbraut. Opið frá fimmtudeginum 8. ágúst til laugardagsins 10. ágúst milli kl. 11:00 og 18:00.
Messa í Dalvíkurkirkju
Föstudaginn 9. ágúst kl. 17:00 munu biskup Íslands séra Agnes M Sigurðardóttir og séra Magnús G. Gunnarsson þjóna fyrir altari.
Fiskasýningin
Skarphéðinn Ásbjörnsson áhugamaður um fiska er veiðimaður mikill og hefur staðið fyrir í afar áhugaverðri fiskasýningu í ellefu ár á Fiskidaginn mikla í samstarfi við heimafólk. Þar eru sýndir ferskir fiskar á ís. Fiskasýningin í ár hefur að geyma um 200 tegundir. Þess má geta að hákarlinn á sýningunni verður skorinn kl. 15:00 þann 10. ágúst og er stjórn þeirrar athafnar í höndum feðganna Reimars Þorleifssonar og Gunnar Reimarssonar.
Gilitrutt í brekkunni hjá kirkjunni
Leikhópurinn Lotta sýnir á Fiskidaginn mikla kl. 17:30 í kirkjubrekkunni, glænýtt íslenskt leikrit um Gilitrutt. Eins munum við sjá atriði úr leikritinu á aðalsviðinu um hádegisbilið á Fiskidaginn mikla. Miðaverð er kr. 1.500 og eru miðar seldir á staðnum.
Fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar
Fornbíladeild bílaklúbbs Akureyrar verður sérstakur gestur Fiskidagsins í ár eins og á s.l. ári nema að nú verða bílarnir enn fleiri. Á Fiskidaginn mikla 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 mun deildin sýna fína, flotta, fornfræga fægða fáka ef fallegri gerðinni.
Danshópurinn Vefarinn
Danshópurinn Vefarinn hefur heimsótt Fiskidaginn mikla reglulega við góðan orðstír og ávallt sett skemmtilegan og þjóðlegan svip á hátíðina. Í ár munu þau sýna dansa víðsvegar um hátíðarsvæði Fiskidagsins mikla milli kl. 11:00 og 17:00 á hátíðarsvæðinu.
Húsabakki í Svarfaðardal
Á Húsabakka er hægt að fá gistingu í uppábúnum rúmum og í svefnpokaplássi, þar er líka einstaklega fjölskylduvænt tjaldsvæði. Sýningin Friðland fuglanna er opin alla daga frá 12 – 17. Merktir fræðslustígar frá Húsabakka niður í Friðland Svardæla, Tásustígur Henríettu, fyrsti tásustígur Íslands, og fótalaug Bakkabræðra,
Fjölskylduratleikur Fiskidagsins mikla 2013
Fjölskylduratleikur Fiskidagsins mikla er í gangi níunda sumarið í röð. Þátttaka er að venju öllum heimil og er ókeypis. Fjölskyldan fær sér göngutúr um Dalvík, leysir létta þraut í leiðinni og á möguleika á að vinna glæsilega vinninga. Fyrsti vinningur er úrvalsfiskur, að verðmæti 100.000 kr frá Samherja og Landflutningar Samskip flytja vinninginn heim að dyrum. 2. – 5. vinningur eru ferðakistlar frá Promens,sem munu innihalda sýnishorn af matseðli Fiskidagsins mikla 2013 og fleira að verðmæti 30.000 hver. Þátttökuseðlar liggja frammi á helstu þjónustustöðum á Dalvík. Dregið verður úr réttum lausnum á Fiskidaginn mikla, laugardaginn 10. ágúst. ATH. vinningshafar verða að vera á staðnum þegar dregið er.
Fosshótel – Morgunverðarhlaðborð og gleði í bakgarðinum
Fosshótel hefur að venju opið í sitt margrómaða morgunverðarhlaðborð frá föstudegi til sunnudags frá kl. 8:00–11:00. Verð á mann er 1.800 kr. Föstudags- og laugardagskvöld á Fosshótel. Fosshótel opnar bakgarðinn fyrir gestum og gangandi. Pallettusófar og kósýheit.
Júlía og band sjá um að skemmta gestum frá kl. 21:30-23:30 föstudagskvöld og frá kl. 20:00–22:00 laugardagskvöld. Gleði og gaman. Allir velkomnir.
Hundabann á hátíðarsvæði – Sölubann
Undangengin tvö ár höfum haft hundabann á hátíðarsvæðinu, viðbrögðin við því hafa verkið mjög góð jafnt frá hundaeigendum og þeim sem ekki eru með hund. Það er ljóst að það er komið til að vera. Það er einnig stranglega bannað að selja vöru merkta Fiskideginum mikla með einum eða öðrum hætti. Í upphafi þegar lagt var af stað í þetta ævintýri sem að Fiskidagurinn mikli sannarlega er, voru teknar ákvarðanir um hvernig hátíð við vildum hafa og líka hvað við vildum ekki hafa, t.d. ýmsa aðila sem koma með leiktæki, sölubása og fleira sem kostar mjög mikla peninga. Við höfum alltaf verið að hugsa um að minnka áreitið og peningaplokkið fyrir fjölskylduna. Á hverju ári fáum við gríðarlega margar fyrirspurnir og beiðnir frá aðilum sem vilja koma og selja vöru eða þjónustu. Við erum stoltir af því hve vel okkur hefur tekist að hafa hátíðina okkar nokkurn veginn fría við ofantalið og það er klárt að þetta er hluti af jákvæðri ímynd hennar. Það er sölubann í bænum nema á auglýstum markaði sem er á vegum Dalvíkurbyggðar á laugardeginum milli kl. 11:00 og 17:00 og á hann þarf að skrá sig. Íbúar geta selt á lóðinni hjá sér, en það þarf að fara eftir reglum m.a. um matvæli. Við beinum því til þeirra að fara eftir reglum, huga vel að opnunartímanum og að salan skapi ekki ónæði fyrir nágrannana og eða mikið áreiti fyrir gesti. Einnig viljum við beina því til íbúa að leyfa ekki hverjum sem er að koma og selja á lóðinni hjá sér.
Götunöfnin breytast – Í ár verður nafnabreytingin öðruvísi
Fiskidagsvikuna breytast götunöfnin á Dalvík. Undanfarin ár hefur fyrri hluta nafnanna verið breytt í fiskanafn. En í ár hvílum við þá hugmynd og gerum tilraun með ný nöfn.
Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla, dagana 7. til 11. ágúst 2013 á Dalvík
Matseðillinn
Stærsta pítsa landsins, stærsti súpupottur landsins, stærsta grill landsins. Humarsoðsúpa, austurlensk súpa, fiskborgarinn g plokkfiskur, harðfiskur, bleikja í ananaskarrýsósu, plokkfiskur, harðfiskur, kanadískar risarækjur, nýr Grímsfiskiréttur, plokkfiskur, síld og rúgbrauð, þorskhnakkar í sinnepshvítlauks sósu, sasimi, og gráðostarækjusalatið góða kemur aftur.Vináttukeðjan
Setning hátíðarinnar, vináttubönd, nýtt lag frumflutt, risaknús, 5.000 friðarblöðrur, kærleikur, tónlist o.fl.Fiskisúpukvöldið
Götur taka sig saman, vinningssúpa Marel, fiskinúðlur, austurlensk súpa, yndisleg fjölskyldustund þar sem gestrisnin er í fyrirrúmi.Hátíðarsviðið
Unga og upprennandi fólkið okkar, Eurovison, bryggjusöngur um miðjan dag, vígsluathöfn, útgáfuteiti vegna barnabókar, barnaefni, hljómsveitir, verðlaunaafhendingar, söngflokkar og kórar.Fiskidagsvikan
Fiskidagsgangan, bærinn mikið skreyttur, knattspyrna, fyrirlestrar, Fiskidagsmótið í golfi, málverkasýning, Pub Quiz, tónleikar, leiksýningar, útskipun, opið hús, markaðir, hvalaskoðun, útreiðatúrar, söfn, heimildarmynd frumsýnd, messa, Zumba, kaffisala og ratleikur Fiskidagsins mikla.Annað
Þyrla landhelgisgæslunnar, stærsta fiskasýning landsins,Brúðubíllinn, Verbúðatorgið vígt, siglingar, Gilitrutt á ferðinni, fornbílar, fiskifléttur, kajakar, afmælisdagskrá Samherja, gestir frá Matís, harmonikkuleikarar, Bakkabræður á sveimi, gönguferðir, andlitsmálun, fiskateikningar, bátar til sýnis, danshópurinn Vefarinn,tónleikar, knús og kelerí o.fl.
Sýningar í tengslum við Fiskidaginn mikla
- Myndasýning í tilefni af 30 ára afmæli Samherja. Hafnarsvæði.
- Friðland fuglanna: Öðruvísi og áhugaverð sýning að Húsabakka.
- Málverkasýning í Bergi Færeyingurinn Össur Mohr.
- Gestastofa Sútarans: Sýning í salnum sunnan við Klemmuna Hafnarbraut.
- Leikhópurinn Lotta sýnir Gilitrutt í kirkjubrekkunni.
- Grænlandssýning í Byggðasafninu Hvoli
- Málverk eftir Jolontu til sýnis á Gregors Pub
- Brúðubíllinn með 3 sýningar á Fiskidaginn mikla á hafnarsvæðinu.
- Stærsta fiskasýningu í Evrópu með yfir 200 tegundur af ferskum fiski.
- Flugeldasýning á hafnargarðinum að kvöldi Fiskidagsins mikla í boði Samherja.
- Brotið, heimildarmynd um sjóslysin 1963. Í Bergi
- Svo má segja að stærsta sýningin sé skrautsýning bæjarbúa við heimahús.
Tónleikar í tengslum við Fiskidaginn mikla
- Disney lögin. Þór Breiðfjörð og Valgerður Guðna í Bergi.
- Kvartettinn Kvika í Bergi.
- Júlía Árna ásamt hljósmveit í Bergi
- Logi Kjartansson ljúfir píanótónar í Bergi.
- Lifandi tónlist í Húsasmiðju/Samkaupa Úrvals grillinu.
- Á annað hundrað tónlistarmenn á aðalsviði Fiskidagsiins.
- Freddie Mercury sýningin á hafnarsvæðinu.
- Lifandi tónlist í bakgarði Fosshótels.
Annað
- Fyrirlestur „Gefstu aldrei upp“ Í Bergi.
- Fiskidagsgönguvika, Bæjarfjall, Karlsárfjall og húsarölt.
- Leiklistar og dansnámskeið fyrir 9–16 ára.
- Dalvík/Reynir – Grótta í 2. Deild í knattspyrnu.
- Stjörnuleikur í knattspyrnu.
- Útgáfuteiti vegna barnabókar.
- Opið hús hjá Dalpay.
- Markaðir.
- Messa í Dalvíkurkirkju – Biskup Íslands þjónar fyrir altari.
Fjölskyldan SAMAN á bæjarhátíðum söfnum góðum minningum
Hugleiðingar frá skipuleggjendum fjölskylduhátíðarinnar Fiskidagsins mikla 2013
Viljum bregðast við áður en að þetta verður að vandamáli
Undangengin tvö ár hefur verið starfandi forvarnarnefnd á vegum Fiskidagsins mikla og Dalvíkurbyggðar. Nefndin hefur m.a. átt samvinnu með þjónustu og veitingaaðilum um styttri opnunartíma á nóttunni, sendi foreldrum á Eyjafjarðarsvæðinu bréf þar sem þeir eru m.a. hvattir til að virða útivistarreglur og að senda ekki börn undir 18 ára aldri ein á útihátíðir. Hvatning til fjölskyldunnar að koma SAMAN og skemmta sér saman. Unnið að aukinni gæslu á tjaldstæðunum, átt samvinnu með SAMAN hópnum, skipuleggjendum og fleirum.
Dagskrá flestra hátíða gengur vel yfir daginn en vandamálin snúa flest að næturlífinu og umgengni, við viljum reyna að fyrirbyggja að það verði aukning þeirra sem mæta á bæjarhátíðir til þess eins að taka þátt í eða búa til næturlíf sem er ekki í anda hátíðanna. Það er sammerkt með þeim sem tilheyra þessum hópi að þeir taka ekki nokkurn þátt í dagskrá sem er yfir daginn og er skipulögð fyrir alla fjölskylduna—saman.
Gestir og bæjarbúar njóta fjölskylduvænnar dagskrár Fiskidagsins mikla yfir daginn og fram undir miðnætti. Njóta síðan samvista við gesti og gangandi heimavið eða á tjaldstæðunum og aðrir vilja kíkja í miðbæinn og hitta vini og gamla kunningja og fara síðan á skikkanlegum tíma að sofa. Íbúar Dalvíkurbyggðar sem að allflestir koma að hátíðinni með einum eða öðrum hætti og aðrir velunnarar Fiskidagsins mikla vilja vernda hátíðina, þannig að við getum áfram boðið öllum landsmönnum til okkar, til að njóta matar og skemmtunar. Þess má geta að það eru yfir 300 sjálfboðaliðar sem leggja hátíðinni lið sér og öðrum til ánægju og yndisauka.
Fiskidagsboðorðin 2013
Við höfum sett saman 10 einföld Fiskidagsboðorð og það má segja að það að fylgja boðorðunum sé eina gjaldið sem þarf að greiða til Fiskidagsins mikla og íbúa.
- Við göngum vel um.
- Við virðum hvíldartímann.
- Við virðum náungann og umhverfið.
- Við verjum Fiskdeginum mikla saman.
- Við virðum hvert annað og eigur annarra.
- Við virðum útivistarreglur unglinga og barna.
- Við erum dugleg að knúsa hvert annað.
- Við beygjum okkur 2 sinnum á dag eftir rusli.
- Við förum hóflega með áfengi og virðum landslög.
- Við hjálpumst að við að halda Fiskidagsboðorðin.
Í samfélags- og mannréttindaráði Akureyrarbæjar voru umræður árið 2011 um bæjarhátíðir. Þar var m.a. rætt um ábyrgð foreldra á ólögráða ungmennum í tengslum við bæjarhátíðir og sumarskemmtanir. Nefndin bókaði varnaðarorð við bæjarhátíðum hvers konar. Forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla tekur undir þessa bókun ásamt því að félagsmálaráð Dalvíkurbyggðar tók undir ofangreinda bókun.
„Samfélags- og mannréttindaráð hvetur foreldra til að axla ábyrgð á uppeldishlutverki sínu og gefa ekki ólögráða ungmennum leyfi til að sækja skemmtanir og viðburði, jafnvel í önnur sveitarfélög, án þess að ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi þeirra“
- Aukið dagskrárefni fyrir börnin.
- Enginn dansleikur.
- Styttri opnunartími þjónustu og veitingaaðila á nóttunni.
- Sendum ekki ólögráða ungmenni ein á bæjarhátíðir.
- 18 ára og yngri mega ekki tjalda nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum. Það eru ekki viðmið heldur lög.
Það er von aðstandenda Fiskidagsins mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldunni og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti og leggja aðstandendur mikla áherslu á að íbúar eða gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega.
Matseðilinn, dagskrá, aðrar almennar upplýsingar og fréttir má skoða á heimasíðu dagsins www.fiskidagur.muna.is.
Smellið hér til að skoða matseðilinn.
Fréttatilkynning
Myndir: HSH
Taggaðu okkur á Twitter og Instagram: #veitingageirinn
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun7 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Frétt6 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Starfsmannavelta1 dagur síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður