Vertu memm

Keppni

Úrslit í undankeppninni fyrir Bragð Frakklands 2014

Birting:

þann

Taste of France

Þrír íslenskir matreiðslumenn elduðu sig inn í hug og hjörtu dómnefndar í dag í matreiðslukeppninni Bragð Frakklands 2014.  Dómnefnd telur að þeim Jónasi Oddi Björnssyni, Óla Má Erlingssyni og Stefáni Eli Stefánssyni, hafi tekist einstaklega vel að bræða saman íslenska og franska matargerðarlist.

Þeir eru því komnir áfram í úrslitakeppnina á miðvikudaginn og eiga von um að vinna ferð á hina víðfrægu Bocuse d´Or matreiðslukeppni í Frakklandi í janúar.  Bragð Frakklands er haldin á Gallery Restaurant Hótel Holt og er samstarfsverkefni veitingastaðarins, franska sendiráðsins á Íslandi, Klúbbs matreiðslumeistara og Kokkalandsliðsins.

Allt hráefnið er sérvalið og flutt inn frá Frakklandi fyrir þessa keppni og yfirdómarinn tekur sér frí frá Michelin matreiðslu og kemur hingað sérstaklega til að dæma í Bragð Frakklands 2014. Samhliða útslitakeppninni á miðvikudaginn verður kynning á frönskum mat og vínum á Hótel Holti frá klukkan 15:00 til 18:00 og áhugamenn um matargerðarlist og vín eru velkomnir.

Reiknað er með því að dómnefnd taki sér allt að sólarhring til að meta keppendur í lokakeppninni og úrslit verða því tilkynnt á fimmtudaginn.

Eins og greint var frá hér á undan þá urðu úrslitin í undankeppninni fyrir Bragð Frakklands 2014 eftirfarandi:

  • Jónas Oddur Björnsson matreiðslumaður á Vox.
  • Óli Már Erlingsson matreiðslumaður á Fiskfélaginu.
  • Stefán Eli Stefánsson matreiðslumaður á Perlunni.

Um keppnina:

Franska sendiráðið á Íslandi, Gallery Restaurant Hótel Holt, Klúbbur matreiðslumeistara og Kokkalandsliðið standa að þessari keppni. Markmiðið er að kynna þar franskt hráefni og franskar matarhefðir í samspili við íslenska matargerðarlist og fagmennsku.

Undanúrslit voru haldin í dag 12. maí en úrslitakeppnin fer fram 14. maí. Úrslitin liggja fyrir u.þ.b. sólarhring síðar.

Keppendur þurfa að elda rétti úr fyrirfram ákveðnu frönsku gæðahráefni. Réttirnir mega vera byggðir á klassískri franskri hefð en þurfa þó að vera með íslensku ívafi og framsettir á nútímalegan og skapandi máta.

Keppendur:
Keppendur koma frá mörgum af bestu veitingastöðum landsins.

Undankeppnin:
Í undankeppninni 12. maí máttu keppendur koma undirbúnir en höfðu svo eina klukkustund til að stilla upp og bera fram aðalrétt fyrir fimm manns.

Í úrslitakeppninni 14. maí keppa þrír stigahæstu keppendurnir úr undankeppninni. Þeir mega koma undirbúnir til leiks en hafa tvær klukkustundir til að framreiða þriggja rétta máltíð fyrir fimm manns. Úrslitakeppnin fer fram klukkan 15.00 til 18.00.

Á meðan úrslitakeppnin stendur yfir býðst gestum og gangandi að bragða á frábæru frönsku hráefni á Hótel Holti. Að auki mun franski vínframleiðandinn Vincent Dugue frá Chateau de La Ragotière í Muscadet (Loire héraðinu) kynna frönsk úrvalsvín.

Hráefnið:
Keppendur fá frábært ferskt hráefni til að vinna með. Það er flutt sérstaklega inn frá Frakklandi fyrir keppnina.

Dómnefnd:
Dómarar í undankeppninni eru þeir Viktor Örn Andrésson, matreiðslumaður ársins og matreiðslumaður Norðurlanda, Steinn Óskar Sigurðsson og Jóhannes Steinn Jóhannesson.

Yfirdómari keppninnar er franski Michelin matreiðslumeistarinn Marc de Passorio. Í úrslitunum nýtur hann liðsinnis íslensku verðlaunakokkana Sturlu Birgissonar og Hákonar Más Örvarssonar.

Verðlaunin:
Sigurvegara matreiðslukeppninnar Bragð Frakklands verður boðið á Bocuse d´Or matreiðslukeppnina í janúar á næsta ári þar sem Sigurður Helgason keppir fyrir Íslands hönd. Að auki fær sigurvegarinn að elda í heila viku undir handleiðslu meistarakokka á Michelin veitingastað í Alsace í Frakklandi.

Umsjónarmenn keppninnar eru þeir Steinn Óskar Sigurðsson og Friðgeir Ingi Eiríksson.

 

Myndir: aðsendar

/Smári

twitter og instagram icon

 

 

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið