Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Undirbúningur á fullu fyrir fiskiveisluna – Friðrik V.: „Ýktar biðraðasögur, ég tók tímann með skeiðklukku á síðasta Fiskidegi…“ – Myndir og vídeó

Birting:

þann

Fiskidagurinn Mikli 2023

Friðrik, Júlli og Adda á hafnarsvæðinu í morgun. Júlli að sjálfsögðu símanum.

„Sjávarfangið sem við bjóðum gestum okkar á Fiskideginum mikla er allt ferskt og þegar ég segi FERSKT þá meina ég það bókstaflega. Fiskurinn er ferskari en gerist og gengur á mörgum matsölustöðum. Flest fiskmeti er bókstaflega dregið beint úr sjó eða eldiskerjum og flakað og snyrt til afhendingar á matarstöðvunum á laugardaginn.“

Friðrik V Hraunfjörð matreiðslumeistari, þekktari sem Friðrik V. (fimmti) manna á meðal, er afar sannfærandi. Nú skal það fært til bókar í votta viðurvist að fullyrðingar um ferskleikann eru hvergi orðum auknar.

Friðrik er yfirkokkur Fiskidagsins mikla og aðstoðarkokkinn náði hann í sín megin við lækinn, eiginkonu sína, Arnrúnu Maríu Magnúsdóttur – Öddu. Það var upplifun mikil að vera fluga á vegg nálægt þeim í dag, að morgni miðvikudags 9. ágúst, þegar farið var yfir stöðuna og síðustu lausu endarnir í skipulaginu festir eftir því sem unnt var.

Fiskidagurinn Mikli 2023

Legið yfir vörunótum og flutningsskýrslum. Yfirkokkurinn og aðstoðarkokkurinn í þungum þönkum.

Og þvílíkt skipulag! Adda heldur bókhald yfir allt hráefni sem hver og ein matarstöð á svæðinu þarf til að seðja hungur Fiskidagsgesta og listarnir eru uppfærðir í ljósi breytinga sem kunna að hafa verið gerðir á matseðlum hátíðarinnar. Þegar allt er lagt saman fæst heildaryfirlit hráefnis sem kallað er eftir úr öllum áttum og flutt er dagfari eða náttfari til Dalvíkur síðustu þrjá sólarhringana áður en aðalfjörið brestur á.

Helgarinnkaup í tonnatali

Þetta hljóta að vera stórbrotnustu helgarinnkaup Íslandssögunnar því hér er eru stærstu einingar taldar í tonnum og þær smæstu í tugum kílóa, drykkir og brauð í þúsundum dósa og annað eftir því.

Í morgunsárið var farið yfir birgðastöðu á lager á hafnarsvæðinu og pantað það sem talið var vanta til að fylla í eyður á aðfangalistanum. Að því búnu settust Friðrik og Adda við fundarborð á kontórnum hjá Júlla Fiskidagsforstjóra.

Fiskidagurinn Mikli 2023

Ingigerður S. Júlíusdóttir, stöðvarstjóri við risagrillið, á vinnufundi með kokkum samkomunnar.

Við annan borðsendann sat Sigurður Jörgen Óskarsson, vinnslustjóri hjá Samherja, á Dalvík og skráði samviskusamlega hjá sér upplýsingar um bleikju, þorsk, rækju, fiskborgara, fiskipylsur (filsur) og fiskborgara. Hvenær er þetta væntanlegt til vinnslu, hvernig á að skera og hver fær hvað og hve mikið?

Veisluþjónusta

Við hinn enda borðs var Ingigerður S. Júlíusdóttir, annar tveggja stöðvarstjóra risagrillsins mikla, að ræða það sem að grillhernum snýr. Árgangur 1965 í Dalvíkurskóla tók að sér ábyrgð á grillmennskunni árið 2018. Ingigerður og Svala Sveinbergsdóttir, bekkjarsystir hennar, gerðust teymisstjórar hópsins, skipuleggja vaktakerfið og vakta framkvæmd mála:

„Við erum alls með um 40 manns í verkefninu og þrettán standa við grillið í einu. Vaktirnar voru áður tvískiptar en við ákváðum að hafa þær þrískiptar. Þetta gengur greiðlega fyrir sig og sögur um biðraðir við grillið eru stórlega ýktar.“

Himinlifandi Heinz

„Ýktar biðraðasögur, já, heldur betur!“ gall þá við í yfirkokknum. „Ég tók tímann með skeiðklukku á síðasta Fiskidegi og fékk staðfest aftur og aftur að fólk beið aldrei lengur en korter eftir fiskborgaranum sínum.

Sjálfur var ég í biðröð eftir hamborga fyrir sunnan ekki alls fyrir löngu. Sú bið var lengri en klukkutími og ég borgaði fyrir það sem ég fékk. Dettur einhverjum í hug að kvarta yfir því að verja í mesta lagi fimmtán mínútum ævi sinnar til að næla sér í unaðslegan ókeypis fiskborgara og það fyrir ekki neitt?

Fiskborgarinn verður minni í ár en áður, sem er í samræmi við ábendingu gesta um að hægt sé að draga þannig úr matarsóun. Við viljum að gestir kasti helst engum mat og kunnum vel að meta athugasemdir um að við ættum að minnka borgarana svo enginn þyrfti að leifa.

Samherji sér okkur fyrir fiski fyrir matarstöðvar dagsins og Innnes heildverslun leggur til allt grænmeti, krydd og fleira, nýtt samstarfsfyrirtæki í hópnum. Egils appelsín lætur í té drykki í dósum.

Síðast en ekki síst nefni ég sósuframleiðandann Heinz. Stjórnendur í aðalstöðvum Heinz í Bretlandi urðu himinlifandi þegar þeir sáu myndir frá Fiskideginum mikla og ákváðu þegar í stað að starfa með okkur. Heinz-vörur verða til staðar á nokkrum matarstöðvum og nú velja gestir til dæmis sjálfir sósur á fiskiborgarana sína þegar ljúfmetið rennur til þeirra fagurgrillað af færibandinu.“

Það er ARH/gestablaðamaður Fiskidagsins mikla sem skrifar.

Fiskborgari – uppskrift Friðriks V.

Fiskborgari – uppskrift Friðriks V. sem hann gaf Fiskideginum mikla. Hér kennir meistarinn okkur að búa til borgarann ljúfa í eldhúsunum heima!

Myndir: aðsendar

Almenn umfjöllun, víndómar og viðtöl, blandað ýmsum fróðleik um Ísland, mat, drykki og fleira því tengt.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið